14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

1. mál, fjárlög 1972

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja mikið þessar umr., enda hef ég lítt lagt það í vana minn að halda uppi málþófi í málum. En það voru tvær ástæður til þess, að ég stend hér upp. Í fyrsta lagi eru nokkur orð út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér fyrr í umr. í dag, og síðan varðandi tvær litlar brtt., reyndar þrjár litlar brtt., er ég er 1. flm. að á þskj. 196.

Í umr. í dag sagði hæstv. fjmrh. í ræðu sinni hér, að sú hækkun, sem væri nú á till. núv. ríkisstj. frá fyrrv. ríkisstj. eða frá till. hennar, væri fyrrv. ríkisstj. að kenna, og minntist hann í því efni sérstaklega á launahækkanir opinberra starfsmanna ásamt nokkrum atriðum fleirum, sem hann tiltók þar. Af þessu tilefni sagði hann, að enginn hefði séð það fyrir, hvað umræddir liðir mundu í raun og sannleika kosta, og raunin hefði orðið sú, að þeir hefðu farið langt fram úr þeim áætlunum, sem gerðar voru við samningu síðustu fjárlaga. Þetta væri, eins og hann orðaði það þá, stór og þungur haggi við að taka. Núv. hæstv. stjórnarliðar réðust harkalega að fyrrv. ríkisstj. fyrir að ákveða gildistöku frv. um almannatryggingar 1. jan. 1972, og m. a. var ein till. þeirra um það, að gildistakan yrði 1. júní 1971. Þáv. ríkisstj. taldi hins vegar óábyrgt með öllu, er hún tók sína ákvörðun um mánaðamótin febr.–marz á s.l. vetri, að gefa slíka ávísun út á framtíðina, þegar allt var í óvíssu, sem eðlilegt var um þá 10 mánuði, sem eftir voru ársins. Sérstakt góðæri, og ég vil segja eindæma góðæri þessa mánuði síðan gaf sem betur fer hæstv. ríkisstj. möguleika til þess að flýta gildistöku tryggingalaganna til 1. ágúst s.l., og allir hljóta að fagna því, að þetta góðæri skyldi gefa þessa möguleika. En það sá enginn, hvorki þáv. ríkisstj. né stjórnarandstaða, sem fyllir núv. stjórnarlið, að tekjur ríkisins ykjust svo gífurlega sem raun hefur á orðið þá mánuði, sem síðan eru liðnir. Núv. ríkisstj. telur, að þessi flýtisaukning, er hún gaf út með brbl. frá því í júlí í sumar, í 5 mánuði muni nema um 500 millj. kr. auknum útgjöldum fyrir ríkissjóð.

Gildistaka miðað við þeirra eigin till. frá s.l. vetri, þ.e.1. júní s.l., hefði því kostað a.m.k. 700-750 millj. kr. Þess vegna spyr ég hæstv. núv. fjmrh.: Hefði hann talið það ábyrga stefnu um mánaðamótin febr.–marz s.l. vetur, þegar ríkisstj. fyrrv. tók sina ákvörðun, að bæta við þennan pakka þessum mismun? Hefði hann talið það þá vera ábyrgt að spá 10 mánuði fram í tímann um þá tekjuaukningu, sem til þess hefði þurft að standa við þessi útgjöld? En kosningar fóru fram í júní s.l., eins og menn muna, og samþykkt á till. þeirra stjórnarandstæðinga hefði þá heitið á þeirra máli kosningahræðsla eða kosningaáróður. Þetta fullyrði ég, að er í samræmi við þeirra málflutning, er þeir viðhöfðu fyrir kosningarnar s.l. vor. Ég minni aðeins á þetta atriði eitt, fyrri ástæður gaf hæstv. ráðh., en ég læt þetta eitt nægja, vegna þess að hv. þm. og almenningi hlýtur að vera enn í fersku minni, hve þessi ákvörðun fyrrv. ríkisstj. var í kosningabaráttunni s.l. vor notuð í ræðu og riti gegn fyrrv. ríkisstj. á vægast sagt ódrengilegan hátt.

Eins og ég minntist á í upphafi þessara orða minna, hef ég leyft mér ásamt tveim öðrum þm. Alþfl., hv. 5. þm. Reykn. og hv. 8. landsk. þm., að flytja þær till., sem nú nýlega hefur verið útbýtt á þskj. 196. Ég tel ekki ástæðu til að lesa þær hér upp nú, en hefði gert það, ef þeim hefði ekki verið útbýtt. Þetta eru ákaflega hófsamlegar till., eins og þskj. ber með sér, og fluttar í beinu framhaldi af þáltill., sem flutt hefur verið hér í Sþ. á þskj. 48 og nú er til meðferðar í hv. allshn., en till. er svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á:

1. Hver þörf landsmanna er á auknum barnaheimilabyggingum.

2. Hver hlutur ríkisins í stofnkostnaði slíkra heimila á að vera.

Athugun þessi fari fram með hliðsjón af hinum ýmsu greinum barnaverndarstarfsemi, fjalli m.a. um vistarheimili, vöggustofur, dagheimili, leikskóla, upptökuheimill, tómstundaheimili og um leiðbeiningastarfsemi fyrir foreldra o.fl.“

Eins og frá var skýrt við umr. um fyrrgreinda þáltill., er sú meginhugsun að baki henni, að til viðbótar þeim rekstrarstyrkjum, sem undanfarin ár hafa verið veittir og hafa því miður verið allt of lágir, þá er það skoðun okkar flm., að betur verði að gera í þessum efnum, ef að gagni á að koma og til móts við sífellt stórauknar þarfir í þessum efnum. M.ö.o.: ekki aðeins rekstrarstyrkir, heldur og einnig hreinir stofn- eða byggingarstyrkir slíkra heimila, eins og gert er á hinum Norðurlöndunum í dag og hefur reyndar verið gert í sumum þeirra um áratuga skeið, eins og fram kemur í grg. umræddrar þáltill.

Fyrr í þessum umr. í dag upplýsti hv. 4. landsk. þm., að a.m.k. einn hv. stjórnarfl., þ.e. Alþb., hefði tilnefnt fulltrúa sinn í nefnd til þess að vinna að þessum málum, og persónulega er ég út af fyrir sig ánægður með þennan árangur af tillögugerð okkar Alþfl.-manna, þótt ég voni nú, að a.m.k. öllum þingflokkum hæstv. ríkisstj. takist að vinna svipað afrek, þ.e. að tilnefna fulltrúa í nefnd, og að nefndin taki til starfa hið allra fyrsta.

Nefndaskipanir, svo að maður nú ekki tali um tilvitnanir í stjórnarsáttmálann, eru góðar svo langt sem þær ná. Jafnvel lestur sáttmálans kvölds, morgna og miðjan dag er áreiðanlega hollur lestur, ekki sízt þeim, sem vanari eru því í sínu pólitíska uppeldi að gera kröfur en að þurfa að standa við þær. Þá verður líka að treysta því, að lesturinn verði ekki með þeim hætti, sem sagt var, að ákveðin persóna læsi Biblíuna. Eftir þessar hugsanlegu niðurstöður í þessu máli, hvort heldur hér verður um niðurstöður nefndar eða sjálfs Alþ. að ræða, er ljóst, að verulegra fjármuna er þörf í þessum efnum. Þær till., sem ég hef þegar mælt fyrir, eru því aðeins byrjunarskref, lítið byrjunarskref í þessum mikilvæga málaflokki. Þess vegna vænti ég, að þær fái jákvæða afgreiðslu hv. Alþ. við samþykkt núverandi fjárlagafrv.