01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í D-deild Alþingistíðinda. (4832)

913. mál, endurbætur vegna hraðfrystiiðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. svör hans. Ég geri mér grein fyrir því, að hér er um afar viðamikið mál að ræða og kannske varla til þess að ætlast, að áætlanir liggi fyrir, þó að það séu mér nokkur vonbrigði, að málið skuli ekki vera komið lengra áleiðis en fram kom. Tel ég, að hraða verði áætlanagerðinni sem allra mest, því að eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, getur svo farið, að við höfum aðeins 2–3 ár til stefnu og því ljóst, að stórmikið átak þarf að gera þegar á þessu ári.

En sérstaklega vil ég leyfa mér að vara við því að skera um of við nögl, þegar reynt er að skilja frá það, sem hæstv. ráðh. nefndi óskylda kostnaðarliði. Ég þekki dálítið til í nokkrum frystihúsum, og mig grunar, að viða hafi komið í ljós, að ekki var unnt með góðu móti að lagfæra það, sem þessar nýju kröfur einar gera ráð fyrir, án þess að hrófla við fjölmörgu öðru. Reynist beinlínis óhagkvæmt í mörgum gömlum og lélegum húsum að framkvæma þær lagfæringar, sem nauðsynlegar eru, án þess að gera annað og stærra átak um leið. Jafnframt er vitanlega ljóst, að á einhvern máta verða opinberir aðilar að hafa forgöngu um að útvega fjármagn til framkvæmdanna, hvort sem nákvæmlega er um að ræða lagfæringar vegna kröfu erlendis frá eða aðrar skyldulagfæringar.

Svo vil ég aðeins að lokum upplýsa það, að mér tókst að ná í eintök af því frv., sem fór í gegnum öldungadeild Bandaríkjaþings, og umr., sem þar urðu um það. Til upplýsinga fyrir hv. þm. vil ég leyfa mér að geta þess, að í því frv. er gert ráð fyrir að auka framlag til fiskveiðasjóðs þeirra Bandaríkjamanna upp í 35 millj. dollara eða upp í 3300 millj. ísl. kr., og skilst mér, að þar muni vera um nálægt því tvöföldun að ræða, og er það gert í þeim tilgangi að skapa fiskvinnslustöðvum þar fjármagnsmöguleika til þess að framkvæma þær lagfæringar, sem nauðsynlegar verða. Mér sýnist, að hér sé raunar um langtum stærra mál fyrir okkur Íslendinga að ræða en fyrir bandarískan fiskiðnað séð frá sjónarmiði þjóðarbúsins í heild, og við megum áreiðanlega ekki spara neitt til þess, að sem bezt megi verða úr þessum framkvæmdum gert.