07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í D-deild Alþingistíðinda. (4779)

912. mál, málefni Siglufjarðar

Fyrirspyrjandi (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég hafði borið hér fram litla fsp. fyrir nokkru síðan og hafði vænzt þess, að hún yrði rædd svolítið fyrr, en hér er um að ræða fsp. varðandi málefni Siglufjarðar, og langar mig til að fara örfáum orðum um það mál.

Það mun hafa verið tilkynnt í sumar, að sett hafi verið á fót nefnd til að athuga sérstaklega málefni Siglufjarðar, en síðan hefur mér verið sagt, að í reynd hafi þetta ekki verið nefnd, heldur einhvers konar sérstakir trúnaðarmenn hæstv. ríkisstj., og fyrir því langar mig til að vita, hvort þetta var nefnd eða var ekki nefnd. Það voru þrír valinkunnir menn settir til þessa starfa, en þetta er nú kannske aukaatriði. Hitt er aðalatriðið, hvort nefndin eða ekki nefndin hefur skilað áliti eða skilað till. og hverjar þessar till. þá eru. Þarna var valið verkefnið „málefni Siglufjarðar“, sem er eitt tiltekið bæjarfélag. En nú vill svo til í Norðurl. v., að það er atvinnuleysi í báðum kaupstöðunum og flestum kauptúnum í kjördæminu. Það er atvinnuleysi, og það er yfirlýst í blöðum og annars staðar tilkynnt allri þjóðinni, að á þessum eina landskafla sé raunverulegt atvinnuleysi, þegar öll önnur eða flestöll önnur landssvæði vantar vinnuafl. Þess vegna hlýtur hér eitthvað að vera alvarlega að, um það er ekki að ræða. Og ég held líka, að það hefði verið betra að taka verkefnið „atvinnumál alls kjördæmisins“ til meðferðar, þegar svona stendur á. Enn fremur held ég, að það hefði ekki átt að saka málefnið, þó að stjórnarandstöðunni hefði verið boðið að hafa einhverja menn með í þessari athugun, og er ég þar með ekki að vantreysta þeim, sem til þess voru skipaðir. En staðreyndin er bara sú, að í þessu eina kjördæmi er nú á þessu herrans ári umtalsvert atvinnuleysi, og íbúarnir líta alls ekki allt of björtum augum fram á næstu mánuði. Þess vegna finnst mér það aðkallandi að fá að vita, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar sér að gera í þessum efnum, því að atvinnumál hljóta þó alltaf að vera efst á blaði hjá hvaða ríkisstj. sem er. Ég vænti þess, að á þessum málum öllum verði tekið með festu og alvöru. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið á málefnum eða er að taka á málefnum Siglufjarðar, en ég vildi mælast til þess, að málefni kjördæmisins alls í sambandi við atvinnumál væru tekin fyrir.