14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

1. mál, fjárlög 1972

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. sjálfstæðismenn hafa rætt svo mikið um þetta fjárlagafrv., að það er nú kannske að bera í bakkafullan lækinn að bæta þar við, en það er af sérstakri ástæðu, sem ég tek hér til máls og býst ekki við að verða mjög langorður, og það er vegna þess, að mér sýnist, að fjárlögin verði miklu hærri en búizt hefur verið við. Ég hef heyrt stjórnarsinna tala um það nú á síðustu dögum, að fjárlögin muni fara upp í 16 milljarða. Það fannst þeim mikið og það fannst mér einnig mikið, og á síðustu dögum hefur verið rætt um það, hvernig ætti að fara að því að brúa bilið, sem er á milli tekna og gjalda, ef fjárlögin færu upp í 16 milljarða. En þegar ég settist hér niður í kvöld og eftir að hafa hlýtt á mál manna, þá hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að fjárlögin muni verða miklu hærri og bilið, sem þarf að brúa, miklu breiðara en gert hefur verið ráð fyrir nú fram á síðustu daga. Þetta finnst mér vera svo alvarlegt, að ég vildi ekki láta hjá líða að vekja athygli á þessu, og það er sannarlega ekki ástæðulaust, þegar við sjálfstæðismenn vekjum athygli á því, að afgreiðsla þessa fjárlagafrv. er með allt öðrum hætti en venjulega, að því leyti, að það er ekki eðlilegt að ljúka afgreiðslu þess, nema staldrað sé við og fundnir fastir punktar undir væntanleg fjárlög. Þegar ég segi það, að fjárlögin muni verða miklu hærri en 16 milljarðar, þá vek ég athygli á því, að frv., sem lagt var fram í október s.l., það var upp á 14.2 milljarða. Fjvn. hefur samþykkt till. um hækkun, sem nemur um 800 millj. Eftir að þær till. hafa verið samþ., er frv. komið upp í 15 milljarða, en hvað er það svo, sem bætist við? Ég bjóst við því í dag, þegar ég hlustaði á hæstv. fjmrh., að hann mundi upplýsa þingheim um það, hvað mundi bætast við þau útgjöld, sem þegar hafa komið í ljós, og hvaða tekjur mundu koma til þess að mæta þessum gjöldum. En hæstv. fjmrh. nefndi þetta ekkert. Hann sagði, að frv. um tekju- og eignarskatt mundi verða rætt áður en langt um líður og þá mundi hann gera grein fyrir því, hvað það gæfi í tekjur. Hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði hér í gær, að þegar spurt væri um það, hvernig tekna yrði aflað vegna aukinna útgjalda til trygginga, þá benti hann á þetta frv. Það er þess vegna ætlazt til þess, eða hefur verið ætlazt til þess í gær, en í dag er mönnum sennilega ljóst, að þetta frv. um tekju- og eignarskatt nægir ekki til þess að brúa bilið á milli gjalda og tekna. Frv. er 15 milljarðar, eftir að búið er að samþykkja till. þær, sem fjvn. hefur flutt, en við það bætast lífeyristryggingar, sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður taki að sér, og samkvæmt því, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur reiknað út og er birt í októberhefti hlaðs þess, sem hún gefur út, þá er það samkvæmt því, sem stjórnarsinnar hafa tilkynnt, útgjöld fyrir ríkissjóð 1840 millj. kr. Ef ég fer hér ekki rétt með, þá vænti ég þess, að hæstv. fjmrh. leiðrétti það. Viðbót vegna tryggingahækkana er 550 millj. Þá eru hækkanir vegna kjarasamninga. Hæstv. fjmrh. sagði í dag, að ekki hefði verið hægt að endurskoða tekjuáætlunina vegna þeirrar viðbótar útgjalda, sem kæmu á ríkissjóð vegna kjarasamninga. Þessu trúi ég ekki. Ég er sannfærður um, að hæstv. fjmrh. veit, hversu mikil útgjöld ríkissjóðs eru vegna launagreiðslna, og að hann getur gert áætlun um aukningu útgjalda vegna kjarasamninga. Ég man ekki þessar tölur nákvæmlega, en ég gizka á og ég ætla, að það muni ekki mjög miklu, að hækkanir vegna kjarasamninganna geti orðið á næsta ári 250 millj. kr. En ég nefni þessa upphæð með fyrirvara.

