17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í D-deild Alþingistíðinda. (4909)

916. mál, Tækniskóli Íslands

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

. Herra forseti. Ég vil nú þakka hæstv. ráðh. fyrir svar hans. Hins vegar harma ég þá ákvörðun, sem tekin hefur verið og raunar mátti segja, að væri fram komin, eftir að frv. um Tækniskólann var lagt fram í Ed. Hæstv. ráðh. segir, að það séu engar fyrirætlanir uppi um flutning skólans. Hins vegar benti hæstv. ráðh. á það réttilega, að í gildandi lögum um Tækniskólann er heimild til þess að starfrækja undirbúningsdeild á Akureyri og það er einnig heimild til þess að stofna sérstakan tækniskóla á Akureyri.

Nú eru u.þ.b. 10 ár síðan þetta mál var til umr. hér á Alþ. og síðan lögin voru sett, og þá var samþ. brtt. hér í þinginu um þessa heimild, um stofnun sérstaks tækniskóla. Það eru senn liðin 10 ár síðan þetta gerðist, og þetta er býsna langur tími. Og ég sé ekki annað en að það geti liðið enn þá 10 ár, þangað til annar tækniskóli rís í landinu og þá trúlega á Akureyri. Mér finnst, að það sé nokkuð langur tími að bíða þess, að svo verði. Ég harma það þess vegna, að þessi ákvörðun hefur verið tekin. Ég álít, eins og ég segi, að það sé ákaflega ólíklegt, að það verði stofnaðir tveir tækniskólar hér á næstunni og það hefði verið mjög eðlilegt að grípa það tækifæri, sem nú gefst. Þegar þannig er að Tækniskólanum búið í Reykjavík, að það verður að byggja yfir hann, þá hefði verið eðlilegt að grípa tækifærið og reisa yfir hann hús á Akureyri og vinna yfirleitt þannig að undirbúningi skólastofnunar þar, að þar mætti fara fram fullkomin tæknikennsla.

Ég hef minnzt á það, að Fjórðungsþing Norðlendinga hefur haft þessi mál til meðferðar og rætt þetta ítarlega á fleiri en einu þingi sínu, og nú nýverið hefur bæjarstjórnin eða bæjarráðið á Akureyri ályktað í þessa átt, raunar ekki í fyrsta sinn, og þar kemur fram, í ályktun bæjarráðs Akureyrar, áskorun á ríkisstj. um það að endurskoða frv., sem nú liggur fyrir Ed. um tækniskóla, með tilliti til staðsetningar skólans. Og það segir einnig í þessari ályktun, sem ég vil benda á og gera að mínum orðum, að verði verk- og tæknimenntun á Íslandi endurskoðuð sem heild, eins og nál., sem út kom á fyrra ári, kann að benda til, þá fer bæjarráð eindregið fram á það við hæstv. ríkisstj., að Akureyri verði gerð að miðstöð tæknimenntunar á Íslandi. Bendir bæjarráð á fordæmi Norðmanna í þessu sambandi og telur þetta einhverja áhrifaríkustu aðgerð, sem völ er á til jafnvægis byggð í landinu. Mér þykir rétt að henda á þetta til að sýna fram á það, að hér er ekki um neina sérvizku úr mér að ræða eða hv. meðfyrirspyrjanda mínum eða öðrum, sem eru að ræða þetta hér í þinginu. Þetta er fullkomið alvörumál manna á Norðurlandi og eitt af því, sem norðlenzkir fyrirsvarsmenn benda á sem lið í því að byggja upp landsbyggðina. Þetta vildi ég undirstrika, en mun ekki ræða þetta frekar.