11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í D-deild Alþingistíðinda. (4709)

904. mál, veggjald á Reykjanesbraut

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það var lesin yfir mér núna samþykkt, sem SF hefur gert um þetta Reykjanesbrautarmál fyrir skömmu siðan. Ég fékk nú engan hjartslátt út af því, því að ég er búinn að vera á fundum með stuðningsmönnum SF í Kópavogskaupstað og svara fsp. minna stuðningsmanna þar um þetta mál á svipaðan hátt og ég hef gert fyrir Alþ., og ég held, að þeim hafi fundizt svarið sanngjarnt. Og það verða, held ég, allir hv. alþm. að viðurkenna, að það er sanngjarnt að taka ákvörðun um þetta, þegar hliðstæður myndast í vegamálum hjá okkur við þann veg, sem við erum hér að ræða um. Afstaða fyrirrennara míns til þessa máls kom, eins og ég sagði áðan, fram í viðtali við hann, sem birt var í Morgunblaðinu, og spurningin til hans var ósköp svipuð þeirri, sem beint var hér að mér og þinginu. Þar segir:

„Vegagjald á Suðurnesjaveginum, þ.e. Reykjanesbrautinni, hefur valdið nokkrum deilum.. Er þess að vænta, að það verði fellt niður?“

Ráðherrann hefur við þetta langt svar, en það, sem máli skiptir, er kaflinn, sem ég vil nú lesa, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir: „Það gegnir auðvitað allt öðru máli, þegar fleiri komast í þessa aðstöðu.“ — Hann viðurkennir þarna sérstöðu, þó að það sé því miður nokkuð seint. — „Það eru allir sammála um, að ekki sé unnt að innheimta vegagjald af Norðlendingum eða öðrum, sem lengra eiga að og aka um Vesturlandsveg, þó að hann verði góður allt upp í Kollafjörð eða Hvalfjörð og enn lengra áleiðis vestur. Þá er þar aðeins um að ræða lítinn hluta þeirrar vegalengdar, sem þeir þurfa að aka. Sama máli gegnir með Suðurlandsveginn. Þótt vegurinn verði góður austur að Selfossi, þætti Rangæingum og Skaftfellingum eflaust ekki gott að greiða gjald fyrir varanlegan veg, er liggur aðeins hluta af þeirri leið, sem þeir aka. Að vísu er ekki ætlunin að stöðva hraðbrautargerðina við Selfoss, en hún kemst þó ekki lengra en þangað á árinu 1972.“

Og þá herðir blaðamaðurinn á og segir: Verður veggjaldið á Suðurnesjaveginum þá fellt niður? Þá segir hæstv. ráðh. þáv.:

Þm. Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi“, —- þeir, sem hafa nú hér verið að tala, — „og skoðanabræður þeirra í málinu hafa oft óskað eftir því, að það yrði afnumið. Í framhaldi af því, sem ég hef verið að segja, þá vil ég segja, að það verður ekki lagt vegagjald á Suðurlandsveginn eða veginn norður. Og samkvæmt því, sem ég hef nú verið að segja, er augljóst, að veggjaldið á Suðurnesjaveginum verður afnumið.“

Þetta er það, sem kom hér fram hjá frsm. áðan, að ráðh. hefði tekið ákvörðun um að afnema gjaldið. Það stendur þarna á síðum Morgunblaðsins, að þegar hann er búinn að slá því föstu, að ekki verði lagt veggjald á Vesturlandsveg eða Suðurlandsveg, þá leiði af því, að þá verði vegagjaldið lagt niður. En að öðru leyti hef ég engin tímamörk fundið um ákvörðun ráðh. né séð ákvörðun hans nokkurs staðar annars staðar en á síðum Morgunblaðsins.

Það er kannske ánægjulegast að geta sagt já, já við öllu, en ég hef ekki þá afstöðu. Ég tel, að það sé bezt að segja hreinskilnislega frá því, sem manni býr í brjósti, þó að það sé ekki að allra ósk. Svo virðist líka sem hæstv. ráðh., þrátt fyrir þessi orð í Morgunblaðinu, hafi haft áform um það að innheimta veggjaldið út árið 1971 og allt árið 1972, og því kemur hv. 1. þm. Reykn. með tímamörkin 1. jan. 1973, og hann meira að segja styður það með þeim upplýsingum, að í bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1972 sé enn gert ráð fyrir tekjum af veggjaldi af Reykjanesbraut. Ýtrustu vonir, sem þm. Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi hefðu getað gert sér um niðurfellingu þessa gjalds, eru miðaðar, eins og hv. þm. sagði, við nýársdag 1973. Og fyrir þann tíma verður áreiðanlega búið að taka „prinsip“-afstöðu um þetta mál, að láta Reyknesinga ekki búa eina við sérstakt veggjald, ef aðrir hafa fengið sambærilegar umbætur á þjóðarinnar kostnað í vegagerð eins og þeir. En ég er alveg viss um það, að þó að þeir tali um þetta sem ranglátt gjald, sem eiga við það að búa, þá mundu þeir ekki vilja, að vegamál þeirra væru sem áður var. Það minnir mig á þjóðsöguna skemmtilegu, stuttu og skemmtilegu í þjóðsögum íslenzkum. Það var á hérvistardögum lausnarans, — það er langt síðan, — að hann kom að konu, sem greiddi undurfagurt hár. Og frelsarinn dáðist að þessu fagra hári konunnar. Hann leyfði sér það. En hún lét lítið af þessu og sagði: „Það var ég hafði hárið.“ „Verði þá sem var“, sagði lausnarinn, og þá blasti við grænn geitnakollur.