16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í D-deild Alþingistíðinda. (4722)

65. mál, happdrættislán ríkissjóðs

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. eða fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að tvímælalaust heyrir framkvæmd laga um happdrættislán ríkissjóðs undir samgrn., en vissar aðgerðir varðandi þetta mál heyra þó tvímælalaust undir fjmrn. Með tilliti til þess mun það hafa verið, að þann 24. júní 1971 ritaði samgrn. fjmrn. á þessa leið:

„Með vísun til laga nr. 12 frá 23. marz 1971 um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna brúagerðar á Skeiðarársandi, er opni hringveg um landið, óskar rn. þess hér með, að fjmrn. sjái um framkvæmd téðra laga. Er þess jafnframt óskað, að fjmrn. annist um útgáfu og sölu happdrættismiða samkv. lögunum sem allra fyrst.

Ingólfur Jónsson.“

Fjmrn. tók þetta að sér og mun hafa snúið sér til Seðlabanka Íslands um það að ganga nánar frá öllum formsatriðum og gera till. um framkvæmd málsins. Þegar okkur í samgrn. hafði ekki borizt bréf eða nein vitneskja frá fjmrn. um framkvæmdir í málinu, þá var aftur ritað bréf til fjmrn. þann 29. okt. í haust. Þar segir:

„Með bréfi dags. 24. júní þ. á. óskaði rn. eftir, að fjmrn. sæi um framkvæmd laga nr. 12 frá 23. marz 1971 um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna vega- og brúagerðar á Skeiðarársandi, er opni hringveg um landið. Spyrst rn. hér með fyrir um, hvað gert hafi verið til að koma lögunum í framkvæmd.“

Samgrn. var að vísu kunnugt um, að fjmrn. hafði leitað til Seðlabankans um aðgerðir í málinu, en þegar svör bárust ekki, var enn ritað bréf til fjmrn. þann 10. nóv., og í því bréfi segir m.a.:

„Í bréfi dags. 24. júní þ. á. fór rn. þess á leit við fjmrn., að það annaðist framkvæmd laga nr. 12 frá 23. marz 1971 um happdrættislán ríkissjóðs. Þetta var í samræmi við verkaskiptingu rn., sbr. 6. tölul. 5. gr. auglýsingar nr. 96 frá 31. des. 1969, um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, og einnig ber undirritun fjmrh. með forseta Íslands undir téð lög nr. 12 frá 1971 vott um það, að litið hefur verið þannig á, að lögin væru í verkahring fjmrn. Rn. vísar einnig til bréfs sins til fjmrn. dags. 29. f. m., þar sem spurzt er fyrir um aðgerð fjmrn. varðandi framkvæmd téðra laga.“

Meira er ekki ástæða til að lesa úr þessu bréfi annað en niðurlagið: „Með vísun til framanritaðs óskar rn. hér með upplýsinga um þau atriði, sem fsp. fjallar um“, þ.e. hin fram komna fsp., sem hér er til umr., „og þarf svar að berast fyrir 15. þ. m.“

Einmitt nú þann 15. þ.m. barst samgrn. bréf frá fjmrn., þar sem segir, að eftir móttöku bréfs samgrn. þann 10. þ.m. taki rn., þ.e. fjmrn., fram eftirfarandi:

„Í tíð fyrrv. ríkisstj. var Seðlabanka Íslands falinn undirbúningur að útgáfu happdrættisláns í samræmi við lög nr. 12 frá 1971. Tæknilegum undirbúningi málsins er langt komið. Á hinn bóginn hefur Seðlabanki Íslands látið í ljósefasemdir um, að skuldabréf af þessu tagi mundu seljast, og hefur rn. því í framhaldi af þessu haft forgöngu um, að gerð verði drög að nýju frv.“

Með þessu bréfi fylgdu svo drögin að hinu nýja frv. Ég hef kynnt mér þetta frv., og í því eru tvær meginbreytingar frá lögum nr. 12 frá 1971. Aðalbreytingin er sú, að heimildar er aflað til að binda endurgreiðslu höfuðstólsins vísitölu, og jafnframt er lagt til í hinu nýja frv., að fjárhæð happdrættisskuldabréfa þeirra, sem lögin ákveða, að ríkissjóður gefi út, verði hækkuð úr 200 millj. í 250 millj.

Þá er enn fremur lagt til í hinu nýja frv., að fjmrn. ákveði, hve mikill hluti lánsins verði boðinn út í hverjum flokki, og telur Seðlabankinn þetta vera hagkvæmara, þar sem sölumöguleikar bréfanna kunni að geta orðið breytilegir. Í 5. gr. þessa nýja frv. er svo lagt til, að vinningar nemi 7% af heildarfjárhæð skuldabréfanna í hverjum flokki, sem er sama hlutfall og ráðgert var í lögum nr. 12 frá 1971, og verður dregið um vinningana einu sinni á ári. Enn fremur er lagt til, að fjmrn. ákveði tölu vinninga, fjárhæð þeirra hvers um sig og útdráttardag, sem tilgreindur verði í happdrættisskuldabréfunum.

Málið er því nú komið í það horf eftir till. Seðlabankans, að það verði borið hér fram nýtt frv„ þar sem lánsupphæðin sé ákveðin 250 millj. og að framlögin verði vísitölubundin, til þess að þeir, sem leggja fram fé til kaupa á happdrættismiðunum, fái ekki vexti af lánunum, en ef þeir fá ekki vinning, þá eiga þeir að fá féð aftur og þá með vísitölubótum, og það telur Seðlabankinn, að sé nauðsynlegt, til þess að um sölumöguleika sé að ræða.

Þessi meðferð málsins hefur verið borin undir þm. Austf. að mér er tjáð, og þeir munu tjá sig samþykka því, að sú málsmeðferð verði viðhöfð, að nýtt frv. verði borið fram og með þessum meginbreytingum til þess að auka líkur fyrir sölumöguleikum á happdrættismiðunum og þar með tryggja betur fjárhagslega stoð fyrir framgang málsins.

Þetta er saga málsins og það, hvernig málið hefur farið frá samgrn. að þessu leyti og til fjmrn., sem hefur komizt að þessari niðurstöðu eftir tilvísun og ráðleggingum Seðlabankans.