14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

1. mál, fjárlög 1972

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að ræða í einstökum atriðum eða í heild það frv. til fjárlaga fyrir árið 1972, sem hér liggur fyrir til 2. umr., heldur gera stuttlega grein fyrir tveimur litlum brtt., sem við 5. þm. Reykn. leggjum hér fram við frv. og brtt. við það. Þó get ég nú ekki orða bundizt með það að láta í ljós undrun mín á því, hvernig að þessum málum er staðið hér á hinu háa Alþ. varðandi undirbúning og afgreiðslu fjárlagafrv. til 2. umr. Það má vel vera, að sumum hinna eldri hv. þm. þyki þetta harla gott og mikið öðru vísi geti þetta varla verið og kann svo vel að vera. En fyrir nýliða eins og mig hér á þessum vettvangi, sem þó hefur nokkur kynni af fjármálum sveitarfélags, þá er allur málatilbúnaður í sambandi við þetta mikilsverðasta mál, sem Alþ. fær til meðferðar, með þeim hætti, að mér kemur nokkuð á óvart, svo að ekki sé meira sagt. Í því efni er af miklu að taka, en ég skal ekki lengja umr. með því að fara að ræða það ítarlega, enda hafa aðrir ræðumenn gert það hér á undan mér. En mér finnst t.d. alveg fráleitt annað við 2. umr. en að unnt sé að gera sér grein fyrir í stærstu dráttum niðurstöðutölum fjárlagafrv., og einnig hvernig eigi að afla þess fjár, sem standa á undir fyrirhuguðum útgjöldum. Það er af og frá, að það sé hægt af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, en út í þessi atriði skal ég ekki fara nánar, þar sem öðrum ræðumönnum hefur orðið mjög tíðrætt um þetta hér í þessum umr. Það er fjarri mér, að ég vilji fara að endurtaka nokkuð af því, sem þeir hafa sagt. En þær brtt., sem ég hef lagt fram ásamt 5. þm. Reykn. og vil gjarnan gera grein fyrir hér, fjalla í fyrsta íagi um utanrrn. Við viljum leggja það til, að varið verði 5 millj. kr. til þess að koma á sérstakri viðskiptaþjónustu í íslenzkum sendiráðum. Það hefur verið mjög um það rætt á liðnum árum, að fyrir löngu sé orðið tímabært að endurskipuleggja íslenzka utanríkisþjónustu með það fyrir augum að gera hana virkari til starfa fyrir íslenzka viðskiptahagsmuni. Í málefnasamningi núv. ríkisstj. er gert ráð fyrir, að endurskoðun fari fram á utanríkisþjónustunni. Er satt að segja ekki að undra, þótt slíkar yfirlýsingar komi fram í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj.-flokka, þegar haft er í huga, að einmitt formælendur sumra þeirra hafa haldið mjög á lofti nauðsyn þess, að slík endurskoðun færi fram, þegar þeir hafa verið í stjórnarandstöðu. Og nú er eftir að sjá, hvort núv. stjórnarflokkar standa við stóru orðin í þessum efnum.

Ég er einn þeirra, sem er þeirrar skoðunar, að knýjandi sé að efla starfsemi íslenzkra sendiráða á sviði verzlunar og viðskipta. Gagnlegt starf að þessu leyti getur verið ómetanleg stoð þeim aðilum, sem að sölumálum vinna, ef rétt er á málum haldið. Vissulega vinna íslenzkir sendiráðsmenn að þessum málum með ýmsum hætti. Þeir greiða fyrir starfi íslenzkra útflytjenda, ef um slíkt er beðið og veita persónulega aðstoð við lausn hvers konar vandamála í sambandi við útflutningsmál. Þeir veita útflytjendum upplýsingar um tolla og innflutningshöft og aðrar reglur viðvíkjandi útflutningsvörum okkar. Þeir benda útflytjendum á ný viðskiptasambönd og nýja sölumöguleika og koma áleiðis til réttra aðila á Íslandi upplýsingum, sem að gagni koma við sölustarfíð. En þrátt fyrir þetta starf, sem þeir hafa unnið að og hér hefur verið minnzt á, vantar mikið á, að þeir hafi þann tíma, sem þörf er á til að sinna þessum mikilsverðu verkefnum vegna annarra verkefna, sem þeir komast ekki hjá að sinna. M.ö.o., það er fámenni íslenzkra sendiráða, sem gerir það að verkum, að þau geta ekki sinnt aðkallandi verkefnum, sem snerta sölu- og markaðsmál útflutningsvara okkar. Það mál verður að minni hyggju bezt leyst með því að ráða sérstaka menn til helztu sendiráða okkar til þess að sinna þessum málum eingöngu. Það er nefnilega ekki hægt að ætlast til þess með sanngirni, að íslenzk sendiráð, eins og þau eru nú skipuð, geti sinnt markaðs- og viðskiptamálum, svo að verulegt gagn sé að, með þeim mannafla, sem þau hafa nú á að skipa. Þau verða að fá fleiri starfsmenn til þess að sinna þessum málum og til þess að þeim verði komið í það horf, að viðunandi geti talizt. Þess vegna er þessi till. okkar hv. 5. þm. Reykn. um 5 millj. kr. framlag til viðskiptaþjónustu við íslenzk sendiráð fram komin, og hún miðar að því að leysa þennan vanda og gera íslenzkum sendiráðum kleift að auka þjónustu sína við íslenzka útflytjendur og sölumenn á erlendum mörkuðum.

