16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í D-deild Alþingistíðinda. (4724)

65. mál, happdrættislán ríkissjóðs

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það gleður mig, að alþm. af Suðurlandi gerir þessa fsp., sem byggist á áhuga fyrir því, að hringvegi um landið verði lokið. Það er raunar langt frá því, að nokkurt einsdæmi sé, að alþm. annars staðar frá en af Austurlandi sýni áhuga á þessu máli. Því fer fjarri, því að ýmsir þeirra hafa sýnt á þessu máli mikinn áhuga. En sérhver einlægur vottur um áhuga og skilning á þessu máli gleður okkur, sem höfum unnið að því undanfarin ár, og auðvitað ekki sízt þm. Austf.

Það er misskilningur í annars velviljuðu tali hv. fyrirspyrjanda, að það hafi verið sofið á þessu máli um sinn. Ég vil koma því nú inn í þingtíðindin, að í stjórnarsamningi þeim, sem hefur verið gerður á milli núv. stjórnarflokka, er tekin sú stefna að ljúka hringvegi um landið. Enn fremur hafa þm. af Austurlandi í allt sumar og haust staðið í sambandi við ríkisstj. og einstaka ráðh., hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh., um þetta mál, og í framhaldi af þeim viðræðum lýsti hæstv. samgrh. því yfir, sem kunnugt er, að það væri stefnan að ljúka þessum mannvirkjum á þremur árum og hefjast handa næsta vor. Þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. og stjórnarsáttmálinn voru alveg vegamót í þessu máli. Við höfum líka haft samband við ráðuneyti og Seðlabanka til þess að ýta á eftir því, að lánsútboðið færi fram á happdrættisláninu, en það hefur komið í ljós, að Seðlabankinn taldi, eins og hæstv. samgrh. minnti hér á, að kjörin væru ekki nægilega aðgengileg. Þá vildum við heldur vinna það til, að þetta biði eitthvað og hafa kjörin nægilega aðgengileg, heldur en leggja ofurkapp á, að farið væri á stúfana með happdrættislánið með lakari kjörum en Seðlabankinn taldi góð og gild.

Ástæða er til þess að fagna stórkostlega þeirri stefnu, sem tekin hefur verið í þessu máli, og þó að vegamálastjóri og hans menn hafi látið í ljós þá skoðun, að það mundi vera heppilegra að vinna þessi verk á fjórum árum en þremur, þá hef ég fyrir mitt leyti alls ekki enn gefið upp vonina um, að þessum framkvæmdum geti orðið lokið 1974.

Að ljúka hringveginum um landið er þannig vaxið málefni, að um það þarf að verða þjóðarvakning, og svo mun raunar verða og er að verða. Menn sjá í hendi sér, að engin ein framkvæmd, að fráskilinni útfærslu landhelginnar, sem er mál málanna, getur orkað jafnmiklu til bóta á landinu og einmitt þessi, að opna landleiðina umhverfis Ísland. Allt viðhorf til ferðalaga og afnota þjóðarinnar af landinu gerbreytist. Nú hugsa flestir landið eins og tanga, því að leiðin lokast við Lómagnúp eða Skaftafell, og við það hefur þjóðin búið nálega 1100 ár. Brúum við þetta bil, nýtur landið fyrst til fulls kosta sinna sem eyland, sem það er, og öll viðhorf breytast til hagræðis og aukinnar lífsnautnar fyrir alla þjóðina. Við þetta losnar þjóðin í raun og veru úr læðingi í sínu eigin landi, því að það er band að búa við óbrúað bil á landinu, sem nálega ekki verður yfir komizt nema loftleiðis.

Ég endurtek enn það sama og oft áður, að engin framkvæmd er verðugri landinu til handa frá þjóðinni, sem á því hefur búið í 1100 ár, en einmitt þessi, að ljúka hringveginum 1974. Um þetta verða allir að standa saman. Þetta er vel kleift, og það er gott að minnast þess nú, að búið er að taka þá ákvörðun að hefjast handa næsta vor.