07.02.1972
Neðri deild: 38. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í D-deild Alþingistíðinda. (4869)

125. mál, greiðsla vinnulauna eftir gjaldþrot

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. félmrh.- mun ég flytja hér svar hans við fsp. hv. 8. þm. Reykv., sem fyrir liggur á þskj. 168. Fsp. er á þessa leið:

„Hvað líður undirbúningi á framkvæmd þess fyrirheits í málefnasamningi ríkisstj. að tryggja með löggjöf, að vinnulaun fáist greidd þrátt fyrir gjaldþrot atvinnurekenda?“

Svar félmrn. er á þessa leið: Þeirri fsp. er beint á Alþ. til félmrh., hvað líði undirbúningi á framkvæmd þess fyrirheits í málefnasamningi ríkisstj. að tryggja með löggjöf, að vinnulaun fáist greidd þrátt fyrir gjaldþrot atvinnurekenda. Rn. er kunnugt um, að þetta mál er nú mjög á döfinni á Norðurlöndum. Danski vinnumálaráðherrann hefur lagt fram frv. til l. um þetta efni, og hefur félmrn. fengið það í hendur. Í Noregi hefur verið samið uppkast að frv. um sama efni, en í Svíþjóð munu vera í gildi lög um slíka tryggingu launagreiðslna. Félmrn. hefur nú nýskeð fengið sænsku lögin og norska frv. sent, en þessi gögn taldi rn. æskilegt að hafa til hliðsjónar við samningu væntanlegs lagafrv. Þessu nauðsynlega undirbúningsstarfi er þannig lokið, og er samning frv. um þetta vandasama mál næsta skrefið.