Þá er það löggæzlukostnaðurinn, sem ríkissjóður ætlar að taka að sér. Löggæzlukostnaður, sem sveitarfélögin hafa áður borið. Mér tókst ekki í kvöld að fá upplýst, hversu mikið þetta er, en áreiðanlega eru þetta nokkrir tugir millj., kannske hundruð, ég get ekki upplýst það. En ef við segjum nú, að kostnaðurinn vegna hækkana kjarasamninga og löggæzlu væri 300 millj., þá býst ég við, að það sé ekki fjarri lagi, en eins og ég segi, þetta getur munað tugum millj., en það er nú ekki mikið í sambandi við allar þessar upphæðir.

Þá er áætlað til útflutningsuppbóta á landbúnaðarvörum í frv. 323 millj. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé of lítið. Það hefur alltaf þurft að nota útflutningsuppbæturnar til fulls eins og heimilt er, sem nemur 10% af verði framleiddrar búvöru. Við ætluðum að spara í fyrra rúmlega 100 millj., en það tókst ekki. Útflutningsuppbæturnar voru notaðar að fullu. Ég ætla, að þarna vanti a.m.k. 100 millj. kr.

Þá er það Vegasjóður. Hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún ætli að taka á sig að greiða vexti og afborganir af þeim lánum, sem Vegasjóður hefur tekið og ætlar að taka. Nú hefur hæstv. fjmrh. sagt, að framlag til Vegasjóðs hafi verið hækkað um 50 millj. kr., og þá með sérstöku tilliti til mín sem fyrrv. samgrh. Ég vil vitanlega þakka fyrir þetta um leið og ég læt hæstv. fjmrh. vita, að þetta er of lítið til Vegasjóðs. Ég veit ekki, hvernig á að koma vegáætluninni saman, ef Vegasjóður fær ekki meira á fjárlögum en hér hefur verið lagt til. Ég minni á það, að þegar vegáætlunin var afgreidd á s.l. vetri, voru allir þeir þm., sem tóku til máls ásamt mér, sammála um, að það væri ekki hægt að auka tekjur Vegasjóðs með því að hækka bensín- og þungaskatt meira en hefur verið gert. Eina leiðin væri sú að taka ríflega upphæð á fjárlögum.

Hæstv. fjmrh., þáverandi þm. Vesturl., tók djúpt í árinni þá, eins og oft áður, og minnti á það, að Vegasjóður ætti að fá allar tekjur af umferðinni, það ætti ekkert að klípa utan af því, og reiknaði út, hvað væri búið að snuða Vegasjóð mikið á undanförnum árum með því að láta tekjur af umferðinni fara í ríkissjóðinn. Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar, að ríkissjóður gæti misst þessar tekjur, — allar þær tekjur, sem kallaðar eru af umferðinni. En ég var á s.l. vetri, alveg eins og ég er nú, sannfærður um það, að ríkissjóður yrði að leggja Vegasjóði til allverulega upphæð, til þess að hægt væri að koma vegáætluninni saman, mæta vaxta- og afborganagjöldum og hækkaðri dýrtíð.

Nú geri ég ráð fyrir því, að það sé meining hæstv. ríkisstj. að láta Vegasjóð fá, ekki 50 millj., heldur 300 millj. á fjárlögum fyrir næsta ár, til þess að unnt sé að koma vegáætluninni saman á sæmilegan hátt. Ég reikna fastlega með því. En þá er það ekki nema þriðji hlutinn eða tæplega það af þeim tekjum, sem mætti kalla, að komið hefðu af umferðinni á þessu ári. Og ég trúi því ekki, að það sé meiningin að skilja við Vegasjóð eins og ætla mætti samkv. því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér í dag.

Nú býst ég við, að ýmsir útgjaldaliðir hafi komið til viðbótar þessu, sem ég hef hér talað um, — til viðbótar við útgjöld fjárlaganna. Ekki er ég viss um, hvort námsbókagjaldið er komið inn í frv. Ég hef ekki haft tíma til að athuga það. Og svo eru fleiri póstar. En þetta, sem ég hef hér skrifað um til viðbótar þeim till., sem fjvn. flytur, eru 3 milljarðar. Ef við reiknum þá dæmið til enda og setjum það upp á einfaldan hátt, þá kemur það þannig út, að frv., eins og það var flutt í haust, er 14 milljarðar og 200 millj., og hækkanir, sem ég tei. að óhjákvæmilega hljóti að koma fram, eru ca. 800 millj. frá fjvn. og 3 milljarðar, sem eiga eftir að koma á milli 2. og 3. umr. Með þessu móti er frv. komið upp í 18 milljarða og 29 millj. eftir þessum útreikningum. Ég tek það aftur fram, að þetta eru vitanlega ekki nákvæmar tölur, það getur alveg eins orðið meira en 18 milljarðar.

