14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

1. mál, fjárlög 1972

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Við höfum nú orðið vitni hér í kvöld og í dag að mjög kostulegum umr., umr., sem ég satt að segja átti ekki von á að taka þátt í eða vera vitni að, svo undarlega sem öll þessi mál ber að. Við verðum vör við það hér á þingi, að fjárlög eða fjárlagatillögur hækka frá einni stund til annarrar, jafnvel frá einni ræðu til annarrar, og eftir nýjustu upplýsingum á hækkunin að nema nú um 6 milljörðum frá því, að fjárlagafrv. var lagt fram hér fyrir nokkrum vikum síðan, og ég verð að játa, að ég er ekki enn þá búinn að átta mig á því, hvernig bókstaflega er hægt á ábyrgri samkomu eins og þessari að viðhafa slík vinnubrögð. Það var sagt hér utan þingsala fyrr í dag, að þetta bæri vott um sérstaka fjármálasnilli hæstv. fjmrh., og læt ég svo þingheim um að dæma um það, hvort þau orð hafi verið viðhöfð sem lof ellegar háð. En af fullri hreinskilni og í fullri alvöru viðurkenni ég, að ég stóð í þeirri meiningu, að hæstv. ríkisstj. hygðist stemma stigu við verðbólgu í þessu landi og hún hefði viss tækifæri til þess með styrk sinum, m.a. í verkalýðshreyfingu og með aðstöðu til þess að beita sér fyrir slíkum samningum milli aðila vinnumarkaðarins, að verðbólgu yrði haldið í skefjum, og þess vegna kemur mér mjög á óvart og er jafnvel furðu lostinn að heyra jafnreynda stjórnmálamenn eins og hæstv. fjmrh. bera blak af þeim till., sem lagðar hafa verið fram af hæstv. ríkisstj. og fjvn. eða meiri hl. hennar, bera blak af því á þann hátt; að þetta frv. væri ekki verðbólguvaldur. Að vísu hefur hann játað, að verðbólgunni verði engan veginn haldið í skefjum með þessum till., en vill þó ekki viðurkenna, að hér sé raunverulega um upphaf nýrrar skrúfu, nýrrar óðaverðbólgu að ræða, og verður það að segjast eins og er, að það er ekki skiljanlegt af minni takmörkuðu reynslu, hvernig hægt er að horfa fram hjá því, ef menn vilja ræða þessi mál af skynsemi, að hér sé um að ræða till., hér sé um að ræða fjárlög, sem verða upphaf að verulegri og hættulegri verðbólguskrúfu.

Ráðh. taldi, að sú hækkun, sem fram kæmi í till. í fjárlagafrv., stafaði beint eða óbeint af aðgerðum fyrri ríkisstj., taldi þetta vera arf frá viðreisnarstjórninni, og ég hef þá velt fyrir mér, hvort líta eigi svo á, að þær till., sem hann telur nú horfa til umbóta og valda vissum tímamótum í átt til þjóðfélagslegra umbóta, sem hann telur, að markist af núv. fjárlagafrv., hvort eigi að skilja það svo, að það séu þá till. fráfarandi ríkisstj. Eða hvernig er hægt að segja það í öðru orðinu, að núv. ríkisstj. beiti sér fyrir vissri stefnubreytingu með fjárlagafrv., og í hinu orðinu að halda því fram, að allar þær hækkanir, sem þegar hafi komið fram, séu arfur frá fyrri stjórn?

