08.02.1972
Sameinað þing: 35. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í D-deild Alþingistíðinda. (4894)

155. mál, fjármagn til Landnáms ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú gert mér það ljóst, að þetta væri fsp.-tími, og ætlaði mér að láta þessar umr. alveg afskiptalausar, enda þótt hæstv. fjmrh. teldi það nú eiginlega svona dálítið óviðeigandi, að það skyldi ekki fylgja fjárveiting lögunum að öllu leyti, sem voru samþ. 16. apríl s.l., en það er nú svo, þegar lög eru samþ. löngu eftir að fjárlög hafa verið afgreidd, að þá getur ekki fylgt þeim fjárveiting. Og segja má, að fjárveiting til Landnáms ríkisins var hækkuð á núv. fjárlögum, eins og ákveðið var, að gert skyldi með þessum nýju lögum, en heimildarákvæðið var ekki tekið til greina. Nú er það svo, að heimildir hafa, held ég, alltaf verið notaðar í lögum, sem snert hafa landbúnaðinn og flesta aðra atvinnuvegi, og þess vegna var til þess ætlazt, þegar þessi lög voru afgreidd í aprílmánuði s.l., að ég ætla mótatkvæðalaust, að þetta yrði nú gert.

Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson minntist á, að það hefði verið lækkuð fjárveiting til Landnámsins í tvö ár. Þetta er rétt. Það var lækkað um 7.5 millj. á árunum 1968 og 1969, vegna þess að gömlu verkefnin voru búin, og líka vegna þess, eins og hv. þm. man, að þá var heldur hart í ári í landinu. Og þá var nú spyrnt við fótum almennt séð og þess gætt að láta fjárlög ekki hækka úr hófi fram. En þess skal geta, að þessi lækkun var afnumin og hækkun veitt á fjárlögum fyrir árið 1971, til þess að Landnámið gæti tekið upp hin nýju verkefni, sem var m.a. það að koma upp kögglaverksmiðjum í landinu, en þær eru nú þegar tvær orðnar, og nú er gert ráð fyrir, að því verði haldið áfram með auknu fjármagni, sem Landnámið hefur fengið. En hv. þm., sem talaði hér síðast, talaði nú ekki um niðurskurð til landbúnaðarins á öðrum sviðum, enda veit ég það, að hann er sanngjarn og hann gerir sér grein fyrir því, að fjárveitingar til landbúnaðarins hækkuðu mjög mikið í tíð fyrrv. ríkisstj. og miklu meira en dýrtíðin. Það hefur verið viðurkennt af mörgum hv. þm., sem voru í stjórnarandstöðu, að landbúnaðurinn fékk fjárveitingar til þess að hann mætti eflast og framkvæmdir aukast. Og það er þess vegna, að framkvæmdir í landbúnaði hafa aldrei verið meiri en á s.l. áratug. Þetta veit ég, að hv. þm., sem talaði hér síðast, viðurkennir í hjarta sínu og hefur reyndar viðurkennt opinberlega stundum.