Fjárlögin á þessu ári teknamegin eru 11 milljarðar og 500 þús. Mismunurinn er þá, sem fjárlög mundu hækka frá þessa árs fjárlögum, 6 milljarðar 529 millj., eða nærri 60%. Ef við hugleiðum nú þetta, þá er þetta ekki glæsilegt. Og einn hv. þm. sagði við mig áðan: Ég held, að þú sért áhyggjufyllri út af þessu fjárlagafrv. heldur en stjórnarsinnarnir. Ekki veit ég það, sagði ég, en ég get ekki annað sagt en það, að þetta kemur mér við og þetta kemur okkur öllum þm. við, þegar svona horfir, og það sýnist vera algjör upplausn í fjármálalífi þjóðarinnar. Það kemur okkur stjórnarandstæðingum ekkert síður við en stjórnarsmnum. Og það kemur yfir okkur alla og alla þjóðina. Við hljótum að hafa þá ábyrgðartilfinningu, að við viljum aðstoða hæstv. ríkisstj. til að komast sem skárst út úr þessu.

Samkv. þessu ætti tekjuvöntunin að nema 3.6 milljörðum. En hvernig á að brúa þetta bil? Það hefur ekki annað verið sýnt en frv. um tekju- og eignarskatt. Ég hef verið að reyna í dag að fá það upplýst, hvað þetta frv. mundi gefa. Það hefur mér ekki tekizt. En ég hef komizt það nærri í málinu að vera alveg öruggur um, að það gefur ekki helming af þessari upphæð. Hæstv. fjmrh. veit það kannske, hvort það gefur helming af þessari upphæð eða eitthvað annað. En jafnvel þótt það gæfi helming af þessari upphæð, þá vantar l.8 millj. til viðbótar.

Hæstv. fjmrh. hefur sagt, að það ætti að afgreiða fjárlög hallalaust. Í rauninni er skylt að gera það. Ef það er ekki gert, þá eru fjárlög sá verðbólguvaldur, sem ekki er leyfilegt að láta frá sér fara. Ég held, að það sé eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn. staldri við og gefi sér tíma til að hugleiða, hvað sé til ráða.

Einhver var að segja, að það ætti að lækka niðurgreiðslurnar og þess vegna væri þetta nú ekki svona mikil upphæð, sem vantaði. En ég vil vekja athygli á því, að ef niðurgreiðslur á búvörum verða lækkaðar, þá ýtir það undir verðbólguna. Og ég efast mjög um, að það sé eðlileg og rétt ráðstöfun. Ég held, að það væri eðlilegri og réttari ráðstöfun að halda niðurgreiðslunum óbreyttum og halda dýrtíðinni niðri og afla þá tekna með einhverjum öðrum hætti. T.d. með því, þótt það sé ekki glæsilegt, að leggja þá skatt á miður nauðsynlegar vörur, sem fólk gæti neitað sér um, heldur en hækka stórlega í verði mjólk og kjöt, sem allir verða að kaupa, ekki sízt stórar fjölskyldur, sem lægstar tekjur hafa.

En það getur vel verið, að hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. allri og hv. stjórnarþm. finnist óþarft að fá ráðleggingar frá mér eða öðrum stjórnarandstæðingum. Hv. þm. Björn Pálsson sagði áðan, að það hefði ekki verið leitað til sín um ráðleggingar í þessu efni. En víst er um það, að ef hann hefði mátt ráða, þá hefði öðru vísi verið að farið.

Þetta eru nú aðeins hugleiðingar, sem ég skýt hér fram til að freista þess, að hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. öll reyni að átta sig á því, hvar hún er stödd í fjárlagaafgreiðslunni. Og það er af eðlilegum ástæðum, sem formaður Sjálfstfl. vakti athygli á þessu hér í dag og óskaði eftir, að tími gæfist til athugunar.

