07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í D-deild Alþingistíðinda. (4794)

915. mál, íþróttamannvirki skóla

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. ber fram á þskj. 126 fsp. í fjórum liðum. Hinn fyrsti þeirra er:

„Er ætlunin að breyta þeim reglum, sem nú gilda um stærð íþróttamannvirkja við skóla, þannig að þau séu miðuð við þarfir skólans og íbúa í næsta nágrenni?

2. Er ekki eðlilegast að miða stærð íþróttamannvirkja við það, að þau fullnægi eðlilegum kröfum um keppnisaðstöðu í sem flestum íþróttagreinum?

3. Er ekki nauðsynlegt, að ríkið leggi fé til byggingar sundlauga við skóla á sama hátt og til annarra íþróttamannvirkja?

4. Er ekki nauðsynlegt að marka ákveðna stefnu um það, hve mörg íþróttahús, sem fullnægja alþjóðakröfum um stærð til keppni í t.d. handknattleik, skuli reist á næstunni?“

Svar mitt við fsp. hv. 4. þm. Norðurl. e. er svo hljóðandi: Við byggingu íþróttamannvirkja skóla er höfuðreglan sú, að þau íþróttamannvirki ein, sem þjóna þörfum hlutaðeigandi skóla, eru reist sem skólamannvirki, þ.e. að um þau gilda sömu greiðsluhlutföll milli ríkisins og sveitarfélaga og um kennslurými skóla, og greiðast því 50% kostnaðarins úr ríkissjóði. Um önnur íþróttamannvirki gilda hins vegar þær reglur, að Íþróttasjóður getur, eftir því sem hann hefur fjármagn til, greitt allt að 40% stofnkostnaðar, en 60% greiðast af heimaaðilum. Í skólakostnaðarlögum er tekið fram, að ríkissjóði sé heimilt að greiða framlag til stofnkostnaðar íþróttahúsa og sundlauga, sem bæjar- og sveitarfélög reisa ein eða í samvinnu við íþrótta- og ungmennafélög, á sama hátt og um stofnkostnað kennslurýmis væri að ræða, miðað við nýtingu þessara mannvírkja vegna skólahalds, þ.e. að í stað þess að reisa sérstök íþróttamannvirki fyrir skóla, er heimilt að taka þátt í greiðslu kostnaðar við íþróttamannvirki, sem sveitar- og bæjarfélög og fleiri reisa, gegn því, að hlutaðeigandi skóli eða skólar fái fullnægt þörf sinni fyrir íþróttaaðstöðu, en sá hluti íþróttamannvirkis, sem ríkissjóður greiðir þannig til vegna skóla, hlýtur þá ekkert framlag úr Íþróttasjóði.

Í reglugerðinni um stofnkostnað skóla og reglunum, hinum svokölluðu „normum“, um byggingu skóla og búnað, sem menntmrn. setti samkv. skólakostnaðarlögum, er kveðið á um stærð íþróttarýmis miðað við þarfir skóla, eins og hv. þm. lýsti. Þessi stærðarnorm voru algjör nýjung hér á landi, og var sérstaklega tekið fram af hálfu menntmrn. í formála fyrir sérprentun reglugerðarinnar og normanna, að þeim þyrfti að beita með sveigjanleik og taka fullt tillit til þess, sem reynslan kynni að leiða í ljós. Hafa skólabyggingarnormin verið í endurskoðun að undanförnu, og meðal þess, sem menntmrn. hefur í hyggju í sambandi við endurskoðun normanna um íþróttarými, er, að á þeim skólastöðum, þar sem slíkt telst eðlilegt, verði komið upp íþróttaaðstöðu, ekki einungis miðað við þarfir hlutaðeigandi skóla, heldur einnig miðað við að leysa um leið þarfir umhverfisins fyrir íþróttaaðstöðu. Þetta sjónarmið helgast af því, að óskynsamlegt er og í mörgum tilfellum nálega óframkvæmanlegt af fjárhagsástæðum að koma fyrst upp íþróttaaðstöðu fyrir skóla og síðan annarri íþróttaaðstöðu fyrir íþróttastarfsemina í námunda við skólana. Það hefur reynzt ærið erfitt og viða ekki verið framkvæmanlegt að koma upp íþróttaaðstöðu fyrir skólana eina, og eina ráðið til þess að fullnægja einnig þörf umhverfisins fyrir íþróttaaðstöðu er að sameinast um byggingarnar bæði fyrir skóla og allan almenning. Hrein skólamannvirki fá, eins og áður segir, greiddan úr ríkissjóði helming stofnkostnaðar, en íþróttamannvirki, sem sveitarfélög og íþrótta- og ungmennafélög reisa, geta fengið 40% kostnaðarins úr Íþróttasjóði, þegar hann hefur fé til þess. Ef horfið yrði að því að leysa íþróttaaðstöðuþörfina sameiginlega á vissum svæðum á landinu, þá mundu verða byggðir stærri íþróttasalir og stærri sundlaugar með það fyrir augum að fullnægja stærðarkröfum, sem gerðar eru samkv. alþjóðareglum fyrir iðkun tiltekinna íþrótta, eins og t.d. handknattleiks eða körfubolta.

Að því er fjárhagshlið málsins varðar, virðist einkum vera um tvennt að ræða. Annar kosturinn er sá, að umrædd íþróttaaðstaða fyrir stór svæði verði skoðuð sem skólamannvirki og komi undir 50% greiðslureglur úr ríkissjóði og lúti sömu reglum um afnot og skólamannvirki, eða hinn kosturinn, að Íþróttasjóði verði veitt sérstök fjárveiting, sem bundin sé við það að greiða allt að 40% af stofnkostnaðinum við þessi sameiginlegu íþróttamannvirki, þ.e. af þeirri stærð, sem er umfram skólanormin, eins og þau verða að lokinni endurskoðun. En þessum fjárveitingum mætti þá ekki blanda saman við hina almennu fjárveitingu til Íþróttasjóðs, heldur halda henni eingöngu til skólamannvirkjanna. Þetta eru þau atriði, sem verið hafa í athugun að undanförnu og mun vafalaust verða ráðið til lykta áður en langt um líður, og get ég í raun og veru fyrir mitt leyti svarað játandi öllum liðum fsp. hv. þm.