Hæstv. fjmrh. hefur líka leitt rök að því, sem ég hef fullan skilning á, að flestar þær till., jafnvel allar þær till., sem til hækkunar horfa í till. ríkisstj., séu að ýmsu eða öllu leyti nauðsynlegar, og það sé ekki með góðu móti hægt að benda á neinn einstakan lið, sem sé þess eðlis, að hægt sé raunverulega að lækka hann. Og ef maður skoðar hverja till. út af fyrir sig, er hægt að fallast á þessi rök, því að það er svo í þessu þjóðfélagi okkar, að öll góð mál eiga rétt á sér, og þegar þau eru tekin ein út af fyrir sig, þá geta menn ekki beinlínis sagt: Þetta mál á ekki rétt á sér, við skulum skera þetta mál niður. En það er einmitt kúnstin við alla stjórnun, kúnstin er sú að velja og hafna milli einmitt þessara mörgu, góðu mála, og af kynnum mínum af slíkum fjárhagsáætlunum, m.a. hjá Reykjavíkurborg í allmörg ár, hef ég orðið var við það lögmál, sem gildir um slíkar áætlanir og slíkar till., að þar verður að velja og hafna og átta sig á því, hvað má taka inn og hvað á að hafa forgang. Þarna er um að ræða spurninguna um það, hvernig hægt er að auka við umbætur og þjónustu af hálfu hins opinbera, ríkis eða sveitarfélaga, um leið og maður heldur vissum sköttum eða útgjöldum á borgarana í skefjum. Vitaskuld er hægt að hækka og hækka og hækka enn, en þá leiðir það að sjálfsögðu af sér, að það verður jafnframt að hækka skatta, það verður jafnframt að hækka álögur á borgarana, og spurningin í stjórnun og spurningin, þegar um er að ræða fjárlög í þessu tilliti, er einmitt sú, hvað á að ganga langt til hækkunar, hve mikið er mögulegt að hækka þessa skatta og þessar álögur á þjóðina. Ef það er mat núv. ríkisstj., að hægt sé að hækka núv. fjárlög eða fjárlög frá fyrra ári um 6 milljarða á einni svipstundu, þá óska ég henni til hamingju og þá óska ég líka þjóðinni til hamingju með óvenjulega velferð og velsæld í þessu landi.

Ég hef leyft mér á þskj. 199 að bera fram mjög lítilmótlegar brtt. við það fjárlagafrv., sem nú hefur verið lagt fram, og sýnast þær ekki miklar, þær brtt., með tilliti til þeirrar háu upphæðar, sem nú er verið að tala um hér í sölum Alþ. Að sjálfsögðu hafði ég áhuga á því að flytja hér margar brtt. til hækkunar á ýmsum liðum fjárlagafrv., en ég hélt, að ég væri hér kominn á allábyrga samkundu og ekki væri eðlilegt að demba hér inn fjöldamörgum till. til hækkunar, án þess að gera grein fyrir því, hvernig standa skyldi skil á þeim hækkunum, og því hafði ég stillt mjög í hóf till. mínum og orðið við tilmælum og ábendingum eldri og reyndari þm. um að takmarka mjög tillöguflutning minn. Eftir að þróun mála er orðin sú, sem raun er á, bæði hér síðustu dagana með framlagningu ýmissa mála svo og vegna þess, sem augljóst er, að þessi fjárlög munu hækka, þannig að millj. kr., jafnvel tugir millj. skipta litlu sem engu, og með tilliti til þess, að fjmrh. sagði hér fyrr í vetur, þegar um var að ræða 90 millj. hækkun til Lánasjóðs ísl. námsmanna, að fjmrh. og ríkisstj. hefðu nú velt þyngra hlassi en svo, að ekki væri hægt að innbyrða slíkar smáupphæðir, með tilliti til þessa alls hef ég leyft mér að leggja fram hér lítilfjörlegar till. um tvö mál, sem ég tel þess eðlis, að ekki sé hægt að ganga fram hjá, og er raunar afskaplega undrandi á því, að í öllum þeim hækkunartillögum, sem fram hafa komið frá fjmrn. eða fjmrh., svo og fjvn., skuli hafa verið litið fram hjá þessum tveimur málum, sem ég hef hér hugsað mér að gera till. um til hækkunar. En þar er um að ræða annars vegar till. til hækkunar til Æskulýðsráðs ríkisins og hins vegar til Umferðarráðs. Ég vil fara nokkrum orðum um þessar tvær till. mínar, en skal ekki vera langorður.

