08.02.1972
Sameinað þing: 35. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í D-deild Alþingistíðinda. (4890)

155. mál, fjármagn til Landnáms ríkisins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. þeirri, sem hv. þm. Pálmi Jónsson hefur borið hér fram, 5. þm. Norðurl. v., á þskj. 292 um það, hvort notuð verður heimild í 76. gr. landnámslaganna eða stofnlánadeildarlaganna frá 16. apríl s.l., vil ég svara því, að það er gert ráð fyrir, að heimildin sé notuð. Eins og fram kom í ræðu hans hér áðan, gerði landnámsstjórn ályktun um þetta mál, og í des. s.l. ræddi ég við landnámsstjóra og óskaði eftir því að fá grg. frá hans hendi um það, hvað það mundi kosta mikið að nota þessa heimild. Í þeirri grg. kom fram, að hér gæti verið um 20 millj. kr. útgjöld að ræða, ef áætlun sú, sem hann gerði þar, fengi staðizt. Nú nýverið hef ég svo haft samband við hann út af þeirri athugun, sem gerð hefur verið síðan, hvað og hvort þessi áætlun muni standast, og sýnist honum, að það fari nálægt því, að svo muni vera. Hins vegar telur hann, að sumt, t.d. styrkur til íbúðarhúsabygginga á árinu 1972, geti orðið eitthvað lægri en þar sé gert ráð fyrir, svo að þarna geti orðið um tilfærslu að ræða á milli ára. Það er samkomulag á milli landbrh. og landnámsstjóra, að Landnámið taki að sér að sjá um framkvæmd á þessu máli og byrjað verði á því að greiða styrk vegna íbúðarhúsabygginga og verði það gert seint í þessum eða næsta mánuði. Enn fremur verði notuð heimildin til þess að greiða þær fjárhæðir, sem hér er ætlazt til, og verði það tekið til sérstakrar meðferðar síðar á árinu, hvernig því verði mætt, sem landnámið kann að skorta þar á til þess að geta innt þetta af hendi.

Út af því, sem hv. þm. sagði, — annars var nú ræða hans prúðmennskan sjálf, — þá vildi ég nú aðeins bæta því við, að landnámslögin voru ekkert sérstök um það né lög þau, sem voru afgreidd í fyrra, að þeim fylgdi ekki fjárveiting, því að yfirleitt var lagasetning sú, sem gerð var hér á síðasta Alþ., með þeim hætti, að greiðslurnar áttu að koma á næsta ári, og er þetta eitt af því. Ástæðan til þess, að það var ekki tekin hærri fjárhæð til Landnámsins á fjárlögin 1972, var m.a. sú, að þar átti sér stað veruleg hækkun, og var því talið réttara að reyna að dreifa þessu á lengri tíma. En að lokum þetta: Heimildin verður notuð og verður framkvæmd í samráði við Landnám ríkisins.