14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

1. mál, fjárlög 1972

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins, áður en ég kem að því máli, sem ég ætlaði að ræða hér, leiðrétta orð hv. 5. landsk. þm., Stefáns Gunnlaugssonar, um það, að Æskulýðsráð eða Æskulýðssambandið eða einhverjir aðrir slíkir hefðu átt upptök að því, sem heitir Landvernd í dag. Staðreyndin er sú, sem auðvitað gefst betra tækifæri til á síðara stigi að geta um, að það var aðeins 50 manna hópur héðan úr Reykjavík, sem átti upptökin að þessari starfsemi, einn lítill klúbbur úr Lions-hreyfingunni í Reykjavík, sem byrjaði þessa starfsemi, sem hefur borið þann glæsilega ávöxt, sem raun ber vitni um.

Það er eftirtektarvert, bæði hjá þessum hv. þm. og þeim síðasta, sem hér talaði, að þeir fordæma þann hátt, sem hafður er á í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Annar talar um, að það sé skortur á alvöru. Síðasti hv. ræðumaður talaði um kostulegar umr. Þetta er í sjálfu sér mjög skiljanlegt, vegna þess að þótt við, sem höfum átt sæti á þingi um nokkurt skeið, þekkjum til þess, að þingfundir geti verið skemmtilegir, þá man ég a.m.k. ekki eftir því, að annar eins grínfundur og þessi hafi verið haldinn. Það má vel vera, að hæstv. forsrh. telji það lausn allra mála að lesa málefnasamning ríkisstj. frá morgni til kvölds aftur á bak og áfram, á milli þess sem við förum í fjósið. Ég held samt sem áður, að þótt hv. þm. lesi þennan málefnasamning, þá verði sama útkoman eins og úr kveri Maós, að þótt við lesum Ólakver kvölds og morgna, fáum við ekki meira út úr því heldur en þar stendur. Og auðvitað er það hvorki ályktun eða vilji Alþ., sem í þeim samningi stendur, nema siður sé. A.m.k. hef ég, þótt ég hafi lesið þann málefnasamning, hvergi séð, hvernig eigi að skipta því, sem ekki er til, eða skipta því, sem enginn veit hvað er, og það held ég, að við séum búnir að vera að gera hér á þessum fundi í dag og nú á þessum nýbyrjaða degi.

Ég tel mig ekki, eins og sumir þm. hafa gert hér, geta gert till. um hækkanir á þessum fjárlögum og mun áskilja mér allan rétt til þess að gera það við 3. umr., ef ég og aðrir þm. fá að sjá, hvað liggi til grundvallar þessum fjárlögum í ár. Og ég hef heitið þeim því, sem í kringum mig hafa setið í kvöld, að vera ekki fjölorður, en vegna þeirrar brtt., sem ég hef flutt á þskj. 199, þá vil ég benda á það, að ég flyt ekki neina till. um hækkun í krónutölu. Hins vegar legg ég til, að breytt verði um orðalag á till., sem þrír af hv. þm. Alþfl. hafa flutt á þskj. 196, 5. lið. Þeir leggja þar til, að við 4. gr. með undirnúmerum orðist liðurinn nr. 21 svo: Elliheimili, byggingarstyrkir 10 millj. Nú vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að ég tel einmitt, og ég verð þá leiðréttur, ef rangt er, að þessi liður falli undir það, sem heitir rekstrarstyrkir til elliheimila. Ég er hins vegar mjög fylgjandi þeirri hugsun, sem kemur fram í þessari till. um byggingarstyrki til elliheimila. En ég vil benda a.m.k. tveimur af þessum hv. þm. á það, að Alþfl.-þm. fluttu á sínum tíma till. um velferðarstofnun aldraðra, sem að vísu var ekki samþ. hér á Alþ., en var þó samþykkt sem liður í því frv. eða þeim lögum, sem samþ. voru, lögum um almannatryggingarnar, en þar er einmitt getið um og ákveðið að setja á stofn velferðarnefnd aldraðra. Ég tel að sjálfsögðu skylt og rétt, ef eitthvert slíkt fé fæst til þessara brýnu þarfa, að það sé einmitt slík nefnd, sem hafi með úthlutun þess að gera. Ég legg til. að þetta fari til byggingarsjóðs aldraðra, sem er eini sjóðurinn hér á landi, sem hefur fé til umráða til þess að byggja yfir aldrað fólk. Ég sé enga ástæðu til þess að vera að koma með eina silkihúfuna eftir aðra. Ég sé enga ástæðu til þess, þegar þessi sjóður er fyrir hendi, sem ég tel sjálfsagt, að verði áfram, eins og nú er, undir stjórn Tryggingastofnunar ríkisins og þá væntanlegrar velferðarnefndar aldraðra, að það sé þá verið að láta einhverja aðra aðila uppi í rn. hafa líka með slíka úthlutun að gera. Það verður að reyna að samhæfa og samræma það átak, sem hæði Alþ. og aðrir þegnar þjóðfélagsins gera í þessu mikla vandamáli, og því flyt ég þessa till., en áskil mér samt allan rétt til þess á seinna stigi að fylgja till. eða flytja sjálfur till. um, að þessi upphæð verði hækkuð.