17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í D-deild Alþingistíðinda. (4907)

916. mál, Tækniskóli Íslands

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Við hv. 5. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, höfum leyft okkur að flytja fsp. í tveimur liðum til hæstv. menntmrh. varðandi Tækniskóla Íslands, en fsp. hljóðar þannig:

1. Má vænta þess, að Tækniskóli Íslands, sem nú starfar í Reykjavík, verði fluttur til Akureyrar?

2. Ef svo er ekki, hvað mælir þá gegn því?

Þessar spurningar eru í sjálfu sér augljósar og þurfa ekki mikilla skýringa við. Þó finnst mér rétt að fara um þær örfáum orðum, til þess að ekki verði um það villzt, hvað þeim býr að baki. Í því sambandi ber að hafa í huga tvær staðreyndir. 1. Tækniskóli Íslands, sem starfað hefur í Reykjavík síðan 1963, hefur lengst af búið við ófullkomið húsnæði og jafnvel verið á hrakhólum úti um hvippinn og hvappinn hér í borginni með starfsemi sína. Ef skólinn á að geta starfað með eðlilegum hætti, verður að reisa hús yfir starfsemi hans. 2. Uppi er hreyfing norðanlands um það að flytja Tækniskóla Íslands til Akureyrar. Ber þá sérstaklega að geta þess, að Fjórðungsþing Norðlendinga hefur ályktað í þá átt, oftar en einu sinni raunar, og skorað á ríkisvaldið að flytja Tækniskólann norður. Og hið sama gildir um bæjarstjórn Akureyrar. Spurningar þær, sem hér liggja fyrir, verður að skoða í þessu ljósi.

Það er hægt að færa fram mikilvæg rök fyrir því, að flytja skuli Tækniskóla Íslands til Akureyrar. Því miður hef ég ekki við þetta tækifæri möguleika á því að gera því máli ítarleg skil, en aðalatriðið í því sambandi er að minni hyggju nauðsynin á því að vinna skipulega og á allan færan hátt að því að dreifa ríkisstofnunum og þá ekki sízt mennta- og menningarstofnunum um landið í stað þess að þjappa öllu slíku saman á litlu svæði í Reykjavík, eins og stefnan hefur lengst af verið og því miður lítið lát virðist vera á. Persónulega er ég mjög andvígur þessari miðsóknarstefnu og tel, að hún hafi í rauninni gengið sér til húðar og henni verði að breyta. Ég hef oft hreyft þessu máli almennt á Alþ. þau ár, sem ég hef átt hér setu og m.a. bent á, að stefnubreytingu í þessu efni mætti marka með því að ákveða Tækniskóla Íslands stað á Akureyri. Nú má vera, að eitthvað mæli gegn því, að Tækniskólinn verði fluttur til Akureyrar, og er ég ekki ófús að hlýða á þau rök.

Því miður hefur það gerzt, síðan þessi fsp. var borin fram, að hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. frv. til l. um Tækniskóla Íslands. Ég skal ekki ræða frv. í heild sinni, en með framlagningu þess má segja, að búið sé að svara fsp. okkar hv. 5. þm. Norðurl. e. á þann hátt, að varla verður misskilið. Í 1. gr. frv. er sagt berum orðum, að skólinn skuli starfa í Reykjavík. Ég harma þessa ákvörðun og lýsi yfir andstöðu minni við hana. Það er mín skoðun, og ég vil, að hún komi skýrt fram nú þegar, að nota eigi tækifærið, sem nú býðst, til þess að flytja Tækniskólann til Akureyrar, enda yrði hann þar engin hornreka, heldur vel í sveit settur.