14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

1. mál, fjárlög 1972

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég hef kvatt mér hljóðs hér nú, er fyrst og fremst ræða hæstv. fjmrh. í dag við þessar umr., sem mér kom sannarlega mjög á óvart, og svo í leiðinni ætlaði ég að mæla hér fyrir örlítilli brtt., sem ég er meðflm. að við þessa fjárlagaumr.

Mér skildist á hæstv. fjmrh. í dag, þegar hann talaði hér, að það skipti hann meginmáli, hvort þm. gerðu ráð fyrir því, að fjárlögin nú mundu hækka frá síðustu fjárlögum um 40, 50 eða 60%. En skiljanlega vita þm. ekki um það enn, vegna þess að mikið vantar í fjárlagafrv. enn þá. Mikið á eftir að koma fram í þessum efnum. En ráðh. kom hér fram með furðulegan talnaleik til þess að sanna, að þessi prósentutala væri e.t.v. sú lægsta, sem ég nefndi, frekar heldur en 50 eða 60%. Ég held nú, að málflutningur þessa hæstv. fjmrh. hefði verið svolítið öðruvísi, ef hann hefði staðið hér í stjórnarandstöðu við flutning fjárlagafrv., sem svona hækkaði.

Fjmrh. bar sig líka heldur illa yfir því, að því er mér skildist, að honum hefði verið fenginn óheyrilegur arfur í hendur frá fyrrv. fjmrh. og frá fyrrv. ríkisstj. Hann hefði hvorki meira né minna en orðið að greiða úr ríkissjóði um 8–900 millj. kr., sem fyrrv. ríkisstj. hefði ákveðið að greiða fram yfir fjárlög yfirstandandi árs. Þar var um að ræða auknar kaupgreiðslur til opinberra starfsmanna, greiðslur vegna hallarekstrar á ríkisspítölunum og niðurgreiðslur á útflutningsverði landbúnaðarafurða. Upp í þetta hefði aðeins verið 270 millj. kr. greiðsluafgangur ríkissjóðs í fjárlögum miðað við að tekjuáætlun ársins stæðist. Ekki sá ráðh. þó ástæðu til þess að geta þess, a.m.k. ekki skilmerkilega, þótt hann væri að því spurður, að tekjur ríkissjóðs koma að öllum líkindum á yfirstandandi ári til með að fara mjög langt fram úr áætlun, og var raunar vitað um þetta strax í vor. Umframtekjur ríkissjóðs af þessum sökum eru taldar muni nema jafnvel á milli 1200 og 1400 millj. kr., eftir því sem mér er bezt um kunnugt. Ráðh. fær því í arf frá fyrrv. ríkisstj. a.m.k. 1 500 millj. kr. til þess að greiða með útgjaldaauka, sem nemur 8–900 millj. kr. Það má vel vera, að til þurfi alveg einstaka fjármálasnilli að greiða 800–900 millj. kr. með Í 500 millj. kr. í handraðanum, ég held þó, að ég verði að segja það, að ég mundi næstum því treysta mér til þess að gera þetta, hvað þá hæstv. núv. fjmrh. Þá sagði hæstv. fjmrh., að ríkisstj. hefði ekki vitað um þessar umframgreiðslur, þ.e.a.s. þessar ákvarðanir, sem fyrrv. ríkisstj. hafði tekið um umframgreiðslur, þegar núv. ríkisstj. kom til valda. Við vissum ekki þetta og við vissum ekki hitt, sagði hæstv. ráðh. í mjög miklum afsökunartón. En einhvern veginn hafa ráðh. komið auga á, að tekjur mundu fara fram úr áætlun, því að þeir tóku sig til og greiddu mörg hundruð millj. kr. út úr ríkiskassanum til góðra mála, en án þess að afla neinna nýrra tekna í staðinn, og niðurstaðan verður því hallarekstur ríkissjóðs í mesta góðæri, sem um getur á þessu landi, þrátt fyrir þá staðreynd, að fyrrv. ríkisstj. afhenti þeim 1 500 millj. kr. til þess að borga með útgjöld umfram fjárlög, sem námu 8–900 millj. kr.

