25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í D-deild Alþingistíðinda. (4812)

908. mál, stofnlán atvinnuveganna

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. út af því máli, sem hér er til umr. Það er nú svo, að það eru tvær hliðar á því máli og raunar miklu fleiri, en þó tvær meginhliðar. Vextir eru ekki bara gjöld fyrir atvinnuvegina, þeir eru líka tekjur fyrir viðkomandi stofnlánasjóði, og eftir því sem þeir stofnlánasjóðir hafa meiri tekjur, bæði af vöxtum og öðrum tekjum, þá geta þeir auðvitað betur sinnt sínu hlutverki fyrir atvinnuvegina. Það liggur í augum uppi. Ég skal ekki karpa um það hér á hinu háa Alþingi, hvort þessi ráðstöfun mundi auka verðbólgu eða ekki. Ég hygg, að ríkisstj. muni á næstunni fá að þreifa á, hver þróunin verður í þeim málum, og hún mun sennilega trúa því betur en orðum okkar hér á Alþ., a.m.k. þeirra, sem í stjórnarandstöðu erum. En tilgangur minn með því að taka hér til máls var sá að fá það upplýst, hvort ríkisstj. hefði gert sér grein fyrir því, hvernig viðkomandi stofnlánasjóðum yrði bættur upp sá tekjumissir, sem þeir yrðu fyrir af vaxtalækkuninni. Var gerð athugun á því, hversu mikil sú tekjuminnkun yrði, og hyggst ríkisstj. með einhverjum hætti afla fjár í staðinn til þess að efla stofnlánasjóði atvinnuveganna, þannig að þeir geti eins vel og áður staðið undir hlutverki sínu?