14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

1. mál, fjárlög 1972

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér litla brtt. á þskj. 184 þess efnis að framlag til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins sé hækkað úr 3 millj., eins og það er í fjárlagafrv., í 6 millj. En þess ber að geta, að á þskj. 174 frá hv. fjvn. er búið að gera till. um að hækka þessa upphæð upp í 4 millj. Ég hef átt sæti í stjórn Útflutningsmiðstöðvarinnar síðan sú stofnun byrjaði og mér finnst einhvern veginn endilega, að hér hljóti að vera um einhvers konar misskilning að ræða eða þá að málið hafi ekki verið lagt nógu glöggt fyrir hv. fjvn. Ég flyt þetta vegna þess að ég vil freista þess, hvort hv. n. vill ekki taka þetta mál til endurskoðunar, þegar ég hef skýrt nokkuð frá málinu í heild og þegar menn átta sig á því, hvernig þessum málum er varið. Þetta er náttúrlega litil hækkun, sem hér er farið fram á, en lög um Útflutningsmiðstöð iðnaðarins frá síðasta Alþ., sem ég ætla, að allir flokkar hafi verið sammála um, fela það beinlínis í sér, að það er nauðsynlegt að hafa nokkra fjárveitingu til þessarar stofnunar.

Í 1. gr. þeirra laga stendur: „Stofnendur eru Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Samband ísl. samvinnufélaga, viðskrn. og iðnrn. fyrir hönd íslenzka ríkisins.“ Þessir aðilar allir tilnefna samkv. lögunum menn í stjórn þessarar stofnunar, en ef við athugum lögin ofurlítið nánar, þá sjáum við, að tilgangur Útflutningsmiðstöðvarinnar er að efla útflutning íslenzkra iðnaðarvara og veita honum fyrirgreiðslu með því m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„1. Að kynna íslenzkan iðnvarning á erlendum vettvangi með þátttöku í vörusýningum og á annan hátt og veita upplýsingar um útflutningsiðnað á Íslandi.

2. Að framkvæma markaðsathuganir erlendis fyrir iðnfyrirtæki á Íslandi og annast upplýsingamiðlun varðandi markaðshorfur og annað, sem útflutningssölu varðar.

3. Að leiðbeina iðnfyrirtækjum um útflutning og söluaðgerðir á erlendum mörkuðum.

4. Að skipuleggja sameiginlega útflutningsstarfsemi iðnfyrirtækja og greiða fyrir samvinnu þeirra á milli.

5. Að vekja athygli iðnfyrirtækja á útflutningsmöguleikum og veita hvatningu um hagnýtingu á þeim.

6. Að annast milligöngu um sölu á iðnaðarvörum til útlanda og stofnun viðskiptasambanda varðandi íslenzkar iðnaðarvörur.“

En varðandi kostnaðinn við þessa starfsemi segir svo í 5. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Kostnaður af rekstri Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins skal greiðast fyrst um sinn af árlegri fjárveitingu ríkissjóðs og framlagi annarra stofnenda. Auk þess skal Útflutningsmiðstöðinni heimilt að krefjast þóknunar af þeim aðilum, sem hún veitir þjónustu. Útflutningsmiðstöðin er undanþegin opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs og sveitarsjóða.“

Það er þess vegna alveg ljóst, að þegar hv. Alþ. samþykkti þessi lög fyrir nokkrum mánuðum, þá hefur það greinilega verið tilgangur hv. Alþ., að þessi starfsemi skyldi verða verulega styrkt af ríkinu. Og það má segja, að það sé, en á þessu yfirstandandi ári hefur Útflutningsmiðstöð iðnaðarins fengið, að ég ætla, 4.1 millj. frá ríkissjóði og auðvitað sjá allir, að ef á að auka þessa starfsemi eitthvað, þá er þess ekki nokkur kostur með því fjárframlagi, sem hér um ræðir. En til viðbótar þessu tel ég mig geta fullyrt, að allir eða a.m.k. flestir núv. hv. þm. hafa sýnt iðnaðinum mjög mikinn áhuga, svo að ekki sé meira sagt. Ýmsir hafa flutt till. og fsp. Þar á meðal hef ég flutt fsp. um það, hvenær vænta megi afurðalána til handa iðnaðinum og hæstv. iðnrh. eða viðskrh. minnir mig, að það væri, svaraði þeirri fsp. á þann hátt, að sú væri hans meining, að slíka fyrirgreiðslu fengi iðnaðurinn. Og mér er kunnugt um það, að hæstv. iðnrh. hefur skrifað hv. fjvn. og farið mjög ákveðið fram á það, að þessi upphæð væri hækkuð upp í 6 millj. kr. Enn fremur hafa þm. flutt frv. um eflingu Iðnlánasjóðs og fyrir nokkru flutti hv. 4. þm. Reykv. og fleiri hv. framsóknarþm. till., sem sýnir það mjög greinilega, að Framsfl. vill vinna að eflingu og aðstoð við iðnaðinn í landinu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í þáltill., að iðnfyrirtæki fái víxlasöluheimild til sölu á allt að 90 daga löngum víxlum og auk þess yfirdráttarheimild. Og till. er flutt til að stuðla að því, að iðnaðinum sé a.m.k. tryggt visst Lágmark rekstrarlána, sem hann vissulega þarf með.

