01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í D-deild Alþingistíðinda. (4856)

143. mál, söluskattur á raforku til húshitunar

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Að venju vil ég þakka ráðh. fyrir svörin, þó að ég hafi raunar verið búinn að segja hér í minni ræðu, að mér hefði verið sagt þetta hjá fjmrn., að svo væri. Ég benti hins vegar á það í minni frumræðu, hvernig komast mætti fram hjá þessu, auk þess sem sérfróðir menn segja mér, að það sé vandalaust að mæla orku sérstaklega, sem er ætluð til húsahitunar, og þess vegna þurfi það ekki að vera til fyrirstöðu um, að þetta misrétti sé afnumið.

Ég skil ekki þá stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur í þessu máli. Mér sýnist, að það sé auðvelt að komast fram hjá henni, en það er eins og fyrri daginn, að allt virðist stangast á í yfirlýsingum hennar. Hún hyggst stórauka orkusölu til húsahitunar í landinu á sama tíma sem hún mismunar þeim aðilum freklega, sem kaupa þessa orku, og leggur á þá sérstakan skatt í samanburði við aðra, sem nota erlenda orku eða hitaveituorku til upphitunar. Eins og ég sagði í minni frumræðu, þá er þetta þannig, að hér á Reykjavíkursvæðinu býr fólk við miklu ódýrari orku til húsahitunar. Samt sem áður er felldur niður söluskattur hjá því, en öðru fólki, sem notar innlenda orku, sem er dýrari og sem verður erfiðara að fá fólk til að nota af þeim sökum, því er gert að greiða sérstakan söluskatt. Ég held því, að það sé algerlega óréttlætanlegt, ef ríkisstj. ætlar að halda þessu áfram, og ég segi fyrir mig, að ég lít svo á, að hv. alþm., sem þetta mál varðar, ættu að taka afstöðu til þess og reyna með einhverjum hætti að fá ríkisstj. ofan af þessari ranglátu skattheimtu.