Síðari till., sem ég vildi hér gera grein fyrir, fjallar um fjárveitingu til Æskulýðssambands Íslands. Þess hefur verið farið á leit við fjvn. og hv. Alþ., að það veiti á næsta ári 330 þús. kr. til starfsemi þess. Æskulýðssamband Íslands samanstendur af 12 æskulýðssamtökum. Það var stofnað árið 1952. Í lögum þess segir svo um markmið sambandsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Markmið ÆSÍ er að efla samstarf og kynningu meðal íslenzkra æskulýðsfélaga og koma fram sem fulltrúi þeirra innanlands og utan. Markmiði sínu hyggjast samtökin m.a. ná með því í fyrsta lagi að halda uppi námskeiðum og ráðstefnum fyrir félagsmenn aðildarsambanda sinna, með útgáfustarfsemi o.s.frv. Í öðru lagi að starfrækja upplýsinga- og fyrirgreiðsluskrifstofu í Reykjavík fyrir æskulýðssamtökin í landinu og veita þeim að öðru leyti þá þjónustu, sem tök eru á. Í þriðja lagi að starfa í anda Mannréttindaskrár Sameinuðu þjóðanna og hafa vinsamleg samskipti við æskulýðssamtök hvar sem er í heiminum. Í fjórða lagi að vinna að innlendum og alþjóðlegum baráttumálum ungs fólks.“

Þetta samband hefur vissulega unnið að ýmsum mikilsverðum málefnum á liðnum árum. Sem dæmi um slík málefni mætti nefna, að þau áttu frumkvæðið að stofnun Landverndar, samtaka, sem unnið hafa merkilegt og mikilsvert starf á sviði gróðurverndar og uppgræðslu. Æskulýðssamband Íslands hafði frumkvæði að svo kallaðri „Herferð gegn hungri“, sem stóð að fjáröflun til hjálpar bágstöddu fólki í þróunarlöndunum. Æskulýðssamband Íslands hefur einnig staðið fyrir ýmiss konar ráðstefnuhaldi á yfirstandandi ári, svo sem norrænu æskulýðsmótí á s.l. sumri, sem fjallaði um Ísland fyrr og nú, og ráðstefnu um mismunun kynja fyrir stuttu síðan, en sú ráðstefna vakti almenna athygli. Vaxandi umsvif sambandsins á næsta ári á innlendum og erlendum vettvangi liggja til grundvallar brýnni þörf fyrir þá fjárveitingu, sem við hér höfum lagt til, að veitt yrði til þessara æskulýðssamtaka á næsta ári. Ég vil í því sambandi benda á tvær ráðstefnur, sem ákveðið hefur verið að halda á næsta ári. finnur þeirra fjallar um landhelgismál og hafmengun. Í henni munu taka þátt ungir menn og konur frá Vestur-Evrópu. Hin ráðstefnan er um minnihlutavandamál þjóða. Er búizt við þátttöku frá Bandaríkjunum, Mexíkó, Kanada og frændþjóðum okkar á Norðurlöndum í þessari ráðstefnu. Þá hefur þetta samband áætlanir á prjónunum um að láta til sín taka á næstunni í vaxandi mæli í baráttunni gegn fíknilyfjaneyzlu, svo að dæmi séu tekin um þau málefni, sem þessi samtök láta sig skipta.

Ég leyfi mér að vona, að hv. þm. sjái sér fært að veita þessari till. brautargengi. Ég get ekki betur séð en starfsemi Æskulýðssambands Íslands hafi verið með þeim hætti, að réttmætt sé á allan hátt og eðlilegt, að stutt sé myndarlega við bakið á þessum samtökum og því æskufólki, sem að þeim standa, með fjárframlagi, sem þeim er nauðsynlegt að fá til að geta rekið þessa starfsemi með eðlilegum hætti.

Herra forseti. Ég hef farið nokkrum orðum um tvær litlar brtt. við það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir. Í trausti þess, að hv. fjvn. sjái sér fært, að nánar athuguðu máli, að mæla með samþykkt þessara till., leyfi ég mér að taka þessar till. til baka til 3. umr.