25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í D-deild Alþingistíðinda. (4801)

910. mál, vísitölubinding húsnæðislána

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 9. landsk. þm. spyr um niðurstöður könnunar á vísitölu húsnæðismálastjórnarlána. Ég vil svara þessari fsp. með nokkrum orðum, eins og málið blasir nú við. Með hliðsjón af því, að gildandi ákvæði um lánskjör af íbúðarlánum urðu til í samningum við fulltrúa verkalýðsfélaga, fór félmrn. fram á það með bréfi 28. maí 1971 við Seðlabanka Íslands, að hann tæki upp viðræður f.h. ríkisstj. við fulltrúa Alþýðusambands Íslands um gildandi ákvæði vísitölubindingar íbúðarlána við veðdeild Landsbanka Íslands. Báðir aðilarnir, Seðlabankinn og Alþýðusambandið, urðu við tilmælum ríkisstj. og tilnefndu hvor um sig tvo menn til þessarar könnunar. Samkomulag varð milli fulltrúa Seðlabankans og Alþýðusambandsins um það, að hvor aðilinn um sig skyldi framkvæma eigin úrvinnslu á gögnum og semja skýrslu, sem síðan átti að bera saman og samræma, og má nú vænta þeirrar samræmingar, þegar skýrsla Alþýðusambandsins liggur fyrir, en hún hefur aðeins borizt nú fyrir fáum dögum. Það er mikið plagg og með mörgum töflum, og þetta er sem sé ekki komið lengra en svo, að Seðlabankinn hefur skilað sinni könnunarskýrslu, Alþýðusambandið einnig nú fyrir nokkrum dögum, en næsta verkefni er úrvinnsla úr þessum gögnum, sem verður að bera saman og helzt að fá þar úr sameiginlega niðurstöðu.

Ég veit ekki, hvort það svarar nokkrum tilgangi að lesa nú upp niðurstöður af könnun Seðlabankans einni út af fyrir sig. Ég hefði talið, að það væru hyggilegri vinnubrögð að bíða eftir því, að þessi gögn beggja aðilanna yrðu borin saman, og það á ekki að taka mjög langan tíma. Ég geri ráð fyrir, að hægt verði að gera það innan viku eða tíu daga eða svo, en hins vegar er ég reiðubúinn til þess, ef þess er óskað nú, að láta menn fá að heyra niðurstöður seðlabankafulltrúanna, sem unnu verkið út af fyrir sig fyrir ríkisstj. á vegum Seðlabankans.