07.02.1972
Neðri deild: 38. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í D-deild Alþingistíðinda. (4870)

125. mál, greiðsla vinnulauna eftir gjaldþrot

Fyrirspyrjandi(Jón Snorri Þorleifsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í svari hæstv. menntmrh., er að vænta frv. um þetta efni nú alveg á næstunni, og það kom einnig fram hjá honum, að aflað hefði verið upplýsinga um þetta frá Norðurlöndunum, og var það kunnugt, að einmitt á Norðurlöndunum hefur verið farin sú leið, sem hér er um að ræða, að tryggja skilvísa greiðslu vinnulauna, þrátt fyrir að atvinnurekandi standi ekki við greiðslu þeirra. Er það kannske og vafalaust fordæmi, sem við getum notfært okkur við samningu þessa frv., enda þótt kannske sé ekki að öllu leyti hægt að fara nákvæmlega sömu leið og þeir á Norðurlöndunum. En ég vildi aðeins þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans, og ég fagna því, að frv. skuli vera á næsta leiti.