Fleiri hv. þm. hafa talað um og mig minnir, að það sé nefnt í þeim margnefnda stjórnarsáttmála, að það skuli virkilega reyna að gera eitthvað til þess að aðstoða iðnaðinn, einkanlega þann, sem hneigist að útflutningi iðnaðarvara.

Nú er mikið til siðs að tala um eflingu á útflutningsiðnaði og þeir aðilar, sem mest hafa að þessum málum unnið, eru Samband ísl. samvinnufélaga, sem er aðili að Útflutningsmiðstöðinni, og Útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Ef við lítum aðeins á þann árangur, sem af þessum málum hefur orðið núna síðustu árin, þá hef ég hér upplýsingar um, að útflutningur á íslenzkum iðnaðarvörum á árinu 1971 hefur gengið vel, sérstaklega útflutningur á fatnaðarvörum og hvers konar ullar- og skinnavörum, þar með loðsútuð skinn. Fyrstu 10 mánuði ársins nam heildarverðmæti þessa útflutnings 305 millj. kr. á móti 230 millj. á sama tíma í fyrra. Þróunin hefur orðið sú, að 1968 var þessi útflutningur 74 millj., 1969 187 millj., 1970 330 millj. og má reikna með, að á þessu ári verði hann um 450-470 millj. Þetta skiptist á árið 1970 þannig, að loðsútuð skinn og húðir voru 166 millj., ullarlopi og ullarband 32 millj., ullarteppi 30 millj., prjónavörur úr ull 100 millj., annar ytri fatnaður 4 millj. og vörur úr loðskinnum 6 millj. tæpar. Það er þannig augljós þróun í þessum málum, sem hlýtur að koma öllum til góða og þá ekki hvað sízt þeim aðilum, sem atvinnu hafa við þessa framleiðslu. Eftir markaðssvæðum skiptist þessi sala þannig á siðasta ári, að til Bandaríkjanna og Kanada fór fyrir 98 millj., til Austur-Evrópu 96 millj., til EFTA-landa 89 millj., til Efnahagsbandalagslanda 45 millj. og til annarra landa tæpar 3 millj. Útflutningsmiðstöðin hefur á því tímabili, sem hún hefur starfað, og útflutningsskrifstofa iðnaðarins áður, unnið markvisst að því að reyna að sameina alla þá íslenzka aðila, sem í þessum útflutningsmálum iðnaðarins hafa staðið. Og það hefur líka áreiðanlega verið tilgangur löggjafans, þegar þessi lög voru sett snemma á þessu ári. Og mér finnst þess vegna skjóta nokkuð skökku við, ef þessi stofnun á ekki að fá nú það fjármagn, sem hún nauðsynlega þarf til þess að geta haldið rekstri sínum gangandi og þó heldur aukið hann. Fjárhagsáætlun Útflutningsmiðstöðvarinnar fyrir þetta ár er upp á 9 millj. Þar af var gert ráð fyrir, að greiddust úr ríkissjóði 6 millj., frá stofnendum 1 millj., frá vörusýningarnefnd 1 millj. og frá þátttakendum í sýningum um 1 millj. Gjöldin eru áætluð fyrst og fremst launa- og skrifstofukostnaður, sem er tæpar 4 millj., fata-, skinna-, sportvörusýningar, húsgagnasýningar, útgerðartækjasýning, silfursmíðasýning, vefjariðnaðatsýning og aðrar slíkar sýningar, 3.3 millj., þ.e. kostnaðurinn við sýningarnar beint, og svo til markaðsathugana vegna tækninýjunga og ýmissa annarra hluta og markaðsferða framleiðenda á millj., vegna matvælasýninga og heimboða erlendra kaupenda og fleira slíkt 800 þús., til almenns sýningarefnis, bæklinga, námskeiða o.fl. 450 þús., en þetta gerir 9 millj. Ef þessi stofnun fær nú ekki meira en þessar 4 millj., þá er það auðvitað augljóst mál, að það verður að draga saman seglin, og það má vel vera, að það sé meining valdhafa. En ég vil mjög eindregið biðja hæstv. fjmrh. að líta dálítið alvarlega á þetta mál ásamt með mörgum öðrum. En ef það þarf að draga saman seglin í þessari starfsemi, þá get ég sagt frá því líka, að það, sem við höfum undirbúið í formi sýninga erlendis, eru sýning í Kaupmannahöfn í vor, sem er fatnaðarsýning, tvær fatnaðarsýningar í Þýzkalandi, í Munchen í vor líka eða seinni partinn í vetur og skinnasýning í Frankfurt, gull- og silfursmiðasýning í Kaupmannahöfn, húsgagnasýning í Kaupmannahöfn og svo Íslandsvikur í Austurríki og Bandaríkjunum, en þar hafa núna á þessu hausti verið mjög víða sýningar, sem eru nú að gefa slíkan árangur, að ég vil reikna með því, að útflutningur á fatnaðarvörum til Bandaríkjanna og til fleiri landa sé nokkurn veginn öruggur fyrir þá framleiðslumöguleika, sem þessi litlu fyrirtæki hafa nú. En til að hv. þm. sé það líka kunnugt, eru fyrir utan Sambandið og Sláturfélagið mörg lítil fyrirtæki, sem vinna á vissan hátt sameiginlega að framleiðslu fatnaðar til útflutnings. Þessi fyrirtæki eru: tvö á Akranesi, eitt í Borgarnesi, eitt á Blönduósi, eitt á Egilsstöðum og nokkur í Reykjavík, eitt á Siglufirði, eitt á Húsavík, og þessi fyrirtæki hjálpa hvert öðru og vinna þannig og svo safna þau vörunum saman, en Útflutningsmiðstöðin á verulegan þátt í því að koma þessum vörum á markað erlendis. Og ég sé nú satt að segja ekki í fljótu bragði, að hægt sé að gera þetta á mikið annan máta, þar sem um lítil fyriræki er að ræða, sem engan veginn gætu gert þetta af neinu viti eða hefðu möguleika til þess, ef þau ætluðu að gera það sjálf. Þessar áætlanir hrynja, ef ekki er nokkur leið að afla þess lágmarksfjármagns, sem við höfum beðið um. Ég segi það auðvitað ekki, að Útflutningsmiðstöð iðnaðarins hætti, en hún verður að fækka verulega þeim sýningum,sem þarf að taka þátt í, og þegar við erum allir sammála um það, að ég ætla, að efla þurfi þennan útflutningsiðnað, þá finnst mér það ekki vera nein óskapa upphæð, sem mundi kollkeyra allt, þó að þessum þætti iðnaðarins væri hjálpað þarna um tvær millj. í viðbót. Ég veit, að það eru margir, sem biðja um margt, og það er ómögulegt að fullnægja öllum. En við þennan eina þátt, sem ég nefndi, vinna nokkur hundruð manns. Það er búið þegar að vinna mjög mikla undirbúningsvinnu í þessum efnum, það er búið að undirbúa það vel að kynna okkar vörur á mörkuðum erlendis, og það er ánægjulegt að geta sagt líka, að kaupendur eru ánægðir. Vörur okkar eru að vísu dálítið dýrar, en þrátt fyrir það eru kaupendur ánægðir. Og það er náttúrlega það, sem mest er um vert í þessum efnum.

