07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í D-deild Alþingistíðinda. (4788)

914. mál, sjónvarpsviðgerðir

Fyrirspyrjandi (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort iðnfræðslukerfið gæti gert eitthvað til að bæta úr brýnni þörf á kunnáttumönnum á sviði sjónvarpsviðgerða.

Ég býst við, að það sé almennt viðurkennt, að úti um landsbyggðina sé vöntun á sjónvarpsviðgerðarmönnum, og þetta er afar bagalegt víða, þar sem þetta er tilfellið.

Útvarps- og sjónvarpsvirkjun er ein lokaðasta atvinnugrein á Íslandi. Hið gamla meistarakerfi annar hvergi markaðsþörfinni né eftirspurn eftir væntanlegum iðnnemum. Á hverju ári eru aðeins mjög fáir, sem fá að hefja nám í útvarpsvirkjun, og meistarar hafa strangt eftirlit með því, hversu margir bætast við í stéttina árlega. Er athyglisvert, hversu meistarar í útvarpsvirkjun virðast samhentir um að takmarka í stéttina.

Í sumum öðrum iðngreinum, eins og t.d. byggingariðnaðinum, verða iðnfræðsluyfirvöld að hafa sérstakt eftirlit með því, að iðnmeistarar yfirhlaði sig ekki iðnnemum, en það leitast þeir við að gera til þess að útvega sér ódýran vinnukraft. Að náminu loknu hefur framleiðsla iðnaðarmanna í þessum iðngreinum verið svo mikil, að nýútskrifaðir sveinar eiga oft erfitt um atvinnu, þ.e. iðnmeistararnir láta þá í mörgum tilfellum fara strax að loknu sveinsprófi, en fá í stað þeirra aðra nemendur. Fyrir þann vinnukraft þurfa þeir minna að greiða. Slík vandkvæði hafa komið upp. Kvartanir um það hafa margar borizt iðnfræðsluyfirvöldum, og því hafa þau þurft að gæta þess vei, að meistarar í þessum stóru iðngreinum yfirhlaði sig ekki af nemendum. Í því skyni hefur verið tekið upp kvótakerfi.

Vandamálið í útvarpsvirkjun er þveröfugt. Þar þurfa iðnfræðsluyfirvöld að hafa milligöngu um það að koma nemendum í nám hjá meisturum. Þar er það óþekkt, að iðnmeistarar yfirhlaði nemendakvóta sinn. Oftast er því á hinn veginn farið. Virðist því ríkja um það samstaða hjá iðnmeisturum í stéttinni að hafa sterkt eftirlit með fjölda iðnlærðra og hafa þá frekar neðan við markaðsþörfina en ofan við. Það eru iðnmeistararnir, sem öllu ráða um menntunartækifærin í hverri stétt. Iðnfræðsluyfirvöld hafa þar ekkert að segja og væntanlegir iðnnemar enn minna og markaðsþarfir tiltölulega mjög litið. Eins og horfir í dag, geta ungir menn ekki komizt að sem nemendur í útvarps- eða sjónvarpsvirkjun nema fyrir einhvers konar kunningsskap, og fræðslumöguleikar meistarafræðslunnar í þeirri iðngrein eru ekki fullnýttir.

Iðnfræðsluráð hefur nokkur afskipti haft af þessum málum. Ungir menn leita iðulega til iðnfræðsluráðs um fyrirgreiðslu og hjálp víð að komast í útvarpsvirkjun, og hefur stundum tekizt að aðstoða þá. Núgildandi lög um iðnfræðslumál fela í sér stórkostlega möguleika til alhliða endurbóta á iðnfræðslunni. Það er því rangt, að til þeirra skorti lagaheimildir. Það, sem skortir, er framkvæmd í anda laganna. Þetta er ekki öllum ljóst, sem ræða vandamál iðnmenntunar. Það er aðeins á framkvæmdinni sem stendur.

Fyrir einum þremur árum var settur á stofn skóli hér í Reykjavík, sem heitir Verknámsskóli málmiðnaðarins. Skólinn er venjulegur níu mánaða skóli og skiptist nokkuð jafnt milli verklegs og bóklegs náms. Þeir, sem hefja nám í skólanum, þurfa ekki að vera iðnnemar, þeir eru venjulegir skólanemar. Fari þeir hins vegar í iðnnám í einhverri málmiðnaðargrein að loknum skólanum, fá þeir eins árs styttingu í námi og setjast í þriðja bekk iðnskólans. Í skóla þessum læra menn ýmisleg vinnubrögð, sem sameiginleg eru ýmsum málmiðnaðargreinum, en útvarps- og sjónvarpsvirkjun telst til þeirra. Ætlunin er að byggja ofan á þennan eins árs verknámsskóla fagskóla hinna einstöku iðngreina.

Sjónvarpsvirkjun er þannig fag, að mjög auðvelt er að koma upp verknámsskólafyrirkomulagi í sambandi við það. Hún er fyrst og fremst verkstæðisvinna og sem slík ákjósanlegt skólafag.

Víða í stórum verstöðvum úti á landi eru staðsettir menn, sem sérstaklega eru lærðir í viðgerðum siglingartækja. Þetta eru mjög flókin tæki, og ég ætlaði að stinga upp á því, hvort ekki væri hægt að setja upp einhvers konar námskeið fyrir slíka menn, sem gætu þá unnið að sjónvarpsviðgerðum úti um landið.