07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í D-deild Alþingistíðinda. (4790)

914. mál, sjónvarpsviðgerðir

Fyrirspyrjandi (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör. Ég heyri það á svari hans, að sú þörf, sem ég nefndi, er raunverulega fyrir hendi og að það er viðurkennt af fræðsluyfirvöldum, að þetta vandamál þurfi nú að takast á við. Mér heyrðist á þeirri áætlun, sem hann nefndi, um menntun á þessu sviði, að gangurinn mundi verða nokkuð hægur og nokkuð fáir koma til starfa árlega, a.m.k. næstu árin. Þess vegna vil ég enn halda því fram, sem ég sagði áður, að ég held, að það verði að taka á þessum málum öllum í heild og vera ekki að baka fólki óþarfa erfiðleika úti um landsbyggðina í sambandi við sjónvarpsviðgerðir, en sjónvörp munu nú vera orðin býsna víða á landinu.

Ég þakka hæstv. ráðh. einnig fyrir undirtektir hans um það að athuga, hvort tæknimenntaðir menn úti um landsbyggðina gætu kannske fengið einhvers konar bráðabirgðalöggildingu til þess að gera við slík tæki. Og í öllu falli er hér nauðsynlegt að taka á. Mér heyrðist hæstv. ráðh. vera á þeirri skoðun líka, og því fagna ég.