25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í D-deild Alþingistíðinda. (4750)

75. mál, Vestfjarðaáætlun

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir greinargóð svör, en ég er ekki alls kostar ánægður. Ég vil ekki segja, að það sé beinlínis út af svörum hæstv. forsrh,, en mér finnst, að það sé tilefni til þess að ræða nokkru nánar um málið. Þetta er ákaflega þýðingarmikið mál, ekki einungis fyrir Vestfirði, heldur fyrir landið í heild.

Þetta er ekki nýtt mál sem slíkt. Í fjöldamörg ár, í áratugi, hefur verið mikið talað um jafnvægi í byggð landsins. Við þekkjum þetta öll, en við vitum líka, að þetta hefur lengst af verið meira í orði en á borði. Það er ekki svo að skilja, að menn hafi ekki séð þörfina á því að vinna að jafnvægi í byggð landsins. Allir hafa játað því, að það þyrfti að gera átak í þeim efnum. En hvernig hefur þetta verið? Venjulega var það þannig, að ef einhver þm. kom með þýðingarmikið mál úr sínu kjördæmi, þá fékk hann góðar undirtektir undir það. Það sáu allir þörfina á að aðhafast eitthvað, en það var venja, að menn sögðu jafnframt: Það þarf að gera eitthvað svipað hjá mér. Og áður en varði var það ákaflega algengt, að búið væri að heimfæra sérþarfir einhvers ákveðins byggðarlags upp á allt landið, og það voru allir sammála um, að það þyrfti að gera eitthvað. Oft var það þannig, að það var svo mikið, sem þurfti að gera, að mönnum hreint og beint féllust hendur. Það var þá ekkert gert, og hefði allt verið gert, sem menn voru sammála um, að þyrfti að gera, þá hefði það kollsteypt efnahagskerfi landsins, svo að á eftir hefðu þeir verið verst settir, sem höfðu mesta þörfina fyrir aðgerðina.

Við þekkjum þetta. Það var þetta ástand, sem þurfti að breytast. Það þurfti að taka upp skipuleg vinnubrögð í þessu efni, og með upphafi Vestfjarðaáætlunarinnar var brotið blað í þessum efnum. Þá var gengið út frá því, og það var vilji Alþingis fyrir því, að tekið yrði ákveðið afmarkað verkefni. Menn sáu, að það tjóaði ekki að ætla að gera alla hluti í einu. Hvers vegna voru Vestfirðir teknir? Ég skal ekki fjölyrða um það. Það er hægt að gera margs konar samanburð á milli landshluta. Við vitum það, að í ýmsum kjördæmum úti á landi hefur fólkinu fækkað hlutfallslega frá síðustu aldamótum miðað við heildaríbúatölu landsins. En það er aðeins eitt kjördæmi, sem hægt var að segja um og er hægt að segja um í dag, að þar hafi orðið töluleg fækkun íbúanna, ekki einungis hlutfallsleg, heldur er færra fólk á Vestfjörðum en var við síðustu aldamót. Ég læt þetta nægja til þess að rifja upp, hver sérstaða Vestfjarða var og hvers vegna menn höfðu ekkert við það að athuga að taka sérstaklega Vestfirði fyrst fyrir, þegar um það var að ræða að taka upp ný og betri vinnubrögð í þessum þýðingarmiklu málum.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Nú er ekki einungis talað um framkvæmdaáætlun á Vestfjörðum. Það er talað um framkvæmdaáætlun á Vesturlandi, Austfjörðum, Norðurlandi, Suðurlandi, og það er talað um framkvæmdaáætlun og byggðaþróun í þessu sambandi í Reykjaneskjördæmi. Það er líka, þótt ekki sé komin till. um það hér inn á Alþ., talað í þessu sambandi um byggðaþróun í Reykjavík. Hvað er þetta? Þetta er allt annað en að vinna að jafnvægi í byggð landsins. Það er allt annað. Þegar við erum með framkvæmdaáætlun um allt land, þá erum við að vinna að skipulögðum framkvæmdum um allt landið. Það eru eðlilegar framkvæmdir, og ég er ekki að mæla á móti þeim. Slíkt kemur mér ekki til hugar. En við erum ekki með þessu að vinna að jafnvægi í byggð landsins.

Ég held, að það sé nú enn sem fyrr eins og Alþ. viðurkenndi 1963, að það þurfi að taka afmörkuð svæði fyrir í einu og það þurfi að gera eitthvað sérstakt fyrir þessi svæði. Það þarf að gera meira en gert er annars staðar. Ef mönnum er alvara með það að vinna að jafnvægi í byggð landsins, þá verða menn að skilja það frá almennum framförum, almennri uppbyggingu í landinu. Það er annað mál. Og menn verða að viðurkenna það, að gera þurfi sérstakar ráðstafanir. Ég segi þetta hér vegna þess, að þetta undirstrikar, að það þurfi að halda áfram með Vestfjarðaáætlunina, ef á að framkvæma hana í þeim anda, sem upphaflega var gert ráð fyrir. Ef okkur er alvara að vinna að jafnvægi í byggð landsins, þá verðum við að taka það mál sérstaklega fyrir, og það er eðlilegt að gera það með því að láta ganga fyrir öllu að ljúka Vestfjarðaáætluninni, ekki einungis gerð hennar, heldur framkvæmd.