25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í D-deild Alþingistíðinda. (4744)

902. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vil fagna því, að við höfum fengið nú í hendurnar bláa bók, sem hefur inni að halda till. um að ljúka rafvæðingu í sveitunum á næstu þremur árum. Mér var kunnugt um það, að snemma á s.l. sumri var hafinn undirbúningur að því að byggja upp þessa áætlun, og eins og fram kom hjá hæstv. viðskrh. hér áðan, þá hefur eiginlega alltaf verið gengið út frá því, að þeir fjármunir, sem hafa verið lánaðir og talið, að væru óafturkræfir, yrðu greiddir, þegar rafvæðingin kæmist á það stig, að farið væri fram úr 11/2 km, þannig að farið væri upp í 2, 21/2 eða 3 km, til að allir sætu þá við sama borð í þessum efnum. Það segir sig sjálft, að eftir að nú er búið að ákveða að stiga lokaskrefið að þessu marki, sem nær þetta langt, eða allt að 3 km, með hámarki þó um 600 þús. kr., hefði það verið ósanngjarnt að láta ekki hina, sem lögðu fé af mörkum til þess að flýta rafvæðingunni, fá sinn hlut endurgreiddan, þótt þannig væri, að ekki kæmu til vaxtagreiðslur á þessu fyrir þann tíma, sem fjármagnið hefur verið bundið.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram við þessa umr. og tel, að þetta sé nokkuð á þann veg, sem búizt hafði verið við, að þessu máli mundi ljúka. Sem betur fer erum við hér að sjá fyrir endann á stórmerku máli, rafvæðingu dreifbýlisins, og það er ýmislegt, sem þarf að athuga í sambandi við rafvæðinguna og framtíðarskipun þeirra mála, en ég sé þó ekki ástæðu til að ræða undir þessum dagskrárlið núna.