17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í D-deild Alþingistíðinda. (4908)

916. mál, Tækniskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fsp. frá hv. 3. þm. Norðurl. e. og 5. þm. Norðurl. e. hljóðar svo:

„1. Má vænta þess, að Tækniskóli Íslands, sem nú starfar í Reykjavík, verði fluttur til Akureyrar?

2. Ef svo er ekki, hvað mælir þá gegn því?“ Svar mitt við þessum fsp. er svo hljóðandi:

Í gildandi lögum um Tækniskóla Íslands nr. 25 frá 1963 er gert ráð fyrir, að skólinn starfi í Reykjavík, en hins vegar heimilt að starfrækja undirbúningsdeild við skólann bæði í Reykjavík og á Akureyri. Enn fremur segir í lögunum, að heimilt sé að starfrækja aðrar bekkjar- og skóladeildir Tækniskólans á Akureyri, enda sé að því stefnt, að þar rísi sjálfstæður tækniskóli. Undirbúningsdeild er nú starfandi í Reykjavík, á Akureyri og einnig á Ísafirði.

Svo sem kunnugt er, liggur nú fyrir Alþ. stjfrv. um Tækniskóla Íslands, sem ætlað er að koma í stað gildandi laga um skólann. Þetta lagafrv. gerir ráð fyrir því, að skólinn starfi í Reykjavík, en heimilt sé að starfrækja undirbúningsdeild á Akureyri, Ísafirði og öðrum þeim stöðum, þar sem slíkt þykir henta. Jafnframt er, eins og í gildandi lögum, tekið fram, að að því skuli stefnt, að á Akureyri rísi sjálfstæður tækniskóli. Eins og hér hefur verið rakið, er bæði í gildandi lögum og frv. því, er fyrir Alþ. liggur, mörkuð sú stefna, að í framtíðinni skuli rísa á Akureyri fullgildur tækniskóli. En hins vegar er gert ráð fyrir, að jafnframt starfi núverandi Tækniskóli í Reykjavík. Í fsp. er rætt um þann möguleika, að Tækniskóli Íslands í Reykjavík verði lagður niður og starfsemi hans flutt til Akureyrar. Um slíkt eru engar fyrirætlanir uppi. Skólinn í Reykjavík er enn í mótun og uppbyggingu, og eðlilegt virðist að gera hann færan um að gegna hlutverki sínu til fulls, áður en hafizt er handa um fleiri skóla, og þarf þó hvoru tveggja að hraða. Akureyri hefur mörg skilyrði til þess að vera góður vettvangur fyrir tækniskóla, m.a. vegna hins öfluga iðnaðar, sem þár er rekinn. Þeir, sem um málefni Tækniskólans hafa fjallað, hafa þó talið, að enn sem komið er sé auðveldara að afla skólanum nægilegs fjölda sérfræðikennara á Reykjavíkursvæðinu en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Sömuleiðis benda þeir á, að á Akureyri sé ekki enn völ ýmissa þeirra stofnana, einkum rannsóknastofnana, sem ýmsir tækniskólanemar þurfa að hafa aðgang að í verklegu námi. Svarið við fsp. verður því á þessa leið: Það er tvímælalaust æskilegt að hraða þeirri þróun, að fullgildur tækniskóli rísi á Akureyri, en ekki virðist heppilegt, að það gerist með þeim hætti, að skólinn í Reykjavík verði lagður niður, enda verða vonandi næg verkefni fyrir tvo slíka skóla á næstunni með vaxandi iðnvæðingu í þjóðfélaginu.