14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

1. mál, fjárlög 1972

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég beið nú eftir því, hvort hæstv. fjmrh. ætlaði ekki í lokin og áður en þessum umr. lýkur að gera nokkra grein fyrir atriðum, sem ég tel, að gegni mikilli furðu, að hv. þm. skuli ekki fá upplýsingar um, enda þótt það væri með einhverjum fyrirvörum við 2. umr. fjárlaga.

Ég hef ekki tekið þátt í þessum umr. um fjárlögin, en áður en fundur hófst hér í dag, þá varaði ég við afgreiðslu fjárlaga með þeim hætti, sem nú væri að stefnt. Umr. í dag hafa aukið sannfæringu mína um það, að þessi aðvörun var í fyllsta máta eðlileg og nauðsynlegt, að hún kæmi fram, hvernig svo sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér að bregðast við henni.

Ég sagði þá, að talað væri um það, að núna vantaði eins og sakir standa viðbótartekjuöflun, sem er allt að 2 milljörðum kr., eða 2 000 milljónir. Nú hafa hv. þm. fleiri en einn gert grein fyrir því, að þetta sé í raun og veru allt of lágt áætlað hjá mér. M.ö.o., ný tekjuöflun, sem þarf að koma fram, eins og hv. 7. þm. Reykv. var að enda mál sitt á, sem þarf að koma fram í nýjum tekjuöflunarlögum, sem lögð hafa verið fram, eða öðrum, sé um 3 700 millj. kr., en ekki allt að 2 000 millj. kr. Sú tekjuöflun getur auðvitað eitthvað minnkað, eins og hv. 1. þm. Sunnl. drap á, verði dregið úr gjöldum eins og niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum nú, en þær minnkandi niðurgreiðslur munu auðvitað hafa önnur áhrif á hækkandi verðlag í landinu, hækkandi launagreiðslur o.s.frv., nema aðrar ráðstafanir séu gerðar. Mér finnst alveg ástæðulaust, eins og hv. 7. þm. Reykv. gerði ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. þurfi að fá umhugsunartíma til 3. umr. fjárlaga um það, hvað það eru háar upphæðir, sem þurfa að felast í hinni nýju tekjuöflun. Það er enginn okkar að biðja um það, að þetta stemmi upp á tugi eða milljónir eða jafnvel upp á nokkrar millj. kr. eða tugi millj. kr., en að menn viti þó nokkurn veginn, hvernig það er. Þetta var þeim mun meiri nauðsyn, þar sem þrír hæstv. ráðh. komu í ríkisútvarpið í gærkvöld, í fyrrakvöld réttara sagt, til þess að gera grein fyrir tekjuöflunarfrv. sem hér hafa verið lögð fram, og almannatryggingafrv. Það eru þessir nýju siðir. Hæstv. ríkisstj. leggur fram frv. í þinginu, þessi frv. fá venjulega meðferð, það fara fram umr. um þessi frv. hér á þinginu milli þm. og ríkisstj., en nú eru þeir hættir teknir upp, að þrír ráðh. tromma upp í ríkisútvarpinu, í hljóðvarpi og sjónvarpi, til þess að segja fólkinu, hvað felist í þessum frv. Stjórnarandstaðan fær enga aðstöðu til þess að gera sínar athugasemdir við það, sem sagt hefur verið, eða gera grein fyrir sinni skoðun á þessum frv., en sama dag segir hæstv. forsrh., að stjórnarandstaðan eigi auðvitað að hafa sömu aðstöðu og hæstv. ráðh. og ríkisstj. í fjölmiðlum eins og ríkisútvarpinu. Því miður eru fjölmargar og alvarlegar skekkjur í því, sem hæstv. ráðh. fóru með í sambandi við tekjuöflunarfrv. Ég fer ekki út í það nú, en það gefst tækifæri til þess við umr. að vekja athygli á því, en ég mun fyrir hádegi á morgun óska eftir því við ríkisútvarpið, að stjórnarandstaðan fái að gera sínar athugasemdir í ríkisútvarpinu, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi, vegna þeirra fréttaauka og þeirra upplýsinga, sem gefnar voru í ríkisútvarpinu á mánudagskvöldið. Heildarmyndin, sem þar er brugðið upp, er sú, að eiginlega lækki allir skattar í landinu meira og minna. Það eru tekin dæmi af handahófi, sem sýna lækkanir á vissum stigum hjá einstaklingum, en auðvitað er gengið að langmestu leyti fram hjá öðrum einstaklingum með aðrar tekjur og öðrum fjölskyldustærðum, en frá þeirra sjónarhóli kemur málið til með að líta allt öðruvísi út, þegar farið er að reikna út eftir þessum lögum. Ég vil hins vegar láta það koma fram, að það hefur verið mjög erfitt fyrir mig, þó að ég hafi leitað sérfræðilegrar aðstoðar í dag, að finna út, í hverju og hvernig útreikningar hæstv. ráðh. eru fengnir um það, hverjir skattar eigi að leggjast á einstakar fjölskyldur, eins og það er erfitt að finna, að það geti verið réttir útreikningar í sjálfum grg. frv., sem verður vikið að, þegar þar að kemur. Það er ekkert við þessu að segja, en það er athugavert, að hæstv. ráðh. koma hver á fætur öðrum í ríkisútvarpinu, ekki sízt þegar blöð koma ekki út í landinu, og gefa almenningi mjög villandi upplýsingar um það, hvað felst í tekjuöflunarfrv., sem um er að ræða. Ég minnist þess ekki, að það hafi komið fram upplýsingar um það, hvað þeir teldu, að tekjuskatturinn mundi verða hár í heild, en í raun og veru, ef það ætti að draga niðurstöður af því, sem sagt var af hæstv. fjmrh., þá skyldi maður ætla, að hann mundi sáralítið hækka.