Það er svo vitanlega ekki nein ástæða til þess að vera að ræða um smámál hér á eftir, þegar við höfum hugleitt þann mikla vanda, sem við erum í stödd. En ég get þó ekki að því gert að minnast hér á Stokkseyrarmálið, vegna þess að hæstv. fjmrh. vakti sérstaka athygli á því, að þar hefði verið gert vel að veita fé til hafnarframkvæmda á Stokkseyri út á loforð, sem ég hafði gefið án þess að hafa raunverulega til þess heimildir. Ég vil þá vekja athygli á því, að Stokkseyringar komu til mín á s.I. vetri, eftir að fjárlög höfðu verið afgreidd, með áætlun, sem verkfræðingur hafði gert um hafnargerð þar. Þessi hafnargerð átti að kosta 11 millj. kr. Þeir sögðust geta útvegað lán til þessara framkvæmda, ef unnt væri að greiða það upp á tveimur árum — helzt á tveimur árum. Þetta var svo mikilvæg framkvæmd fyrir þetta pláss, og þessi garður, sem þarna hefur verið gerður, skapar svo mikið öryggi, að mér fannst sjálfsagt að leyfa þeim að taka þetta lán. Og ég gaf þeim bréf um það, að ég mundi beita mér fyrir fjárveitingu. Ég vil þakka núv. hæstv. samgrh. fyrir það, að hann endurnýjaði þetta bréf eftir að ljóst var, að þessi framkvæmd kostaði ekki 11 millj. heldur 15 millj. En þessi framkvæmd er geysiþýðingarmikil fyrir þetta pláss, sem er í stórum uppgangi með sína útgerð. Nú er komið skjól fyrir bátana. Og þetta er kannske ódýrasta hafnargerð, sem gerð hefur verið á þessu landi. Ég vil vekja athygli á því, að það er ekkert nýmæli, þótt ráðh. veiti sveitarfélögum eða öðrum aðilum leyfi til að taka lán út á væntanlegar fjárveitingar seinna. Það hefur verið gert ótal sinnum, allt í kringum landið. Og ég samþykkti slíkar lántökur víða á s.l. vetri.

Hæstv. fjmrh. talaði um það, að hafnarframkvæmdirnar hefðu verið allt of litlar á undanförnum árum og fjárveiting til þeirra. Þetta er alveg rétt. En einmitt þess vegna var sveitarfélögunum gerður greiði með því að gefa þeim leyfi til að taka lán og flýta framkvæmdunum, þegar þau gátu fengið lánið. Og þetta hefur einnig gerzt í öðrum framkvæmdum svo sem vegaframkvæmdum, eins og kunnugt er, og hefði þótt dálítið stirðbusalegt af ráðh. að neita að gefa leyfi til slíkrar lántöku.

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir það að hafa byrjað fjárveitingar til bændaskólans í Odda. Þótt það sé lítil upphæð, þá nægir hún til þess, að nefnd sú, sem á að undirbúa skólamálið þar, getur haldið áfram að starfa. Og mín meining er sú, að það verði hægt að hyrja byggingu á þessum skóla árið 1974 til minningar um fyrsta skólasetur á Íslandi, sem var í Odda. Með því að fá fjárveitingu á árinu 1972, þótt hún sé ekki há, og aftur á árinu 1973 til undirbúnings skóla í Odda, á að vera hægt að hefja framkvæmdir 1974 og þá ætti skólabyggingunni á Hvanneyri einnig að vera lokið og því tímahært að hefja framkvæmdir í Odda.

Mér fannst nú hæstv. fjmrh. vera nokkuð kokhraustur, þegar hann var að tala um það, að eiginlega ætti fyrrv. ríkisstj. mesta sök á hækkun fjárlaga fyrir árið 1972. Það er alveg áreiðanlegt, að við munum ekki skorast undan því að viðurkenna þann bagga, sem okkur má kenna í þessu frv. Við vitum, að það er nokkur upphæð. Það er nokkur hluti af þeirri hækkun, sem var í fjárlagafrv., þegar það var lagt fram í haust. En þær hækkanir, sem síðar koma, eru vitanlega ekki afleiðingar af verkum fyrri ríkisstj. Og í rauninni er engin ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að kvarta undan þeirri hækkun, sem er vegna aðgerða fyrrv. ríkisstj., vegna þess að fyrrv. stjórn lagði á borð með sér auknar tekjur. Ekki aðeins til að mæta þessum útgjöldum, heldur miklu meira, því umframtekjurnar eru nú þegar, 1. nóv., 1 300 millj., sem gera miklu meira en að mæta þeim útgjöldum, sem kenna má fyrrv. stjórn. Ég held, hæstv. fjmrh., að það sé eðlilegt að athuga þetta í réttu ljósi og að það sýndi manndóm hjá núv. hæstv. ríkisstj., ef hún vildi gera svo vel að viðurkenna það, sem hún á í þessu efni.