Eins og hv. þm. eflaust muna, beindi ég fsp. hér fyrr í vetur til hæstv. menntmrh. um fjárveitingar til Æskulýðsráðs ríkisins og vakti athygli á því, að Æskulýðsráð ríkisins hefði verið stofnað með lögum á siðasta ári. Það hefði verið sett nú þegar sérstakt ráð og skipaður sérstakur framkvæmdastjóri fyrir þetta ráð. Það hefur verið mat manna, þ. á m. fyrrv. stjórnarandstæðinga, að hér væri um tímamótalög að ræða, hér væri um að ræða verkefni, sem við blöstu í æskulýðsstarfsemi þjóðarinnar, og enginn vafi væri á því, að þetta mál horfði mjög til bóta á þessum vettvangi. Hins vegar var talað um þá, að þetta mál stæði og félli með þeim fjárveitingum, sem til féllu til Æskulýðsráðs, og var nú eindregnum áskorunum beint til þáv. menntmrh. um að standa nú við stóru orðin og standa nú við þessa lagasetningu með því að veita rausnarlega fjárveitingu til Æskulýðsráðs. Þegar svo fjárlagafrv. birtist nú í haust, urðum við þess áskynja, að til Æskulýðsráðs var gert ráð fyrir, að veitt skyldi 100 þús. kr., og þar að auki rúmlega 2 millj. til hinna ýmsu æskulýðssamtaka, en að öðru leyti ekkert tillit tekið til þeirra fjárveitingaróska, sem Æskulýðsráð hafði farið fram á, og að því er virðist einskis virt sú tímamótalöggjöf, sem stjórnarandstæðingar töldu, að lögin um Æskulýðsráð ríkisins væru. Ég benti á í þeim umr., að Æskulýðsráð ríkisins hefði farið fram á 300 þús. kr. fjárveitingu til ráðsins sjálfs vegna reksturs þess og enn fremur auk þessarar rúmlega tveggja millj. kr. fjárveitingar, sem ég gat um áðan til hinna ýmsu æskulýðssamtaka, 3.5 millj. kr. til ýmissar starfsemi, sem Æskulýðsráð ætlaði að beita sér fyrir samkv. þessari lagasetningu. Fjárlagafrv. gerði ekki ráð fyrir þessum 3.5 millj. kr. Ég spurðist fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort hann hygðist beita sér fyrir því, að lausn fengist á þessu máli og í gegnum fjvn. gætu komið fram till. um hækkun, sem kæmi til móts við beiðni Æskulýðsráðs ríkisins. Mér hafði verið tjáð og ég upplýst hér, að svo mikil óánægja væri í Æskulýðsráði, að það stæði jafnvel fyrir dyrum hjá þeim að segja beinlínis af sér, þar sem algerlega væri brostin forsendan fyrir starfsemi þessa ráðs og lögin væru einskis virt með því að taka ekki tillit til þess frekar en það væri ekki til.

Hæstv. menntmrh. svaraði mér til, að hann gerði sér ljósa nauðsyn Æskulýðsráðs og þessarar starfsemi, sem þarna ætti að fara fram, og hafði uppi góð orð um það, að þessar fjárbeiðnir yrðu teknar til vinsamlegrar athugunar. Nú hefur komið fram till. frá meiri hl. fjvn., reyndar allri fjvn., sem gerir ráð fyrir því, að í stað 100 þús. kr. fjárveitingar sé gert ráð fyrir 700 þús. kr. Af þessu má þó sjá, að það er langt frá því, að þetta fé dugi nokkurn veginn til þess, að Æskulýðsráð geti nokkuð starfað í samræmi við þau ákvæði, er um það voru sett, og nær engan veginn þeirri beiðni, sem þeir settu fram í sínum áætlunum. Með hliðsjón af þeim áhuga, sem þáv. stjórnarandstæðingar, núv. stjórnarsinnar, sýndu, þá leyfi ég mér að bera fram nú till. til hækkunar upp í 3.8 millj., sem er í samræmi við áætlun og beiðni Æskulýðsráðs ríkisins. Ég biðst afsökunar á því, hversu seint þessi brtt. mín er lögð fram, en það stafar af því, að í þessum umr., sem ég hef getið um hér fyrr á þinginu, kom fram mikill áhugi hjá hv. 5. þm. Vesturl., Jónasi Árnasyni, á því að styðja þetta mál. og ég gerði mér von um að geta fengið hann sem meðflm. að þessari till. og skal játa, að ég gerði mér þá frekar vonir um, að það mál næði fram að ganga á þessu þingi, ef það væri undirritað af stjórnarsinna, en þar sem hv. 5. þm. Vesturl. er ekki viðlátinn og mér er ljóst, að erfiðara er við það að eiga að bera fram till. við 3. umr., þá vildi ég ekki láta hjá líða, að þessi till. kæmi hér fram, og ég heiti nú á stuðning allra þm., sem á annað borð hafa skilning á frjálsri æskulýðsstarfsemi í þessu landi.

