25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í D-deild Alþingistíðinda. (4748)

75. mál, Vestfjarðaáætlun

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 83 til hæstv. forsrh. um framhald Vestfjarðaáætlunar. Þetta er framhald Vestfjarðaáætlunarinnar, en það gefur til kynna, að hér er um mál að ræða, sem á nokkra forsögu.

Ég ætla ekki að fara að rekja þá forsögu hér. Hún mun vera nokkuð kunn hv. þm. En mér þykir rétt aðeins að rifja það upp, að þetta mál kemur fyrst á dagskrá Alþingis með þáltill. frá Gísla Jónssyni og Kjartani J. Jóhannssyni, sem samþykkt var árið 1963 og fjallaði um það að fela ríkisstj. að undirbúa framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði til þess að koma í veg fyrir fólksflótta þar. Árið 1964 bar ég fram þáltill. um það að fela ríkisstj. að athuga möguleika á því að fá lánsfé hjá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins til að hrinda fram framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði.

Í framhaldi af þessu var af hálfu ríkisstj. leitað eftir láni hjá Viðreisnarsjóðnum. Það fékkst, og það var gert ráð fyrir, að framkvæmdaáætlunin yrði fjármögnuð að hálfu leyti með lánsfé úr Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins og að hálfu leyti með innlendu fé. Framkvæmdir á Vestfjarðaáætlun hófust síðan 1965 og stóðu til 1970. Þetta var samgönguáætlun Vestfjarða, og það var unnið að framkvæmd tiltekinna verkefna í vegamálum, flugmálum og hafnarmálum. Það hefur verið unnið samkvæmt þessari áætlun fyrir yfir 200 millj. kr. eða rúmlega 210 millj. kr.

Ég ætla ekki að fara að rekja þetta frekar, en það, sem mér liggur á hjarta, er ekki það, sem liðið er, heldur það, sem fram undan er. Og hér er spurt um framhald Vestfjarðaáætlunar. Það var alltaf gert ráð fyrir því, að það yrði framhald af Vestfjarðaáætlun, og samgönguáætlun var aðeins einn hlutinn. Og það var gert ráð fyrir þessu í meðferð málsins frá fyrstu tíð, því að það var sótt um lán frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins á þeirri forsendu, að það ætti að verða alhliða uppbygging á Vestfjörðum með lánsfé frá Viðreisnarsjóðnum, en samgönguáætlun væri aðeins fyrsti áfanginn.

Með tilliti til þessa hefur mér þótt rétt að spyrja hæstv. forsrh. um það, hvað liði framhaldi Vestfjarðaáætlunar. Og sérstaklega er spurt um þessi atriði: Til hvaða málaflokka er áætluninni ætlað að taka? Það er þýðingarmikið, að það liggi ljóst fyrir, til hvaða málaflokka áætlunin á að taka. Í upphafi var auk samgöngumálanna gert ráð fyrir, að áætlunin tæki til menntamála, skólámála, heilbrigðismála, sjúkrahúsa, félagsmála og atvinnumála ekki sízt. Ég spyr núna, hvað hyggst ríkisstj. fyrir í þessum efnum?

Í öðru lagi er sérstaklega spurt: Hvenær er gert ráð fyrir, að áætlunargerðinni ljúki? Það er einnig þýðingarmikil spurning, því að brýn þörf er á því, að þessari áætlun ljúki sem fyrst.

Þá er sérstaklega spurt: Hvað er gert ráð fyrir, að framkvæmd áætlunarinnar taki langan tíma? Þetta er ekki þýðingarminni spurning. Ég hef alltaf gert ráð fyrir, að framhaldið ætti ekki að taka ýkja langan tíma. Með ýkja löngum tíma á ég við 10 ár eða eitthvað slíkt. Ég mundi telja eðlilegt, að framhaldið tæki 4–5 ár og væri þá lokið. En ég spyr hæstv. forsrh.: Hverju er gert ráð fyrir í þessu efni?

Þá er sérstaklega spurt: Hvernig verður fjár aflað til framkvæmdanna? Þetta verður ekki gert nema með sérstöku fjármagni. Það voru gerðar sérstakar ráðstafanir á sínum tíma í þessu efni, eins og ég gerði grein fyrir áður. Nú leikur mér forvitni á að vita, hvað ríkisstj. hyggst fyrir í þessu efni.

Þetta eru þær spurningar, sem ég leyfi mér að óska eftir svörum við frá hæstv. forsrh.