Ég skal ekki segja og get ekki bent á, hvort það sé nægjanlegt kannske að hafa þessar 4 millj., og það eru sjálfsagt einhverjir sem koma til með að halda því fram. Og ég skal ekki segja um það, hvaða árangur næst með þeirri upphæð, ef hún verður látin standa áfram. En ég vil sterklega mælast til þess við hv. fjvn. og hæstv. fjmrh., að þessu litla máli sé nú þrátt fyrir allt veitt athygli og það verði tekið til athugunar að nýju. Við vitum, að þm. allir eru sammála um að reyna að efla þessa starfsemi, og það ætti að vera nokkur bending til þess, að það ætti þá að vera hægt að fá málið samþykkt. Við vitum, að það er verið að reyna að efla nýjan útflutningsiðnað frá Íslandi og það er iðnaðinum og Íslandi nauðsynlegt, og væntanlega er enginu á móti því. Við erum að reyna að framleiða úr íslenzku hráefni iðnaðarvörur, sem er mjög þýðingarmikið, bæði fyrir þá, sem framleiða hráefnið, og svo fyrir þá, sem hafa atvinnuna við þessa framleiðslu. Og að þessu öllu saman athuguðu vil ég ekki trúa öðru en hv. fjvn. og hæstv. fjmrh. taki málið aftur til athugunar, og í trausti þess leyfi ég mér að draga till. til baka til 3. umr., herra forseti.