08.02.1972
Sameinað þing: 35. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í D-deild Alþingistíðinda. (4900)

918. mál, binding innlánsfjár í Seðlabankanum

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þessi svör, sem ég gat ekki betur skilið en væru efnislega á þann veg, að ríkisstj. hefði ekki enn tekið neina ákvörðun um fastmótaða stefnu varðandi þetta mál, og a.m.k. hefðu engar ráðagerðir verið uppi um það að breyta þessum bindingarreglum. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að það hefur verið óskað eftir því við Seðlabankann, að hækkuð yrðu afurðalán til útflutningsframleiðslunnar, og þar einmitt vitnaði hann til annars þess atriðis, sem ég gat um, að hefðu á sínum tíma verið rök fyrr. ríkisstj. fyrir bindingunni, að auðvelda bönkunum að veita lán til aðstoðar framleiðsluatvinnuvegunum. Ég hef að sjálfsögðu ekkert við þetta að athuga og í rauninni ekkert við svör hæstv. ráðh. að athuga, en menn sjá þá glöggt, hvernig málin standa.