08.02.1972
Sameinað þing: 35. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í D-deild Alþingistíðinda. (4892)

155. mál, fjármagn til Landnáms ríkisins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki láta ummæli hv. 5. þm. Norðurl. v. verða til þess að fara að endurtaka hér fjárlagaumr. Hitt þykir mér miður, að sá ágæti þm., sem ég hef hinar mestu mætur á, skuli ekki gæta sín betur en það í meðferð talna að fara að setja upp hækkun fjárlaga eins og hann gerði, og það er gott að heyra það, að mönnum þykir þar of lítið að gert, þó að það hafi hins vegar fallið í hlut núv. ríkisstj. að verða að sjá fyrir fjármagni að verulegu leyti til þeirra hluta, sem áður voru ákvarðaðir.

Ég vil hins vegar taka það fram, að eins og ég áður sagði verður þessi heimild notuð og verður séð fyrir því, að hægt verði að koma henni í framkvæmd, og það verðar byrjað að framkvæma það nú í næsta mánuði með íbúðarhúsin og hitt í framhaldi af því, eins og skýrslur berast þar um. Hins vegar vil ég segja það, að ég lét það koma fram hér á Alþ. í fyrra, þegar þessi lög voru til umr., að ég teldi, að betur færi á því, að þarna yrði skipulagsbreyting gerð og yrði betri nýting á því fjármagni, sem færi til landbúnaðarins eftir öðrum leiðum, en þarna er. Ég hef ekki skipt um skoðun á því, en um leið minni ég á það, að verulega voru auknar fjárveitingar til landbúnaðar á öðrum sviðum og einnig í Landnáminu, þar sem fjárveiting var nærri því tvöfölduð samkv. þessum nýju lögum. En ég minni á það, að í landbúnaði sem öðru skiptir mestu máli, að nýting sé sem bezt á því fjármagni, sem frá ríkinu kemur, og ég tel, að þarna megi betur fara.