01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í D-deild Alþingistíðinda. (4835)

913. mál, endurbætur vegna hraðfrystiiðnaðarins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vildi taka af allan vafa um það, að menn hefðu skilið mál mitt rétt. Ég vil ekki á neinn hátt draga úr því, að þær háu tölur, sem nefndar hafa verið, þó að fullnaðaráætlanir liggi nú ekki fyrir um þennan kostnað, eigi rétt á sér, þegar rætt er um allan þann kostnað, sem hér hefur verið fjallað um og ég minntist á í mínu svari. Ég lagði aðeins áherzlu á það, að þær tölur, sem nefndar hefðu verið, býsna háar, gæfu ekki rétta hugmynd um þann kostnað, sem því væri samfara að uppfylla þær sérstöku kröfur, sem gerðar yrðu um hreinlæti og aðbúnað í frystihúsunum. Ég vildi aðeins draga þarna skil á milli. Mér er það ljóst, að þær áætlanir, sem gerðar hafa verið, fjalla um stórkostlegar endurbætur í okkar frystiiðnaði og í sumum tilvikum hreinlega um endurbyggingu frystihúsa að hálfu eða öllu leyti og auðvitað um stórkostlega aukningu. Vissulega er það stórt verkefni, sem þarf að leysa, og það þarf að afla fjár til þess líka. En ég taldi hins vegar rétt, að menn reyndu að skilja þarna á milli.

Það verður að sjálfsögðu litið á þetta mál sem heild, m.a. á þann þáttinn, sem snýr beinlínis að sveitarfélögunum, því að það eru ekki miklar líkur til þess, að þau geti lagt fram mikið fjármagn til endurhóta í þessum efnum, nema þeim verði rétt hjálparhönd í sambandi við slíkt átak. Ég dreg sem sagt ekki úr því á neinn hátt, að hér er um gífurlega stórt verkefni að ræða, og þarf mikið fjármagn til þess. En hér er um margþætt vandamál að ræða. Hér er ekki aðeins um að ræða sérstakar kröfur erlendis frá varðandi hreinlætismál. Hér er um enn þá stærra vandamál að ræða, þegar litið er á það sem heild.