25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í D-deild Alþingistíðinda. (4815)

908. mál, stofnlán atvinnuveganna

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessa merkilegu ræðu, sem hann flutti hér út af þessum sakleysislegu fsp. mínum. Ég vissi satt að segja ekki, hvað hann var að fara á tímabili. Ég skal lofa því að spyrja hæstv. ráðh. ekki, hvar hann var í gær eða viðlíkra spurninga, enda er það mál ekki hér á dagskrá.

Ég vil algerlega mótmæla því, að ég hafi gert litið úr því, að þetta hefði bætandi áhrif fyrir atvinnuvegina að greiða lægri vexti. Það getur hvert barn sagt sér það, og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geri því ekki skóna, að þm. séu svo skyni skroppnir, að þeir geti ekki séð þá hlið á málinu. Hins vegar benti ég á, að það væru tvær hliðar á þessu máli, og hæstv. ráðh. sagði, að við sjálfstæðismenn hefðum barizt fyrir því að lækka framlag til Fiskveiðasjóðs á undanförnum þingum og taldi, að það væri alveg stórkostlegur glæpur, á sama tíma sem hann taldi, að það skipti tiltölulega litlu máli, þótt vaxtatekjur Fiskveiðasjóðs stórlækkuðu. Ég skil satt að segja ekki svona röksemdafærslu. Hún er mér algerlega hulin. En það kom glögglega í ljós í ræðu hæstv. ráðh., að ríkisstj. hefur ekki kannað fyrir fram, hvaða áhrif þetta hefði til tekjuskerðingar fyrir stofnlánasjóðina. Það kom glögglega í ljós, að hún hefur ekki kannað það frekar en það, sem hún hefur svo oft gert áður. Hún hefur tekið ákvarðanir fyrst og ætlað síðan að athuga málið. Það kann að vera, að það séu nógir peningar til til þess að efla stofnlánasjóðina og ríkisstj. hafi það fé einhvers staðar í handraðanum, sem hún telur sig geta fengið til þess. En þetta hlýtur að verða tekjuskerðing fyrir sjóðina, og það hefði verið lágmark, að ríkisstj. hefði gert sér grein fyrir þessu. Við skulum alveg gera okkur það ljóst, að þetta eru stofnlánasjóðir viðkomandi atvinnugreina. Þetta eru ekki bankar, og það hefði verið lágmarkskrafa, að hún hefði gert sér grein fyrir þessu. Ef það er tiltölulega lítið og tiltölulega auðvelt, hvers vegna þá ekki að gera sér grein fyrir því áður og gera sér það fyrst í hugarlund, hvernig ríkisstj. ætlaði að leysa þá hlið málsins? Og ég vil spyrja aftur. Gerði ríkisstj. sér grein fyrir því, hvað þetta var mikið? Og ég vildi biðja ráðh. þá að upplýsa okkur um það, hvað mikil sé tekjuskerðing Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og annarra stofnlánasjóða atvinnuveganna vegna þessarar vaxtalækkunar. Getur ráðh. upplýst það? Og með hvaða hætti ætlar ríkisstj. að bæta þessum þýðingarmiklu grundvallarstofnsjóðum fyrir atvinnuvegina þetta upp?