07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í D-deild Alþingistíðinda. (4783)

912. mál, málefni Siglufjarðar

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hafa orðið hér um atvinnulíf á Norðurlandi og svonefnda Norðurlandsáætlun, fannst mér rétt, að ég leiðrétti aðeins örlítið af því, sem kom hér fram hjá síðasta ræðumanni. Það er þó rétt, sem kom fram hjá honum, að Norðurlandsáætlun var ekki gerð um einstaka staði á Norðurlandi. Hins vegar voru málefni einstakra staða þar ítarlega rædd í þeirri skýrslu sem út kom um áætlunina, en Norðurlandsáætlun var örvunaráætlun atvinnulífs á öllu svæðinu. Hún gerði ekki ráð fyrir því, að ríkið tæki að sér að reka fyrirtæki á Norðurlandi. Ég skal ekki með því segja, að það sé rangt, sem nú er gert, að ríkið ætli sér að gerast meiri aðili að atvinnurekstri á Siglufirði. Mér heyrðist einmitt koma fram í áliti nefndarinnar, sem hæstv. forsrh. fór hér um orðum, að það væri nú hluti af vandamáli Siglufjarðar, hversu þátttaka hins opinbera í atvinnurekstri þar hefði verið mikil. Á hinn bóginn lít ég svo á og skal játa það hér, að það sé í rauninni engra úrkosta völ annarra en að Síldarverksmiðjur ríkisins, sem hafa verið svo mikill þátttakandi í atvinnulífinu á staðnum, aðstoði bæjarfélagið víð það og einstaklinga á Siglufirði að koma upp hraðfrystihúsi, sem þar er um að ræða. En Norðurlandsáætlun gerði ráð fyrir því, að atvinnulíf á öllu Norðurlandi yrði eflt með þeim hætti að hafa til sérstakt fjármagn fyrir þá, sem vildu fá það fjármagn til þess að gera átök í þessu efni. Ég vil minna á það, að á Siglufirði voru gerð mjög myndarleg átök til atvinnuuppbyggingar, útgerð var efld til þorskveiða, þar var endurreist nýtt frystihús, Ísafold h.f., og fleiri aðgerðir voru gerðar á Siglufirði, sem bæði Norðurlandsáætlun átti þátt í og eins atvinnumálanefndir, sem þá voru starfandi.

Þegar menn ræða um atvinnumál á Norðurlandi, þá gæta menn þess ekki, að norðlenzkt atvinnulíf hefur fyrir margra hluta sakir sérstöðu hér á landi, sérstaklega á seinni árum. Árið 1969 var fimm sinnum meira atvinnuleysi á Norðurlandi en annars staðar á landinu. Þetta er staðreynd. Þetta stafaði af því, að norðlenzkt atvinnulíf hafði um langt skeið byggzt að verulegu leyti á útgerð á síld og vinnslu síldarafla. Auk þess er landbúnaður mjög mikill þáttur í atvinnulífinu á Norðurlandi, og hann hefur átt við erfiðleika að etja undanfarin ár. Þessi útgerð, sem er undirstaða atvinnulífs í norðlenzkum sjávarplássum, var rekin, eins og ég sagði áðan, fyrst og fremst með síldveiðar fyrir augum. En síldin fjarlægðist Norðurland og hvarf síðan. Útgerðin var líka byggð að verulegu leyti á því að sækja á vetrarvertíð til Suðvesturlands, og það kom fram hér fyrir nokkru á Alþ., að norðlenzkir bátar höfðu lagt meiri afla á land á Suðvesturlandi, þorskafla, yfir vetrarvertíðina sum ár en fyrir norðan allt árið. Þetta breyttist bæði með því, að gerðar voru ráðstafanir til þess, að útgerðin mætti fara fram með öðrum hætti á Norðurlandi, og eins með því að efla þar mjög aðstöðu til að vinna afla í landi. En menn verða að gera sér grein fyrir því, að þegar um svona djúptækan vanda er að ræða, þá verður hann ekki leystur með skjótum hætti, hvort sem um er að ræða raunverulega framkvæmdaáætlun, eins og hv. þm. talaði um hér áðan, eða áætlun, sem er til örvunar og eflingar atvinnulífi eins og Norðurlandsáætlun var hugsuð og er. Þetta er verk, sem verður ekki unnið á stuttum tíma.

Ég vildi aðeins bæta því við hér, að ég taldi ástæðu til þess að upplýsa hv. þm. um þetta, fyrst hér var vegið svo að þessu máli.