17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í D-deild Alþingistíðinda. (4910)

916. mál, Tækniskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda á það í sambandi við svar hæstv. menntmrh. við fram kominni fsp., að lögin um Tækniskóla Íslands eru frá árinu 1963, nr. 25 það ár. Þegar þessi lög voru sett og frv. til þeirra laga var til meðferðar hér á Alþ., þá voru uppi till. um það, að skólinn yrði staðsettur á Akureyri, og ef ég man rétt, þá kom fram á formlegan hátt brtt. þess efnis. Það vil ég þó ekki alveg fullyrða, að hún hafi komið fram formlega, en mig minnir það þó. En a.m.k. var hún í umr. manna um þessi mál. Þá áttu sér stað hér við meðferð málsins viðtöl okkar þm. að norðan, a.m.k. sumra, við þáv. hæstv. menntmrh. um þetta mál. Og það varð að samkomulagi, að ekki væri í það sinn haldið til streitu till. um staðsetningu skólans á Akureyri, en inn í lögin skyldi sett það, sem hér stendur, að heimilt sé auk undirbúningsdeildar að starfrækja bekkjardeildir á Akureyri og að því skuli stefnt, að þar rísi sjálfstæður tækniskóli. Og það ákvæði stendur í lögunum. Þetta gerðist sem sé á árinu 1963, og síðan eru 9 ár, og ég verð að telja fyrir mitt leyti, að það hafi síðan ekki verið efnt af hálfu yfirvalda að stefna að því, að upp rísi sjálfstæður tækniskóli á Akureyri, og alveg sérstaklega sýnist mér nauðsynlegt að undirstrika þetta, þegar stjfrv. kemur nú fram, þar sem ekki er gert ráð fyrir tækniskóla á Akureyri, að það sé enn ekki að því stefnt, sem sett var í lög 1963. Nú veit ég, að hæstv. núv. menntmrh. er ókunnugur því, sem fram fór á Alþ. í sambandi við þetta mál fyrir 9 árum. En ég vildi eindregið mælast til þess við hann, að hann taki þetta mál til nýrrar athugunar. Frv. um Tækniskóla Íslands er nú í Ed., og verði þessu máli ekki til lykta ráðið þar í deild á þann hátt, sem menn, sem áhuga hafa haft fyrir tækniskóla á Akureyri, geti við unað, þá verður ekki hjá því komizt, að brtt. við það komi fram hér í deild. En það er mjög gott, að þessi fsp. er fram komin, einmitt til þess að ráðrúm sé til þess, áður en frv. kemur til Nd., að athuga þetta atriði.

Ég er fyrir mitt leyti að verða þreyttur á því, — ég er nú búinn að sitja lengi á Alþ. og er kannske orðinn þreyttur á ýmsu, — en ég er að verða þreyttur á því sífellda tali, sem hér er í þingsölum um, að það eigi að stuðla að því að flytja opinberar stofnanir frá höfuðborginni og dreifa þeim um landið eftir því sem tök eru á, þessu sífellda tali um það, þegar engar framkvæmdir verða. Mér er það átakanlega í minni síðan á síðasta þingi, þegar rætt var um stofnun fiskvinnsluskóla. Það mál var búið að vera á döfinni í 10 ár, og það var einmitt hv. fyrri fyrirspyrjandi þessarar till., sem hefur sérstaklega beitt sér fyrir því máli, en það var búið að vera 10 ár á döfinni, og loksins eftir 10 ár er samþ. að koma upp fiskvinnsluskóla hjá þessari mestu fiskvinnsluþjóð heimsins, og þá þurfti hann endilega að vera í Reykjavík. Mönnum sýndist t.d. ekki að setja þann skóla niður á Ísafirði, þar sem hann hefði sýnilega verið vel settur, og mér dettur Ísafjörður í hug í sambandi við fiskvinnsluskólann, vegna þess að einmitt bæjarstjórnin á Akureyri, sem kemur við sögu í þessu máli hér í dag, hefur í ályktunum sínum um þessi mál lagt það til, að fiskvinnsluskólinn yrði ekki á Akureyri, heldur á Ísafirði. Nú er aftur á móti verið að tala um að stefna að því að setja niður undirbúningsdeild fyrir tækniskóla á Ísafirði. Ég hygg, að það hefði verið nær lagi að gera ráð fyrir, að fiskvinnsluskólinn yrði þar, a.m.k. einn af þeim, sem gert er ráð fyrir að setja upp í sambandi við þau lög. En ég ætla ekki að fara að ræða hér um fiskvinnsluskóla, og ég skal ekki fara fram yfir það tímamark, sem hér er sett, en ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. ráðh., að hann athugi nánar þetta mál, um leið og ég lýsi ánægju minni yfir, að þessi fsp. skuli vera fram komin.