16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í D-deild Alþingistíðinda. (4732)

906. mál, landshlutaáætlanir

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Gerð landshlutaáætlana og útvegun fjármagns til framkvæmda samkv. þessum áætlunum hefur án efa verið ein skynsamlegasta stefna, sem tekin hefur verið upp og fylgt hér á landi á undanförnum árum. Nú þegar hafa verið gerðir verulegir hlutar af áætlunum fyrir Vestfirði, Norðurland og Austurland og aflað til framkvæmda á þessum stöðum mikils fjármagns. Yfir þessu er ástæða til að gleðjast.

Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh., hvernig fjáröflun þessara áætlana standi í dag, hversu mikils fjár hafi verið til þeirra aflað og hvernig það skiptist á helztu flokka framkvæmda innan hverrar áætlunar. Að vísu hefur mikið verið birt um þessar áætlanir, en ég tel sérstaka ástæðu til þess að staðnæmast og lita yfir það í heild, enda eru það ekki margar tölur, sem ég spyr um, en þó býsna mikilvægar.

Í framhaldi af þessari spurningu hef ég leyft mér að flytja aðra, sem er á þá lund, hvað dvelji Vesturlandsáætlun. Eins og kunnugt er, hefur mikið verið rætt um Vesturlandsáætlun og raunar áætlanir fyrir aðra landshluta á nokkrum undanförnum þingum. Fyrir þrem til fjórum árum var fyrst flutt till. til þál. um gerð Vesturlandsáætlunar, og fékk hún einróma góðar undirtektir og var vísað til þess aðila, sem á lögum samkv. að annast gerð þessara áætlana. Síðan hafa þm. Vesturl. oft spurt um það, hvað þessari væntanlegu Vesturlandsáætlun liði, því að óneitanlega ríkir nokkur eftirvænting um gerð hennar. Það er einróma álit kunnugra, að á Vesturlandi sé nú rík ástæða til að gera veruleg átök í atvinnu- og samgöngumálum og þar sé fyrir hendi brýn nauðsyn á því að beita þessari stefnu, gerð landshlutaáætlunar.

Ég vil vænta þess, að hæstv. fjmrh. geti veitt þessar upplýsingar.