08.02.1972
Sameinað þing: 35. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í D-deild Alþingistíðinda. (4881)

88. mál, augnlækningar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er engin augndeild starfandi við kennslusjúkrahúsin í landinu, Landsspítalann eða Borgarspítalann. Og í sannleika má segja það, að í raun og veru ríkir algert neyðarástand í þessum málum, svo slæmt, að félagsskapur, Lionsklúbbarnir í landinu, hafa nú ákveðið að reyna að bæta þarna um og hefja fjáröflun til styrktar augnlækningum. Ferðir augnlækna út um landið hafa sannarlega gert mikið gagn. Þó er það sannast mála, að þegar miðað er við nútíma læknisþjónustu, þá hafa þessir menn enga aðstöðu til þess að gegna fullnægjandi þjónustu við það fólk, sem þeir finna. Rannsóknir eru mikils virði. Þeir hafa venjulega ekki aðstöðu til að gera þær eins fullkomnar og vera skyldi, og enda þótt þeir finni fólkið, þá er biðtíminn svo langur á þeim tveimur stöðum, sem um er að ræða í landinu, Reykjavík og Akureyri, að oft hlýzt illt af. Hér í landinu er um 2–3% af fólkinu rangeygt. Flest af þessu hefði mátt laga, ef hægt hefði verið að gera við því í tíma. Og enn fremur höfum við vegna okkar slæmu aðstöðu ekki getað tekið börn til augnrannsóknar á þeim aldri, þegar einna mest er þörfin fyrir það, en það er við fjögurra ára aldurinn, áður en þau fara að ganga í skóla. Von er til, að úr þessu rætist, en sannleikurinn er sá, að óvíða hafa kannske okkar heilbrigðismál verið í verra ástandi en hvað þetta snertir, einkum það, að ekki skuli hafa verið til nein deild við Landsspítalann, sem þýðir að sjálfsögðu það, að læknanemarnir hafa ekki fengið þá kennslu og þjálfun í greiningu og meðferð augnsjúkdóma, sem nauðsynleg hefði verið. Við höfum, eins og allir vita, óvenjulega háa hundraðstölu af glákusjúklingum hér í landi. Þarna hafa ferðalögin hjálpað allmikið til að finna þessa sjúklinga, en oft hefur staðið á því, að þeir kæmust til lækninga. Og úr þessu verður sannarlega að bæta. Enginn vafi er á því, að heilsuverndarstöðvarnar geta, þegar þær rísa, bætt hér verulega um. Þar ætti að vera hægt að koma upp aðstöðu, sem væri fullnægjandi til þess að greina og gera léttar augnaðgerðir. Enn fremur er það svo, að rannsóknir á fólki, sem komið er yfir fertugt, eru mikil nauðsyn hér í landi vegna glákuhættu. Allt þetta mundi verða auðvelt, ef heilsuverndarstöðvarnar væru risnar af grunni, en eins og málin eru í dag, er þetta efni, sem sannarlega þarf að bæta, og þar til úr þessu verður bætt með aukinni aðstöðu á þessum tveim stöðum, Reykjavík og Akureyri, þá held ég, að eingöngu bætt aðstaða héraðslækna og heilsuverndarstöðva geti orðið nokkur úrlausn.