08.02.1972
Sameinað þing: 35. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í D-deild Alþingistíðinda. (4898)

918. mál, binding innlánsfjár í Seðlabankanum

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Árið 1960 var tekinn upp sá háttur að binda tiltekinn hluta af sparifjáraukningu lánastofnana í landinu í Seðlabankanum, og hefur svo verið gert jafnan síðan. Mun þessi bindingarupphæð nema nú eða nam um s.l. áramót um 4 milljörðum kr. Þessi ákvörðun var tekin sem þáttur í því að stuðla að efnahagslegu jafnvægi í þjóðfélaginu, og hefur æ síðan verið á það bent, að rökin fyrir því að viðhalda þessari bindingu innlánsfjár væru tvenn, annars vegar að stuðla að því að varðveita og mynda gjaldeyrisvarasjóð í landinu og hins vegar að gera Seðlabankanum kleift, án þess að til verðbólgumyndandi áhrifa kæmi, að veita afurðalán til framleiðsluatvinnuveganna. Því er ekki að neita, að á fátt hefur verið jafnmikið deilt af efnahagsráðstöfunum fyrrv. ríkisstj. og einmitt þessa ákvörðun um bindingu, sem oft hefur verið kölluð frysting innlánsfjár í Seðlabankanum. Það hlaut því að vera með nokkurri eftirvæntingu, sem menn biðu þess, að hæstv. ríkisstj. markaði stefnu sína varðandi þetta mál. En svo undarlega ber til, að ég hygg, að það sé rétt, að í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. sé hvergi vikið að þessu máli. Nú standa því þannig sakir, að þessi binding hefur haldið áfram undanfarna mánuði með sama hætti og áður var, og er, eins og ég áðan gat um, um 4 milljarðar kr., en þeir tveir liðir, sem ætlunin var, að hér kæmu á móti sem fyrirgreiðsla af hálfu Seðlabankans, eru annars vegar afurðalánin, sem námu um síðustu áramót að ég hygg nálægt tveimur milljörðum, og varðveizla og trygging gjaldeyrisvarasjóðsins, sem nam um síðustu áramót um 4.7 milljörðum.

Þar sem, eins og ég áðan sagði, ekki hefur verið vikið einu orði í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. né af þeim ráðh., sem með þessi mál fer, eða einstökum ráðh. að þessu mikilvæga máli og hvað ríkisstj. hygðist fyrir í þessu efni, sem mjög var gagnrýnt hjá fyrr. ríkisstj., þá hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp., sem hér um ræðir, til hæstv. viðskrh., annars vegar, hvaða fyrirætlanir ríkisstj. hafi í þessu efni og hins vegar, hver séu rökin fyrir því, að sú stefnumörkun hefur verið tekin eða verður tekin eftir atvikum, ef hér á að breyta til. Þessi liður fsp. er fram borinn af þeirri ástæðu, að ekki er enn að finna í stefnumörkun ríkisstj. eða stefnuyfirlýsingu neina ákveðna stefnumótun í þessu efni. Ég hygg, að marga fýsi að vita um, hver sé fyrirætlunin að þessu leyti, og því eru þessar fsp. fram bornar.