16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í D-deild Alþingistíðinda. (4715)

905. mál, stofnun fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram fsp. til hæstv. menntmrh. varðandi skipun skólanefndar og stofnun fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum. Á fundi bæjarstjórnar 28. maí var m.a. samþykkt að fela bæjarstjóra að fara fram á það við menntmrn., að skipuð yrði skólanefnd fyrirhugaðs fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum, en í 6. gr. laga um fiskvinnsluskóla, sem samþykkt voru hér á Alþingi 2. apríl s.l., segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skólinn skal staðsettur á Suðvesturlandi. Auk þess skal stofna fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum, sem útskrifi fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara.“ Og enn fremur: „Rn. skipar þriggja manna skólanefnd til fjögurra ára í senn. Skal einn þeirra tilnefndur af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, annar af samtökum fiskiðnaðarins á hverjum stað, en hinn þriðja skipar rn. án tilnefningar, og skal hann vera formaður nefndarinnar.“

Í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar og 6. gr. laga um fiskvinnsluskóla leyfi ég mér að bera fram þá fsp., sem hér er að finna á þskj. 70.