25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í D-deild Alþingistíðinda. (4741)

902. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í málefnasamningi ríkisstj. segir svo, með leyfi forseta:

„Að ljúka innan þriggja ára rafvæðingu allra þeirra bújarða í sveitum, sem hagkvæmt er talið að fái raforku frá samveitum. Hinum, sem tryggja verður raforku með einkavatnsaflsstöðvum eða dísilstöðvum, verði veitt aukin opinber aðstoð.“

Ég hygg, að framkvæmdar þessa ákvæðis sé beðið með mikilli eftirvæntingu af töluverðum hópi manna, a.m.k. þeim, sem eru ábúendur hinna 930 býla í dreifbýli landsins, sem ekki hafa enn hlotið raforku frá samveitum.

Þetta mál, rafvæðing dreifbýlisins, hefur lengi verið eitt af aðalbaráttumálum Framsfl., og ég hygg, að því verði ekki mótmælt, að þetta hefur verið eitt stærsta átakið til að jafna og brúa það bil, sem ríkir milli dreifbýlis og þéttbýlis. Þetta hefur verið eitt stærsta átakið í þá átt að koma nútímaþægindum út til hinna dreifðu byggða.

Ég ætla ekki að gera lítið úr framkvæmd þessa máls í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj., en þó hygg ég, að því verði ekki mótmælt, að ýmsum af þessum ábúendum hafi þótt biðin heldur löng og hafi þótt svörin, sem bárust við ítrekuðum spurningum þeirra um það, hvenær þessu yrði lokið, nokkuð loðin. Ég hygg einnig, að mönnum hafi ekki líkað vel sá framgangsháttur, sem upp var tekinn, að krefjast óafturkræfs framlags í vissum tilfellum eða lána frá sveitarfélögum til framkvæmda.

Með tilliti til þessa, sem ég hef nú rakið, hef ég leyft mér að leggja fyrir hæstv. orkumálaráðh. svohljóðandi fyrirspurn:

1. Við hvaða fjarlægð á milli bæja eða aðrar ytri aðstæður, ef einhverjar, er gert ráð fyrir að miða við mat á því, hverjir skuli fá raforku frá samveitum?

2. Hvenær má gera ráð fyrir því, að áætlun um rafvæðingu dreifbýlisins í samræmi við málefnasamning ríkisstj. liggi fyrir?