Þegar allt þetta er athugað í heild, sem ég nú hef sagt, þá er það svo, að það eru sett inn hérna tekjuöflunarfrv. og með þeim hætti, sem gert var, með þeim hætti gagnvart almenningi í landinu, að ævinlega var nú verið að tala um það, að það ætti að leggja til, að nefskattinn ætti að afnema til almannatrygginganna, þ.e.a.s. persónugreiðslurnar, sem út af fyrir sig er rétt, en ekki nema hálfur sannleikur, því auðvitað er ekki verið að leggja þetta niður. Þegnarnir í þjóðfélaginu verða að borga þetta. Þeir verða bara að borga þetta með öðrum hætti. Það var lítil stúlka, sem kom heim til sín í dag úr skólanum til pabba síns og sagði: „Heyrðu pabbi, þetta er nú ágæt ríkisstj., sem við höfum. Nú þarft þú ekki að borga þessar 9 þúsundir eða rúmar 9 þús. fyrir mig í almannatryggingarnar lengur.“ „Nei, kæra dóttir mín, það verða ekki 9 þús. kr., það verður miklu hærri upphæð, sem ég þarf að borga fyrir þig í almannatryggingar, því auðvitað þurfa almannatryggingarnar að fá sínar tekjur.“ Þessi ágæta og góða ríkisstj., hún ætlar að gera það með öðrum hætti.

