01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í D-deild Alþingistíðinda. (4857)

143. mál, söluskattur á raforku til húshitunar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu gat ég ekki farið að breyta frásögn minni. Það stóð ekki til, þó að hv. 5. þm. Norðurl. e. væri áður búinn að fá svör úr sömu átt og ég gaf hér. Það staðfestir bara, að þau svör, sem ég gaf, eru rétt, og gleður það mig að fá staðfestingu á því.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. taldi sig hafa ráð til þess að komast fram hjá þessu atriði. Ég vil hins vegar benda honum á, að m.a. hafði ég samband við Gisla Jónsson, sem er starfsmaður hjá rafveitunum, og hann tjáði mér það, að einmitt væri þróunin fremur í þá átt, að hiti væri ekki sérmældur. Það hefði verið svo áður fyrr, og ég hélt, að það væri yfirleitt, en þróunin væri í öfuga átt.

Það, sem um er að ræða, er ekki eins og hann talar um, að það hafi verið lagður á söluskattur, heldur hitt, að það er ekki komið lengra í að fella niður söluskatt, sem er nokkuð annað. Hins vegar skal ég endurtaka það, að að þessu máli er unnið hjá ríkisstj. og ég vonast til, að viðunandi lausn fáist á því.