16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í D-deild Alþingistíðinda. (4717)

905. mál, stofnun fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, þó að mér hafi komið niðurstaða hans nokkuð á óvart og tel það allkaldar kveðjur til okkar í Vestmannaeyjum, að hann sjái sér ekki einu sinni fært að gefa þinginu vitneskju um, hvenær hann muni skipa skólanefnd fyrirhugaðs skóla, sem stofna ber þar samkv. lögum.

Mér þykir rétt að fara aðeins í mjög stórum dráttum yfir hugmynd Vestmanneyinga í sambandi við fiskvinnsluskóla, þó að það hafi verið rakið hér ítarlega áður, en það var ekki í viðurvist hæstv. núv. menntmrh. Ég tel einmitt, að fiskvinnsluskóli sé ein af þeim stofnunum, sem Alþ. eigi að beina út á landsbyggðina, en ekki endilega hafa hér í höfuðstaðnum, ef aðstæður eru til og þess er kostur. Í sambandi við stofnun fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum vil ég geta þess, að þar eru allar aðstæður til stofnunar fiskvinnsluskóla ekki síður en hér í Reykjavík. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur til reiðu húsnæði til bóklegrar kennslu. Fiskvinnslustöðvarnar þar hafa gefið yfirlýsingar um, að þær muni veita aðstöðu nemendum úr fiskvinnsluskóla til verklegs náms, ef þess verður óskað. Til viðbótar þessu vildi ég geta þess, að í Vestmannaeyjum er nú verið að setja á stofn Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sem verður rekin af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hér í Reykjavík eða í nánum tengslum við hana. Það var alltaf talið nokkurt grundvallaratriði, að slík rannsóknastofnun væri fyrir hendi, þar sem fiskiðnskóli yrði stofnaður, og einmitt í og með af þeim ástæðum hefur verið ráðizt í það, að Vestmanneyingar sjálfir hafa lagt allan stofnkostnað fram til að koma á fót rannsóknastofnun og fengið vilyrði um, að stofnunin verði rekin undir eftirliti og í samráði við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hér í Reykjavík, þannig að sú hlið á málinu ætti einnig að vera mjög trygg, að hún sé á þann veg, sem til er ætlazt. Ég verð því að harma það mjög, að það skuli nú koma fram hjá hæstv. menntmrh., að hann sjái sér ekki einu sinni fært að skipa þessum skóla skólanefnd, því að eins og hann gat um, þarf að vinna þar nokkurt undirbúningsstarf, og ég mundi því telja mjög eðlilegt, að nefndin yrði þegar skipuð, þannig að hægt yrði að stefna að því að koma skólanum þar á fót, ég segi hiklaust, næsta haust. Þá verður komin sú reynsla á skólann hér, að það ætti að vera óhætt að halda áfram með stofnun skólans í Vestmannaeyjum.

Ég held, að það sé mjög úr lausu lofti gripið eða röng hugmynd, ef hæstv. menntmrh. heldur, að það sé ekki þörf fyrir fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum. Eins og vitað er, er þetta stærsta bátaútgerðarstöð landsins með mjög fjölþættan fiskiðnað í öllum greinum, og fiskiðnaðinn í Vestmannaeyjum vantar beinlínis fólk með þá menntun, sem fiskiðnskólinn gerir ráð fyrir. Ég vil því mjög eindregið mælast til þess við hæstv. ráðh., að hvað sem líður yfirlýsingu um stofnun fiskiðnskóla, þá gefi hann okkur yfirlýsingu um, að hann sé reiðubúinn til að skipa nefnd til undirbúnings málinu.