Að það geti virkilega vafizt fyrir mönnum hér á jafnmörgum klukkutímum eins og umr. hafa farið fram, hvað það eru mörg hundruð millj., margar þúsundir milljóna, sem vantar í tekjuöflun í stórum dráttum, ja, það er algjört einsdæmi og það er alveg óverjandi, og mér finnst þetta vera, eins og ég orðaði það í dag, óvirðing við Alþ. og óvirðing við þegnana í þjóðfélaginu, að hæstv. ráðh. skuli hlusta á það, að menn geri því skóna hér hver á fætur öðrum, hvað þetta eru miklar upphæðir, hvað þetta eru margar þúsundir millj. kr., biðja um leiðréttingar, ef þær eru ekki réttar, og þeim er bara ekki anzað. Hv. þm. eru bara hunzaðir, en það eru ekki bara þm., sem eru hunzaðir, landsmenn eru líka hunzaðir og það er gert í trausti þess, að eins og nú standa sakir er erfitt að koma upplýsingum á framfæri við almenning, og almenningur hefur ekki fengið neinar upplýsingar um þessa hlið málsins í sambandi við tekjuöflunina nema þær, sem ég hef áður vikið að. Ég held þess vegna að það sé engum hlöðum um það að fletta, að þessi afgreiðsla fjárlaga, þessi 2. umr. er alger málamyndaafgreiðsla að öðru leyti en því, að það er rétt, sem fram hefur verið tekið, að fjvn.-menn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, hafa unnið úr ýmsum umsóknum, málum og beiðnum, sem fyrir hafa legið, og afgreitt sameiginlega till., sem nema eitthvað um 700 millj. kr. eða rúml. það, 7–8 hundruð millj. kr. til hækkunar frá því, sem áður var, og standa allir að því, og ég sagði hér áður á þessum degi, að við gætum út af fyrir sig afgreitt fjárlög, lokið 2. umr. og afgreitt þá þessar till., sem ég geri ráð fyrir, að menn yfirleitt standi saman um, en hinu hefði ég aldrei búizt við, að svo lyki þessari umr., að það væri algjörlega óljóst um tekjuöflunina og hvað gert væri ráð fyrir, að þau tekjufrv., sem lögð hafa verið fyrir, muni gefa í aðra hönd. Vita hv. þm. stjórnarflokkanna, hvað felst í þessum frv? Hafa þeir kynnt sér það? Þurfa þeir ekki að fá upplýsingar um það? Hafa þeir játazt undir það við hæstv. ríkisstj. að vera með frv., sem ekkert er vitað um, hvað felst mikil skattlagning í og með hvaða hætti til þjóðfélagsþegnanna, er virkilega komið svo? Ég get vel skilið það, að ríkisstj., sem hefur meiri hl. á Alþ. og sérstaklega, ef það er tryggur meiri hl., hún geti lýst því yfir, að við munum eftir einhvern tiltekinn tíma, stuttan tíma afgreiða frv. eins og slíkt tekjuöflunarfrv., sem þetta er, af því að við vitum, að hún hefur meiri hl. á Alþ. fyrir afgreiðslu þessara mála. En vita hv. þm. stjórnarflokkanna, hvað felst í þessu frv., hvað felst í tekjuskattsfrv? Gefur það, — eins og sagt hefur verið utan þingsalanna, því það er nú ekki talað um slíkt mál hér inni í þingsölunum, — gefur tekjuskattsfrv. og eignarskattsfrv. 1 600 millj. kr. eða gefur það innan við 1 000 millj. kr. tekjuskatt? Ja, mér er sagt, að sérfræðingur ríkisstj. hafi sagt 1 600 millj., og mér er sagt af öðrum sérfræðingum, að það gefi minna og það muni meira að segja vera svo, að hlutfallsleg hækkun á sköttum sé meiri á lægri tekjum heldur en á hærri tekjum, sem er nú allt annað en látið hefur verið í veðri vaka, á tekjum, sem eru kannske 4–5 og 600 þús. kr., að í vissum tilfellum sé hlutfallsleg hækkun jafnvel meiri en þegar komið er upp í 800 þús. kr. tekjur. En þetta er hlutur, sem verður auðvitað að ræðast nánar við meðferð þeirra mála, en mér finnst, að stjórnarandstaðan eigi a.m.k. rétt á því, miðað við það, sem ráðh. hafa gefið í skyn fyrir almenning í ríkisútvarpinu, að fá að gera sínar athugasemdir við það, og eins og ég sagði, mun ég fara þess á leit við ríkisútvarpið á morgun, hvort sem orðið verður við því eða ekki.

Ég skal svo ljúka máli mínu, herra forseti, og ekki hafa það lengra, en ég held, að ekkert hafi staðfest betur en umræðurnar í dag og þær lélegu upplýsingar eða litlu eða næstum því engu upplýsingar, sem við höfum fengið frá hæstv. ríkisstj., að meðferðin og undirbúningurinn á fjárlögunum og tekjuöflunarfrv., sem er grundvöllur fjárlaganna, — og það er það, sem við höfum sérstaklega verið að gagnrýna, — er algjörlega með einsdæmum, og þetta er hlutur, sem þjóðin á að fá að vita, og auðvitað munum við í stjórnarandstöðunni gera okkar bezta til þess að svo verði, þó að hæstv. stjórnarherrar skáki nú í því skjólinu, að þeir geti leynt almenning því sanna í þessu einhvern tíma enn, en ekki ætti það lengi að verða og víst er um það, að aðalumræðurnar um þessi mál koma fram síðar með þeim hætti, að almenningur á að eiga þess kost að heyra þær, hæði héðan úr þingsölunum og með öðrum hætti.