01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í D-deild Alþingistíðinda. (4860)

148. mál, sala á kartöflum

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til landbrh. um sölu á kartöflum. Fsp. hljóðar svo:

Hvaða ráðstafanir hefur ríkisstj. gert til þess að koma í verð allri kartöfluuppskerunni frá s.l. ári?

Það er talið, að uppskeran frá s.l. ári nemi 150-155 þús. tunnum. Áætlað er að selja til neyzlu innanlands 110–115 þús. tunnur. Það er reiknað með, að í útsæði fari ca. 15 þús. tunnur. Það, sem af gengur þá af framleiðslunni og ekki virðist vera markaður fyrir, eru 20–25 þús. tunnur.

Verð á kartöflum til bænda er nú 15.73 kr. I. flokkur og 13.11 kr. II. flokkur. Niðurgreiðsla á hvert kg af kartöflum er 7 kr. Augljóst er, að það er mikið verðmæti, sem hér er um að ræða, hvort sem það eru 20 eða 25 þús. tunnur, sem ekki er markaður fyrir innanlands. Og í tilefni af því leyfi ég mér að spyrja: Hvaða ráðstafanir hefur ríkisstj. gert til þess að koma allri uppskerunni í verð frá s.l. ári? Miðað við það, að hvert kg sé reiknað á 15 kr., er hér um að ræða verðmæti upp á 30 millj., séu það 20 þús. tunnur, en 37.5 millj., ef um er að ræða 25 þús. tunnur. Ég vænti þess, að hæstv. landbrh. geti gefið upplýsingar um, hvað ríkisstj. hyggst fyrir til þess að bjarga þessum verðmætum.