30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í D-deild Alþingistíðinda. (4775)

911. mál, æskulýðsmál

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég hef dregizt svolítið inn í umr. þessar. Hv. síðasti ræðumaður vitnaði í ummæli, sem ég viðhafði, þegar þetta mál var hér fyrst flutt.

En það vill svo til, að ég er nýlega kominn til þings og hef illa fylgzt með þróun ýmissa mála á þessu þingi, og ég skal játa það, að ég hafði ekki gert mér ljóst, að vægast sagt hefði ekki verið tekið rækilega til hendinni í sambandi við þessi mál, hvað fjárveitingar snertir. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að fjárveitingar, sem ætlaðar eru til þeirrar starfsemi, sem hér um ræðir, starfsemi æskulýðsráðs, eru að sjálfsögðu allt of litlar og þurfa að stóraukast, og ég fagna því að heyra þessa rödd af hálfu ungra sjálfstæðismanna. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að við, þó að allmikill aldursmunur sé á okkur, hv. síðasta ræðumanni og mér, sameinumst í að fá einhverju því framgengt, sem tryggt gæti betri og öruggari framgang þessara mála, sem eru sameiginlegt áhugamál okkar beggja. Ég ítreka það, sem ég sagði í umræddri ræðu minni, sem vitnað var í hér áðan, að lausnin á æskulýðsmálunum er einmitt ekki sú, að æskulýðurinn sé, eins og ég held, að ég hafi orðað það þá, sorteraður í sérstakan dilk alla tíð stöðugt, heldur á að stefna að því hér á okkar landi, að sem mest samstarf og félagsleg samskipti eigi sér stað milli kynslóðanna. Ég álít, að mörg þessi æskulýðsvandamál okkar stafi af því, að við höfum flutt inn vandamálin frá öðrum þjóðum og stærri. Og tilhneigingin hér hefur verið þessi, að skilja að kynslóðirnar og tala sí og æ um einhver sérstök æskulýðsvandamál og byggja upp sérstaka æskulýðsstarfsemi, þar sem eldra fólkið er meira og minna útilokað. Þetta á að sjálfsögðu miklu meira við um Reykjavík en landsbyggðina, þar sem við vinnum saman í ungmennafélögunum á hvaða aldri sem við erum. En ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég er feginn því að heyra þessa rödd úr hópi ungra sjálfstæðismanna, og ég vænti þess, að við getum, ég og hv. síðasti ræðumaður, sameinazt um að fá einhverju því framgengt, sem verði til þess, að þessi mál fái skaplega lausn og skaplega skipan.