Hæstv. ríkisstj. tók við blómlegu búi í sumar og það hefur verið á það minnt, að hún hafi verið sérstaklega glöð, hæstv. ríkisstj., þegar henni varð ljóst, hversu búið var gott, vegna þess að þá tók hún ákvörðun um að greiða út hundruð milljóna, sem ekki voru á fjárlögum. Og það var vitanlega gott að geta gert þetta. Það var gott að geta flýtt greiðslum, hækkunargreiðslum til gamalmenna og öryrkja. En það var fleira, sem hæstv. ríkisstj. greiddi út, heldur en aðeins það, vegna þess að henni fannst hún standa föstum fótum í jötu. Og það er fleira, sem staðfestir það, að hæstv. ríkisstj. áleit, að hún tæki við góðu búi. Enda þrætir hún ekki fyrir það.

Hæstv. forsrh. upplýsti það hér í hv. Alþ., að atvinnuvegirnir hefðu að mati ríkisstj. staðið það vel, að það væri óhætt að lofa launþegum 20% kaupmáttaraukningu, styttingu vinnuviku og lengingu á orlofi. Þetta hefði hæstv. ríkisstj. ekki gert, ef hún hefði ekki verið sannfærð um að hafa tekið við góðu búi. Úr því að það liggur nú fyrir alveg skjalfest, að búið var svona gott um miðjan júlímánuð, þá tekur vítanlega enginn mark á því, þótt hæstv. fjmrh. eða einhver annar hæstv. ráðh. eða einhver hv. stjórnarsinni fari nú að tala um það, að búið hafi ekki verið gott. Það hefur hallað undan fæti síðustu 5 mánuðina, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft yfirsýn yfir fjármálin eða atvinnumálin, og það fer alltaf þannig, ef menn hafa ekki yfirsýn yfir það, sem þeir eiga að sjá yfir, — þá hlýtur alltaf að reka í strand. Undir þeim kringumstæðum eru gerðir þeir hlutir, sem kippa stoðunum undan því, sem á að standa. Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að hæstv. ríkisstj. hefði komið í veg fyrir vandræði á vinnumarkaðinum og vinnudeilur. Er þetta nú rétt? Eru nú allar vinnudeilur leystar? Eru ekki 14 skip bundin í höfninni? Eru nokkrar líkur til þess, að farmannadeilan verði leyst næstu dagana? Ekki fáum við hlöðin til þess að lesa. Er ekki enn eftir að semja um veigamikil atriði við verkalýðsfélögin öll, og takist ekki þeir samningar, er þá ekki hótað verkfalli, allsherjarverkfalli? Virðast ekki enn líkur á því, að það geti komið til stöðvunar bátaflotans um næstu áramót? Ég held, að það sé of fljótt fyrir hæstv. fjmrh. að fullyrða það, að ríkisstj. hafi komið í veg fyrir stöðvun, vinnustöðvun. Það er ekki gott að sjá fyrir endann á þessu, en hæstv. ríkisstj. ætti nú ekki að hrósa sér af því, þótt hún hafi í bili komið í veg fyrir allsherjarverkfall, ef það er rétt, að kauphækkunin nemur 45%, eins og sagt hefur verið, eða 60%, eins og sumir segja. Það gæti farið svo, að það yrði þungt fyrir dyrum hjá atvinnurekstrinum að taka á sig þessar kauphækkanir ásamt þeim miklu skattahækkunum, sem felast í því frv., sem hér hefur verið lagt fram. Ég held, að það sé ástæða til, að hæstv. ríkisstj. lesi upp sínar lexíur og hún leiti ráða hjá mönnum, sem vel eru inni í þessum málum. Það var fullyrt hér í dag, að hæstv. ríkisstj. gengi illa samvinnan við embættismennina og sérfræðingana, sem stundum hefur verið gert lítið úr. Ég veit ekkert um þetta, en ég trúi því, að sá hv. þm., sem fullyrti þetta, hafi vitað um það, hann hafi ekki fullyrt þetta annars.

Ég tel svo, herra forseti, ekki ástæðu til að sinni að segja meira um þetta mál. Ég hef með þessum fáu orðum vakið athygli á því, að mér virðist ekki aðeins hæstv. ríkisstj. vera í vanda, heldur Alþingi Íslendinga og þjóðin öll, því að ef svo fer, að fjárlögin fari nú upp í 18 milljarða eða kannske meira, þá er enginn vafi á því, að slík fjárlög eru verðbólguvaldur og við megum búast við því, að það komi ótal erfiðleikar í kjölfar slíkra aðgerða.