Þá gerði hæstv. ráðh. því skóna og talaði m.a. um þá margfrægu hrollvekju í því sambandi, að fjárlög ársins 1972, sem hér eru til umr. og enn eru hvorki fugl né fiskur, þótt komið sé fast að jólum, að þau endurspegluðu viðskilnað fyrrv. ríkisstj. í fjármálum ríkisins og efnahagsmálum. Formaður fjvn., hv. þm. Geir Gunnarsson, vék einnig að þessu í sinni ræðu, sem þó var öllu hógværari en stundum hefur heyrzt úr þeirri átt við gerð fjárlaga. Hv. þm. sagði m.a., að yfirgnæfandi meiri hl. rekstrarhækkana á fjárlögum væri vegna ráðstafana fyrrv. ríkisstj. Betra hefði verið, að svo reikningsglöggur maður fyndi orðum sínum stað, en annars er það varla einleikið, hvað sú virðulega ríkisstj., sem nú situr að völdum hér á landi, og stuðningsflokkar hennar þykjast áhrifalausir í þjóðfélaginu. Látum það vera, að þeir séu það í stjórnarandstöðu og segist vera það, en þegar þeir þykjast litlu ráða í ríkisstj., þá fer skörin að færast upp í bekkinn.

Ég vil þá víkja að því, hver raunveruleikinn er í því efni, að fjárlög ársins 1972 verði ill hrollvekja uppvakin af fyrrv. valdhöfum. Þar er þá fyrst til máls að taka, að tekjur ársins 1972 eru í fjárlagafrv. áætlaðar 2 700 millj. kr. umfram núgildandi fjárlög, að óbreyttum skattareglum og því kauplagi og verðlagi, sem gilti fyrir 1. des. s.l. Auðséð er, að þessar tekjur hefðu orðið miklu hærri að óbreyttum lögum vegna áhrifa nýrra kjarasamninga og verðbólgustefnu núv. ríkisstj. Því má gera ráð fyrir, að sömu tekjustofnar sem nú gilda, hefðu haft í för með sér a.m.k. 3 500 millj. kr. tekjuauka ríkissjóðs á næsta ári. Þetta hefði gerzt án þess að íþyngja þegnum með hlutfallslega hærri sköttum en nú er gert. Þá skulum við tíunda, hvaða hækkanir hefðu óhjákvæmilega orðið á þessum fjárlögum vegna ákvarðana fyrrv. ríkisstj. Þar er fyrst og fremst um að ræða hækkun á launum opinberra starfsmanna, sem allir þm. eru sagðir hafa verið sammála um, hækkun á bótum almannatrygginga samkv. lögum frá síðasta þingi, en þetta mun samtals nema um 1 000 millj. kr., samkv. aths. sjálfs fjárlagafrv. Hægt hefði líka verið að auki að taka inn allar heildartillögur til fjvn. um hækkanir, að upphæð 770 millj. kr., framlengja niðurgreiðslu til ársloka 1972 og greiða hækkun nýrra almannatryggingalaga, sem fyrir liggja á þessu þingi. Allt hefði þetta kostað ríkissjóð 2 700–2 800 millj. kr., eftir hefði þá staðið að óbreyttum skattaálögum á almenning 7–8 hundruð millj. kr. sem afgangur til ráðstöfunar á fjárlögum 1972, þótt áðurnefnd löggjöf fyrrv. og núv. ríkisstj. hefði öll komið til framkvæmda. En þetta var ekki nóg fyrir hæstv. ríkisstj. Hún þarf ekki bara 3 500 millj., heldur kannske 5 eða 6 þús. millj. í tekjuauka á næsta fjárlagaári, og hún stefnir að því, að stórhækkun verði á skattaálögum á allan almenning í landinu. Alvarlegasta hliðin á þessu máli er þó vafalítið þau áhrif, sem þessir búskaparhættir ríkissjóðs og stefna hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, eftir því sem um stefnu er hægt að tala, mun hafa á viðskiptajöfnuð landsins við útlönd. Nýlega hefur verið samið um verulegar kauphækkanir, sem eftir upplýsingum, sem hafa komið fram hér á Alþ., koma að ýmsu leyti fram í verðhækkunum og þar með verðbólgu vegna vísitölukerfisins, sem hér er við lýði. Þetta mundi til viðbótar þeirri þenslu, sem fyrir er, valda mikilli tilhneigingu til aukins innflutnings og þar með mikilli eyðslu af gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Í aths. við frv. eru drög að þjóðhagsspá frá Efnahagsstofnuninni. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Niðurstaða spánna um utanríkisverzlun er sú, að mjög verulegur halli verði á viðskiptajöfnuði, eða um 3 625 millj. kr.“ — Þetta á við árið 1972. — „Seðlabankinn hefur sett fram lauslega spá um greiðslujöfnuð næsta árs, samstæða spánum um innflutning og fjármunamyndun, sem þegar hefur verið lýst. Spáin bendir til þess, að í heild verði jöfnuður fjármagnshreyfinga og annarra liða utan viðskiptajafnaðar jákvæður um 3 050 millj. kr. Í þessu felst, að gjaldeyrisstaðan muni versna um tæpar 600 millj. kr. á árinu 1972.“

