11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í D-deild Alþingistíðinda. (4712)

904. mál, veggjald á Reykjanesbraut

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég skal ekki níðast á þolinmæði forseta og hafa langt mál hér. En ástæðan til þess, að ég finn mig knúinn til að koma upp aftur og segja hér nokkur orð, eru þau orð hv. 1. þm. Reykn. hér áðan, að ég hefði viðhaft, að mér skildist, óviðeigandi ummæli um afstöðu fyrrv. samgrh. til þessa máls, sem ég algerlega mótmæli. Ég vil minna á það, að ég hef á tveim þingum flutt brtt. við vegalögin í þá stefnu, að það yrði ekki á valdi ráðh. eins að ákvarða, á hvaða sambærilega vegi skyldi lagt veggjald og á hvaða vegi skyldi ekki lagt veggjald. Ég hefði viljað láta setja í lögin almennar reglur um það, að sambærilegir vegir, hvar sem þeir væru, skyldu annaðhvort allir bera veggjald eða ekki bera veggjald. Sá hv. þm., sem harðast barðist gegn því, að þessi brtt. mín næði fram að ganga, var hæstv. fyrrv. samgrh. Og hann hefur væntanlega haft sínar ástæður fyrir því. Svo geta menn brotið heilann um, hvort það sé tilviljun einber, að veggjaldið á Reykjanesbraut er byrjað aðleggja á í okt. 1965, raunar rúmum tveimur árum áður en veginum er fulllokið. Það á að fella það niður í lok árs 1972 eða um líkt leyti og vegurinn til Selfoss kemur í gagnið. Menn geta velt því fyrir sér, hvort hér sé eingöngu um tilviljun að ræða.