16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í D-deild Alþingistíðinda. (4727)

65. mál, happdrættislán ríkissjóðs

Fyrirspyrjandi (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég held, að ég komist ekki hjá því að gera örstutta aths. við mál þeirra manna, sem hér hafa talað á undan mér og siðan ég talaði siðast. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að það virðast allir vera sammála um það að hraða þessu máli. Þó telja þeir, að ég hafi verið með óþarfa getsakir um það, að nú ætti að liggja á málinu. Það má vel vera. En svo vill oft fara, þegar maður er fullur af áhuga fyrir einhverju máli, að þá finnst manni oft aðrir fara hægar en maður vildi.

Ég get ekki látið af því, að mér finnst það með öllu óeðlilegt, sem ég gat um áðan, að bera þessa breytingu eingöngu undir austfirzka þm., en ekki sunnlenzka, því að ég gat um það í minni ræðu hér áðan, að vitanlega snerti þetta fyrst og fremst þau byggðarlög, þar sem vegarendarnir stæðu nú. En látum það vera. Ég skal ekki gera neitt úr því frekar. En ég verð að átelja það, sem kom fram hér í ræðu hæstv. fjmrh., þar sem hann vildi fara að bera saman einhverja þáltill., sem hann hafði flutt og ekki fengið framkvæmda, og það hefði þess vegna verið réttlætanlegt, að hann hefði ekki staðið eins vel að framkvæmd þessara laga, sem sett voru hér í fyrra. Mér finnst þetta ekki vera eins og það á að vera.

Ég hygg, að þingheimur virði mér það til vorkunnar, þó að ég hafi ekki lagt allt of mikið upp úr því, sem segir í málefnasamningi ríkisstj. um hringveg um landið, því að þar minnir mig, að standi aðeins þessi eina setning: „Ljúka þarf hringvegi um landið.“