01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í D-deild Alþingistíðinda. (4854)

143. mál, söluskattur á raforku til húshitunar

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum s.l. sumar, var það eitt af fyrstu verkum hennar að hagræða vísitölunni með því að fella niður söluskatt á orku til húsahitunar. Ekki tókst þó betur til en svo, að söluskattur af raforku í framangreindu skyni var ekki felldur niður þrátt fyrir þá eindregnu yfirlýsingu í stjórnarsamningnum, að nú skyldi reisa stórvirkjanir, m.a. til þess að afla orku til húsahitunar. Ég vil vekja athygli hins háa Alþingis og þjóðarinnar allrar á því mikla misrétti, sem þessi stjórnarathöfn hefur haft í för með sér. Í því sambandi vil ég taka dæmi um, hvernig Akureyringar verða misrétti beittir, vegna þess að söluskattur á raforku til húsahitunar var ekki felldur niður samtímis því, að felldur var niður söluskattur á olíu og jarðvarma til upphitunar húsa. Á Akureyri fara 60% af seldri orku Rafveitu Akureyrar til húsahitunar. Þessi orka er seld samkv. núgildandi gjaldskrá á 21 millj. kr. yfir allt s.l. ár. Söluskattur, sem þessum húseigendum er gert að greiða, er því um 2 millj. kr. yfir árið, þ.e. sé miðað við það, hvenær söluskattur var felldur niður á hliðstæðum orkugjöfum á s.l. ári, hefur nálega 1 millj. kr. nú þegar verið tekin ranglega af þeim heimilum á Akureyri, sem hita hús sín upp með raforku. Hér er auðvitað um dæmi að ræða, en öll heimili í landinu, sem hituð eru með raforku, verða fyrir barðinu á þessari fráleitu ráðstöfun.

Með þessu er þó ekki sagan öll sögð. Það er alkunna, að jarðvarmi er langódýrasta orka, sem völ er á til húsahitunar. Víða hagar þó svo til, að sú orka er ekki fáanleg. Það fólk, sem byggir þá staði og sveitir, hefur því einungis um að velja olíu eða rafmagn til upphitunar. Það verður að teljast furðuleg ráðstöfun að greiða niður hinn erlenda orkugjafa, þannig að samkeppnishæfni raforkunnar rýrist til mikilla muna.

Ég hef oftsinnis spurzt fyrir um það í fjmrn., hverju þetta sæti og hvort ekki sé von á leiðréttingu. Mér hefur verið svarað því til, að það sé svo með taxta rafmagnsveitnanna, að ekki sé alls staðar unnt að greina milli seldrar orku til húsahitunar og annarrar heimilisnotkunar, málið sé í athugun. Ég lét því málið kyrrt liggja í þeirri von, að úr rættist, þótt henda hefði mátt á, að hæstv. ríkisstj. hefði getað tekið sig til og fellt niður allan söluskatt á raforku til heimilisnotkunar til þess að ná fullu samræmi í aðgerðir sínar. Annað eins hefur hún brallað í fjármálum, og einhver ráð hefur hún haft til að ná því fé, sem þannig tapaðist af tekjum ríkissjóðs, með skaplegri hætti en verið hefur.

Nú eru hins vegar liðnir um sex mánuðir síðan hæstv. ríkisstj. valdi þá leið að hagræða vísitölunni, sem m.a. hefur haft það í för með sér, að hún hefur í rauninni lagt alveg sérstakan skatt á launþega, t.d. á Akureyri, sem nemur 1 millj. kr., og hliðstæðan skatt á aðra launþega í landinu, sem hita hús sín upp með raforku. Ríkisstj. hefur fengið nægan tíma til að leiðrétta þetta óréttlæti og hefði raunar aldrei þurft að fremja það, þótt þessi leið hefði verið farin til þess að hagræða vísitölunni. Því spyr ég hæstv. fjmrh. í skrifl. fsp. á þskj. 253: Hvenær hyggst ríkisstj. afnema það misrétti að leggja söluskatt á raforku til húsahitunar, en ekki á hitaveitu eða olíu í sama skyni? Ég spyr einnig hæstv. ráðh.: Hyggst hann beita sér fyrir því að skila með einhverjum hætti því fjármagni, sem hann hefur þannig ranglega tekið af launþegum með framangreindum hætti? Hyggst hann t.d. skila heimilum á Akureyri 1 millj. kr. aukaskatti, sem hann hefur gert þeim að greiða í ríkissjóð?