Hin till. mín fjallar um Umferðarráð, og er þar gerð till. um, að fjárveiting til Umferðarráðs hækki úr 2 millj. í 5.8 millj. Ég hef, bæði vegna starfa minna hjá Reykjavíkurborg og eins sem áhugamaður um þessi mál. fylgzt nokkuð með þróun mála á þessum vettvangi, umferðarmálum, og það þarf ekki mikla íhygli til þess að komast að þeirri niðurstöðu, að hér er að skapast mikið öngþveiti í umferðarmálum, og það er mikil nauðsyn á því að grípa mjög vasklega til varna. Í nýútkominni skýrslu frá Umferðarráði kemur fram, að slysum hefur fjölgað á árinu 1969–1970 um rúmlega 16% í umferðinni og dauðaslysum í umferð hefur fjölgað um rúmlega 22%. Þetta er mjög ískyggileg þróun, sem ég held, að öllum sé ljós, og ég vitna m.a. til þess, að hæstv. forsrh. hefur komið fram í sjónvarpsþætti og lýst sig mjög fúsan til þess að gripa til einhverra aðgerða til þess að ráða bót á þessum málum og hann sem jafnframt er dómsmrh. hefur þessi mál á sinni könnu, þannig að við því var að búast, að fram kæmi hækkun til þessara mála, hækkun, sem væri í einhverju samræmi við þá beiðni, sem frá Umferðarráði hefur komið. Ég minnist þess líka, að eftir hæstv. dómsmrh. hafa verið höfð ummæli á þann veg, — og þau ummæli eru frá flokksfundum framsóknarmanna, — mjög ákveðin ummæli um það, að þessi mál yrðu gripin föstum tökum og til Umferðarráðs yrði varið hærri upphæðum, þannig að þeir embættismenn og þau ráð, sem með þessi mál fara, gætu tekið umferðarmálin fastari tökum en áður. Ég skal fyllilega viðurkenna, að ég varð mjög óánægður með þá fjárveitingu, sem gert var ráð fyrir og samþ. var á síðustu fjárlögum. Þar var um að ræða 900 þús..kr. fjárveitingu og hún var allsendis ófullnægjandi. Það var öllum ljóst og held ég ekki sízt þeim, sem með þessi mál fóru þá fyrir hönd ríkisstj., en mér skilst, að skýring hafi verið gefin á því á sínum tíma, að þessi mál væru í endurskoðun og það þyrfti að átta sig á því, hvernig með þau skyldi fara, og þess vegna var þarna um að ræða visst millibilsástand. Nú er bæði það, að öll yfirstjórn umferðarmála er komin í miklu fastari skorður, og eins hitt, að þessi mál horfa sífellt verr í þessu þjóðfélagi okkar, og eins og okkur öllum er kunnugt í slíku þjóðfélagi og í slíku neyzluþjóðfélagi, þegar bílar og umferð margfaldast frá ári til árs, þá verður að gera eitthvert verulegt átak í þessum málum. Ég held, að það sé þess vegna ekki farið fram á mikið, þó að nú sé gerð till. um það, að orðið sé við beiðni Umferðarráðs um hækkun á þessum lið, þannig að ekki sé hægt að saka þá menn um það, sem með þessi mál fara, að þeir geri ekki nógu mikið og ekki sé gert neitt til þess að forða slysum og jafnvel dauðaslysum.

Við skulum nú veita fé til þessara mála og segja: nú verðið þið að standa ykkur. Og ég vildi, til þess að tefja þennan fund ekki mjög lengi, láta það verða mín síðustu orð að heita á alla þm. að fylgja þessu mjög svo nauðsynlega máli.