Hér er beinlínis sagt, að erlendar lántökur og aðrar greiðslur utan viðskiptajafnaðar muni að nokkru bjarga okkur frá því að eyða nær öllum gjaldeyrisvarasjóði okkar á næsta ári. Þessi spá er, eins og áður segir, gerð áður en kauphækkanir urðu og áður en fyrirséð var, hvað hér yrði stórfelld þensla innanlands vegna verðbólgustefnu ríkisstj., sem m.a. endurspeglast í fjárlagafrv. því, sem hér er til umr. Það er því alveg ljóst, að komi ekki eitthvert sérstakt happ fyrir, þá er nú þegar fitjað upp á raunverulegri gengisfellingu íslenzku krónunnar, hvort sem það verður viðurkennt í verki eða ekki í mesta góðæri, sem um getur hér á landi.

Öll vinnubrögð við gerð fjárlagafrv., sem hér er til umr., eru vægast sagt óeðlileg, en þeirri hlið málsins hafa verið gerð sérstök skil hér áður. Mér finnst ástæða til að vekja athygli þingheims á þeim orðum hæstv. fjmrh., að hann stefni að því, að fjárlögin sýni að þessu sinni rétta mynd af ríkisbúskapnum. Nú verði ekki svo, að þau sýni ekki hækkun á launum opinberra starfsmanna, eins og síðastliðið ár, en samningar við þá stóðu yfir, þegar fjárlög voru í meðferð þingsins, og því var það ekki mögulegt að taka þann lið inn í fjárlögin á þeim tíma. Í þessu sambandi vildi ég spyrja hæstv. fjmrh.: Er ætlunin að reikna með hækkun á launum opinberra starfsmanna, sem þeir eiga rétt á að fá á næsta ári til samræmis við almenna launahækkun, sem nú varð á þessu ári? Er ætlunin, að líka verði tekin með óhjákvæmileg vísitöluhækkun launa bæði opinberra starfsmanna o.fl., en þessir liðir báðir hljóta að koma fram í fjárlögunum? Ef hæstv. fjmrh. getur svarað þeim spurningum, þá óska ég honum til hamingju, því að ég geri ekki ráð fyrir því, að hann viti ekki um þessa hluti nú, frekar en fyrirrennari hans, þegar frá síðustu fjárlögum var gengið.

Um tekjuhliðina á þessu fjárlagafrv. ræði ég ekki, þar sem vitað er, að hæstv. ríkisstj. hefur enn enga hugmynd um hana. Við slíkar aðstæður þykir mér heldur mikilúðlega tekið til orða, þegar sagt er, að fjárlögin eigi nú að gefa rétta og nákvæma mynd af ríkisbúskapnum á næsta ári.

Að lokum vil ég segja það, að hæstv. fjmrh. lýsti sjálfur þessum fyrstu fjárlögum sínum mætavel; þegar hann sagði eitthvað á þá leið, að þrátt fyrir gífurlega hækkun fjárlaga hefur verið allt of lítið svigrúm til að beina nauðsynlegum fjárframlögum inn á þær brautir, sem horfa til uppbyggingar í þjóðfélaginu. Þetta segir hæstv. fjmrh., sem nú ætlar að þyngja til stórra muna skattbyrði þjóðarinnar, frá því sem verið hefur og nauðsynlegt hefði verið, ef aðhalds og hagsýni hefði verið gætt í ríkisbúskapnum.

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín, eins og í pottinn er búið um þau fjárlög, sem hér liggja fyrir, að flytja við þau verulegar brtt. Ég leyfi mér þó að gera till. um tvær smávægilegar breytingar. Önnur þeirra er á þskj. 196, um 300 þús. kr. fjárframlag til undirbúnings heimavistarbyggingar við skóla í Ólafsfirði, en þar er starfandi heimavist í leiguhúsnæði. Þörf fyrir slíka starfsemi er rík í þessu sveitarfélagi, vegna þess að hún gerir gagnfræðaskólann hagkvæmari í rekstri og bætir úr brýnni þörf unglinga úr sveit, sem búa frammi í firðinum. Þessi fjárveiting mun ekki hafa verið tekin inn í till. fjvn„ vegna þess að till. um þetta voru síðhúnar heiman frá. Ég vil biðja hv. fjvn. að taka þessa till. til vinsamlegrar athugunar.