11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í D-deild Alþingistíðinda. (4708)

904. mál, veggjald á Reykjanesbraut

Jón Skaftason:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður var að hvetja okkur stjórnarstuðningsmenn úr Reykjaneskjördæmi til að standa nú með þeim þm., sem skipa stjórnarandstöðuna úr því sama ágæta kjördæmi, um að berjast fyrir því, að vegarskatturinn verði afnuminn. Ég vona, að það taki okkur núv. stjórnarþm. úr Reykjaneskjördæmi ekki nema árið að fá þetta niður fellt, þó að fyrrv. stjórnarstuðningsmönnum úr Reykjaneskjördæmi hafi ekki miðað neitt áleiðis í heil sex ár. En þess var getið hér í upphafi af hæstv. samgrh., að einn orðsnjallasti stjórnmálaforingi þessa lands síðustu áratugina, Ólafur heitinn Thors, hefði nefnt veginn frá Hafnarfirði og suður á Suðurnes „Ódáðahraun íslenzkra vega“, og vissulega var það satt. Það vissu allir, sem um þennan veg fóru, að þá fyrst reyndi verulega á bifreiðar á þjóðvegakerfi landsins, þegar á þennan vegarspotta kom, og ég vil í því sambandi mótmæla því sérstaklega, sem fram kom hjá hæstv. samgrh. áðan, að vegagerðin á Reykjanesbraut hafi verið sérstök forréttindi fyrir Suðurnesjamenn.

Það gerðist í nóv. 1960, að byrjað var á að leggja þessa braut en þá stóð svo á, að öllum var augljóst, að til þess að Íslendingar gætu notið þess hagræðis, sem var bundið við flugstarfsemi á alþjóðaflugleiðum, þá varð að gera annað tveggja: að byggja hér nýjan flugvöll einhvers staðar í námunda við Reykjavík ellegar að leggja betri veg suður til Keflavíkurflugvallar frá Reykjavík. Það síðara varð ofan á, það var ákveðið að endurbyggja Reykjanesbrautina. Ég dreg það fyllilega í efa, eins og hugarfari fyrrv. ráðenda í þessu landi virðist hafa verið farið til þessa landssvæðis, að ef þessi brýna þörf fyrir góðar samgöngur við Keflavíkurflugvöll hefði ekki komið upp og orðið öllum augljós á þessum tíma, þá hefði verið lagt í byggingu Reykjanesbrautar. Ég tel, að reynslan gefi mér heimild til þess að segja þetta.

Ég vil taka fram, að strax eftir að núv. ríkisstj. komst til valda, þá var það eitt af mínum fyrstu verkum að ræða við hæstv. samgrh. um þetta veggjald og reyna að beita þeim áhrifum, sem ég hef haft innan ríkisstj. og í stjórnarflokkunum, til þess að það verði fellt niður sem fyrst. Ég hef einnig reynt að fá þá til þess að hjálpa mér í þessu máli, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., og ég tel mig geta hér frá því skýrt, að ég hef fengið frekar góðar undirtektir hjá þeim í sambandi við þá málaleitan.

Nú er talað um, að það komi til álita að fella þetta veggjald niður í sumar, þegar svipaðir áfangar verði til á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Ég vil gefa þá yfirlýsingu hér, að ef hæstv. ríkisstj. felist ekki á það að fella veggjald niður frá þeim tíma, þá er ég reiðubúinn sem þm. ásamt með öðrum þeim þm., sem hér kunna að finnast, að beita mér fyrir því, að sú heimild, sem er fyrir ráðh. í vegalögum til þess að leggja á þennan skatt, verði felld niður. Ég tel það fráleitt, að þegar vegalög eru sett og þegar hin almenna heimild er samþykkt, m.a. með mínu atkv., til samgrh. að ákvarða veggjald með setningu reglugerðar, eins og lögin kveða á um, að maður geti búizt við því, að þá þegar hafi hæstv. fyrrv. samgrh. ætlað að nota þá heimild þannig, að um leið og hann fengi sambærilegan veg Reykjanesbrautinni frá Reykjavík austur að Selfossi, þá ætlaði hann að fella niður vegskattinn á Reykjanesbrautinni. Sem sagt láta þá, sem nota þá braut, greiða það gjald eina landsmanna, en fella það svo niður um leið og hann fengi svipaðan veg í sitt eigið kjördæmi. Þeir, sem hæla vilja slíkum vinnubrögðum, geta gert það fyrir mér. Ég tek ekki undir það. Og ég hef sagt og ég stend við það, að siðferðilega væri rétt, að sá greiddi vegaskattur, sem hefur verið borgaður á sex árum, yrði endurgreiddur Suðurnesjamönnum til sameiginlegra þarfa í vegamálum eða öðrum aðkallandi hagsmunamálum á Suðurnesjum. Ég tel það fráleitt, að einn ráðh. geti mismunað íbúum landshluta þannig, eins og hann greinilega hefur ætlað sér að gera, þegar hann ákvað vegskattinn á Reykjanesbraut, en virðist frá byrjun hafa verið ákveðinn í því, að aldrei skyldi til þess koma, að sambærilegur skattur yrði lagður á sambærilegan veg austur að Selfossi. Ég get ekki hælt slíkum vinnubrögðum. Þess vegna endurtek ég þá yfirlýsingu, að ef hæstv. ríkisstj. mót von minni ætlar að halda áfram innheimtu vegskattsins, eftir að vegurinn er kominn austur að Selfossi, þá skal ekki standa á mér að flytja till. með þeim, sem til þess fást hér á hv. Alþ., um að fella hann niður og breyta lögunum.

Ég vil svo aðeins að endingu, til þess að hvetja hæstv. samgrh. til að ganga nú djarflega fram í þessu og fella þennan skatt helzt niður frá næstu áramótum, leyfa mér að lesa samþykkt, sem hefur verið gerð í kjördæmisráði SF í Reykjaneskjördæmi, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjördæmisráðið skorar á samgrh. að láta fara fram athugun á því, hvort ekki sé rétt, að innheimta vegtolls á Reykjanesbraut verði felld niður. Kjördæmisráðið bendir sérstaklega á, að forsendur fyrir innheimtu tollsins eru ekki lengur fyrir hendi, ef ekki er fyrirhugað að innheimta vegtoll á þeim hraðbrautum, sem nú er verið að vinna að á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi.“