25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í D-deild Alþingistíðinda. (4810)

908. mál, stofnlán atvinnuveganna

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir þau svör, sem hann gaf hér, og þær upplýsingar, sem hann veitti þm. varðandi þau mál, sem hér er spurzt fyrir um. Það er rétt hjá honum, að ég hlustaði á ræðu, sem ráðh. flutti á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, þar sem hann gaf nokkrar og svipaðar upplýsingar og hér koma fram, en það kom fram hjá honum þar, nákvæmlega eins og hér, að ríkisstj. eða hann hefði skrifað eða sent bréf bæði til Fiskveiðasjóðs og einnig til Seðlabankans varðandi þessi atriði. Fsp. mín er ekki um það, hvenær ríkisstj. hafi skrifað einhver bréf í sambandi við þessi mál, fsp. er beint um það, hvenær sé að vænta framkvæmda og aðgerða í málinu.

Það greiðir að sjálfsögðu lítið fyrir atvinnuvegunum, þó að skrifuð séu bréf, jafnvel frá hæstv. ríkisstj., ef ekki er jafnhliða tekin ákvörðun um það, að hin tilteknu mál skuli koma til framkvæmda. Það er það, sem allt veltur á.

Hæstv. ráðh. gaf hér þær upplýsingar varðandi stofnlán úr Fiskveiðasjóði, og kom það einnig fram á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna, ef ég hef tekið rétt eftir, að fyrirhuguð lenging lána ætti aðeins við þau lán, sem eftirleiðis yrðu afgreidd. Fsp. mín til hans nú er um það, hvort þessi breyting á lánstíma nái ekki einnig til eldri lána, bæði að því er varðar lengd lánanna og eins vextina. Um hin ýmsu útgjöld, sem spurzt er fyrir um og heitið er fyrirgreiðslu um í stjórnarsáttmálanum til handa atvinnuvegunum, þá er það að sjálfsögðu mjög gott, að þetta verði allt saman tekið til athugunar í sambandi við skattheimtumálin almennt. En þurfa ekki atvinnuvegirnir einmitt á þessum tíma, þegar standa yfir mjög erfiðir og umfangsmiklir allsherjarsamningar um kaup og kjör, þurfa þeir ekki á þessum tíma að vita það, um hvaða fyrirgreiðslu er þarna að ræða eða hvaða fyrirgreiðslu er þarna að vænta? Ég hygg, að það sé talið mjög eðlilegt, að til þessa verði tekið tillit í sambandi við kjaramálin, og að mínum dómi er alveg nauðsynlegt, að fyrir liggi, um hvaða breytingar sé þarna að ræða og hvaða fyrirgreiðslu sé að vænta í þessu sambandi.

Ég fagna því, að hæstv. ráðh. svaraði því einnig til, að hann hefði skrifað bréf til Seðlabankans, þó að það sé að sjálfsögðu engin lausn frekar en bréf til Fiskveiðasjóðs, ef ekki er jafnhliða tekin ákvörðun um, að breytingar skuli verða á afurðalánum. Hækkun úr 50% í 67% er veruleg hækkun, og hana ber að sjálfsögðu að meta, og einnig ber að meta þá vaxtalækkun, sem hann boðaði hér, þó að hérna sé um litla breytingu að ræða. Ég hygg, að það hafi engin úrslitaáhrif í sambandi við fiskvinnslu og útgerð. Þar sem í þetta skipti væri um 3/4 % lækkun að ræða, þá er þar ekki um svo stórvægilegar upphæðir að ræða, sem þar koma til greina, að það skipti neinum sköpum hjá atvinnuvegunum, en ég vildi spyrja ráðh. um það hvort ekki yrði gengið þannig frá þessum málum, þegar ákvörðun verður tekin hjá Seðlabankanum, að það verði raunverulega um 67% útlán að ræða út á afurðir. Þarna hefur verið talað um 50% áður, en ég hef það frá aðilum, sem mjög eru þessum málum kunnugir, að raunverulega sé ekki um nema 40% að ræða eða rúm 40%, vegna þess að viðmiðunarverð Seðlabankans er ekki í samræmi við raunverulegt verðmæti afurðanna. Það er mjög mikilsvert atriði, að einnig verði lagfæring á þessu, ef það er rétt, sem ég hef tekið trúanlegt, að lánin væru ekki að því marki, eins og til hafði verið ætlazt, hvað þetta atriði snertir.

Þá ber einnig að fagna því, að hæstv. ráðh. hefur með bréfi farið fram á það, að mér skilst, við viðskiptabankana, að rekstrarlán til báta verði endurskoðuð til hækkunar. Um þetta hafa að vísu gilt reglur, en verið nokkuð mismunandi eftir aðstæðum, en að sjálfsögðu er mjög gott að fá um það fastar og ákveðnar reglur, þannig að menn víti fyrir fram, að hverju er gengið. Það má segja sama um fsp. varðandi endurskoðunina á vátryggingarmálum fiskiskipa, að auðvitað er það spor í rétta átt, að nefnd sé skipuð í málið, en ég tel þó a.m.k., að það verði að leggja mjög mikla áherzlu á, að þessi nefnd hraði störfum, því að eftir því sem ég þekki þessi mál, þá er þar ýmislegt, sem lagfæringar þarf við, og eðlilegt að verði tekið til endurskoðunar. Vænti ég þess fastlega, að hæstv. ráðh. sjái um, að nefndin vinni með þeim hraða, sem tök eru á.