07.02.1972
Neðri deild: 38. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í D-deild Alþingistíðinda. (4868)

125. mál, greiðsla vinnulauna eftir gjaldþrot

Fyrirspyrjandi (Jón Snorri Þorleifsson):

Herra forseti. Eitt af fyrirheitunum í málefnasamningi ríkisstj. er á þá leið að tryggja með löggjöf, að vinnulaun fáist greidd þrátt fyrir gjaldþrot atvinnurekenda. Á s.l. vetri flutti núv. iðnrh„ Magnús Kjartansson, hér á Alþ. frv. til l. um kauptryggingarsjóð, er hafa skyldi það hlutverk að tryggja launþegum skaðlausa greiðslu vinnulauna, enda þótt launagreiðandi verði ógjaldbær eða bú hans tekið til gjaldþrotaskiptameðferðar. Og í haust fluttu þm. Eggert G. Þorsteinsson og Jón Árm. Héðinsson frv. um sama efni og fyrrgreint frv. Magnúsar Kjartanssonar og yfirlýsing ríkisstj. fjallar um.

Fsp. mín á þskj. 168 til hæstv. félmrh. er um, hvað líði undirbúningi að framkvæmd áðurnefnds fyrirheits í málefnasamningi ríkisstj. Að slíkt fyrirheit var tekið upp í málefnasamninginn og áhugi okkar launþega á framgangi þess á að sjálfsögðu sínar orsakir. Fái ég lán í banka, er mér að sjálfsögðu gert að skyldu að leggja fram tryggingu fyrir skilvísri greiðslu lánsins. Kaupi ég t.d. gólfteppi í verzlun, ber mér að setja tryggingu eða fullgilda ábyrgð fyrir greiðslu afborgana, ef ekki er um staðgreiðslu að ræða. Verktaki er skyldaður til að setja gilda tryggingu fyrir því, að hann standi við verksamning að öllu leyti. Hann ræður til sín verkafólk, sem venjulega á að fá fyrstu launagreiðslu eftir hálfs mánaðar starf. Hann þarf enga tryggingu að setja fyrir því, að hann greiði þau vinnulaun. Hvort verkamaðurinn fær laun sín skilvíslega greidd eða ekki, verður bara að koma í ljós á sínum tíma. Og til þess eru því miður ófá dæmi, að verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði hefur hvað eftir annað orðið fyrir þungum búsifjum í formi vangoldinna og svikinna vinnulauna af hálfu atvinnurekenda. Gæti ég í þessu sambandi nefnt mörg dæmi, en skal láta nægja að skýra frá því, að eitt verkalýðsfélag, Trésmiðafélag Reykjavíkur, er sem stendur með í gangi tvö slík mál, annað, þar sem félagar þess eiga 108 þús. 650 kr. útistandandi í vangoldnum vinnulaunum, og hitt, þar sem 16 trésmiðir og iðnnemar eiga útistandandi 433 þús. kr. í vinnulaunum, auk þess sem um er að ræða tugþúsunda skuld á afteknum félagsgjöldum, lífeyrisiðgjöldum og öðrum framlögum til sjóða félagsins. Og að sjálfsögðu skulda svo þessir sömu atvinnurekendur einnig stórar fjárhæðir til félagsmanna annarra verkalýðsfélaga, sem hjá þeim unnu.

Í báðum þessum tilfellum er um að ræða atvinnurekendur, sem um tíma voru með mikil umsvif, en eru svo gersamlega á hausnum nú, að þeir eiga minna en ekki neitt til greiðslu upp í kröfur. Hér er því um að ræða hreint tap á vinnulaunum. Nú kunna menn að undrast, að svo stórar upphæðir í vangreiddum vinnulaunum skuli safnast fyrir án aðgerða verkafólksins eða verkalýðsfélagsins, og vissulega er ekki óeðlilegt, að slíkar spurningar vakni. En sannleikurinn er sá, að verkafólk er almennt ótrúlega seinþreytt til vandræða við þá atvinnurekendur, sem það vinnur hjá og umber þeim oft út á gefin loforð vinnulaunaskuldir vikum saman, svo að það sjálft kemst í alger þrot með eigin skuldbindingar og jafnvel framfærslu. Þannig eru því miður mörg þessara mála á vegi stödd, þegar verkalýðsfélögin fá loks tækifæri til afskipta. Spurningin stendur því oftast ekki um, hvernig fljótast sé hægt að innheimta launin, heldur hitt, hvort möguleiki sé á að ná einhverju eða alls engu.

Sú krafa, að verkafólk fái verklaun sín skilvíslega greidd samkv. samningum, hefur hingað til ekki staðizt að öllu leyti í framkvæmd, því miður. Að tryggja með löggjöf, að svo verði í framtiðinni, á ég varla von á, að ágreiningur sé um hér á hv. Alþ. Ég vænti þess því, að svör hæstv. félmrh. verði á þá lund, að stjfrv., er byggt sé á fyrrgreindu fyrirheiti í stjórnarsáttmálanum, sé að vænta innan skamms tíma og það hljóti afgreiðslu á yfirstandandi þingi.